Útgreiðslur

Að mörgu er að hyggja þegar kemur að útgreiðslu lífeyrissparnaðar. Frjálsi býður sjóðfélögum upp á sjálfsafgreiðslu auk persónulegrar útgreiðsluráðgjafar.

Í Arion appinu er hægt að sækja um útgreiðslu frjálsrar séreignar vegna aldurs og erfða. Útgreiðsluferlið er einfalt og aðeins opið þeim sem náð hafa viðmiðunaraldri eða eiga erfðaséreign. Ef þú vilt kynna þér málið betur mælum við með að horfa á fræðslumyndband.

Þú getur auk þess bókað tíma með ráðgjafa með því að smella á hnappinn hér fyrir neðan. 

Frjálsi stendur reglulega fyrir opnum fræðslufundum um útgreiðslu lífeyrissparnaðar.

Í útgreiðslureiknivél Frjálsa getur þú sett inn þínar forsendur.

Frjálsi leggur áherslur á rafrænar leiðir:

  • Í appinu getur þú sótt um útgreiðslu frjálsrar séreignar vegna aldurs og erfða.
  • Í appinu og á Mínum síðum getur þú séð heildarstöðu lífeyrissparnaðar þíns hjá Frjálsa.
  • Í appinu geturðu séð áunnin og áætluð eftirlaun við starfslok og áhrif frestunar/flýtingar.
  • Í appinu geturðu skoðað áætlaða fjárhæð séreignar við starfslok og mánaðarlega útgreiðslu.
  • Á Mínum síðum getur þú séð stöðuna á skyldusparnaði þínum hjá öðrum sjóðum.
  • Á Mínum síðum getur þú sótt um útgreiðslu og breytt fyrri útgreiðsluumsóknum.

Arion appið Mínar síður Skoða útgreiðslureiknivél 

Viltu vita meira? 

Hér fyrir neðan getur þú kynnt þér útgreiðsluupplýsingarútgreiðslureglur Frjálsa og svör við helstu spurningum sjóðfélaga í tengslum við útgreiðslur lífeyrissparnaðar.

Útgreiðsluupplýsingar

  • Lífeyrir: er greiddur út síðasta virka dag mánaðar. Berist umsókn um eftirlaun 20. dag mánaðar eða fyrr eru eftirlaun greidd síðasta virka dag sama mánaðar, annars síðasta virka dag næsta mánaðar. Frá móttöku umsóknar til útgreiðslu maka- og barnalífeyris geta liðið allt að 8 vikur og allt að 16 vikur vegna örorku- og barnalífeyris.
  • Séreign: mánaðarlegar útgreiðslur fara fram síðasta virka dag mánaðar. Umsóknir þurfa að berast fimm virkum dögum fyrir útgreiðsludag. Eingreiðslur og skattfrjáls húsnæðissparnaður greiðast 15. og síðasta virka dag mánaðar en beri útgreiðsludagur upp á frídegi fer útgreiðsla fram á síðasta virka degi á undan. Ef umsókn um eingreiðslu berst í gegnum app er greitt út fimm virkum dögum eftir að umsókn berst.    
  • Skattlagning: greiddur er tekjuskattur við útgreiðslu en hvorki erfðafjárskattur né fjármagnstekjuskattur. Umsækjendur upplýsa um nýtingu skattþrepa og persónuafsláttar en Frjálsi stendur skil á staðgreiðslu til ríkisins. Nánar á skatturinn.is
  • Samspil við TR: sjóðfélagar eru hvattir til að leita ráðgjafar hjá TR vegna tekjutenginga, en útgreiðslur bæði samtryggingar og séreignar, nema 4%+2% viðbótarsparnaðar,  teljast til tekna og lækka greiðslur TR um 45% eftir að frítekjumarki er náð. Nánar í spurt og svarað og á vefsíðu TR.

Útgreiðslureglur Frjálsa

Útgreiðslum lífeyris og séreignar úr Frjálsa má einkum skipta í þrjá flokka eftir aðstæðum þ.e. vegna aldurs, örorku og andláts. En fleira kemur til svo sem skattfrjáls viðbótarsparnaður/tilgreind séreign til íbúðakaupa svo og endurgreiðslur iðgjalda vegna brottflutnings erlendra ríkisborgara frá Íslandi. Útgreiðslureglur er að finna í flipunum hér fyrir neðan.

 

Eftirlaun er greidd mánaðarlega úr Frjálsa eftir 60 ára aldur og til æviloka.

  • Í Frjálsa eiga sjóðfélagar réttindi í a.m.k. einni af þremur skyldusparnaðarleiðum sjóðsins. 
  • Frjálsa leiðin: eftirlaun greiðast úr samtryggingu. Viðmiðunaraldur er 70 ára. Flýta má til allt að 60 ára gegn lægri mánaðarlegri fjárhæð eða fresta til allt að 80 ára gegn hærri. 
  • Tryggingaleiðin: eftirlaun greiðast úr samtryggingu. Viðmiðunaraldur er 67 ára. Flýta má til allt að 60 ára gegn lægri mánaðarlegri fjárhæð eða fresta til allt að 80 ára gegn hærri. 
  • Erfanlega leiðin: eftirlaun greiðast úr bundinni séreign á fyrri hluta eftirlaunaáranna og samtryggingu á seinni hluta þeirra. Viðmiðunaraldur er 70 ára. Flýta má bundinni séreign til allt að 60 ára gegn lægri mánaðarlegri fjárhæð eða fresta til allt að 85 ára gegn hærri. Flýta má samtryggingu til allt að 82 ára gegn lægri mánaðarlegri fjárhæð en útgreiðsla samtryggingar hefst eigi síðar en 85 ára. Útgreiðslum bundinnar séreignar skal þá vera lokið. Eingreiðsla bundinnar séreignar er heimil þegar inneign er/fer undir viðmiðunarfjárhæð, 1.753.026 kr. (2024). Við það falla mánaðargreiðslur niður þar til samtrygging tekur við. Frjálst er að dreifa eingreiðslu á fleiri mánuði t.d. vegna skattahagræðingar. Ein sérstaða Erfanlegu leiðarinnar er erfanleg séreign því sá hluti bundinnar séreignar sem ekki greiðist sjóðfélaga, erfist að fullu.
  • Komi til orkutaps eftir 60 ára en fyrir viðmiðunaraldur eftirlauna þá er almenna reglan að sækja um örorkulífeyri fremur en flýta eftirlaunum. Ef eftirlaunagreiðslur úr samtryggingu eru hafnar er ekki hægt að sækja um örorkulífeyri, þrátt fyrir orkutap. Fjárhæð eftirlauuna skerðist ekki þó sjóðfélagi hafi áður fengið örorkulífeyri.
  • Lífeyrisréttindi eru verðtryggð og fer síðasta greiðsla fram síðasta virka dag andlátsmánaðar. Ekki er greitt aftur í tímann. Upplýsingar um fjárhæð eftirlauna er að finna í spurt og svarað hér neðar á síðunni.
  • Hálfur lífeyrir: sjóðfélagi sem greitt hefur skylduiðgjald í Frjálsa, náð 60 ára aldri og ekki hafið töku eftirlauna getur sótt um hálfan ellilífeyri. Þá er t.d. hægt að flýta helmingi réttinda gegn lægri mánaðarlegri fjárhæð og fresta hluta til viðmiðunaraldurs eða lengur gegn hærri mánaðarlegri fjárhæð. Samhliða er hægt að sækja um hálfan ellilífeyri hjá TR, en um hann gildir sérstakt frítekjumark, nánar hér.
  • Sjá útgreiðslureglur séreignar vegna aldurs hér.
  • Reikna dæmið hér.
  • Sækja um útgreiðslu hér.

Örorku- og barnalífeyrir er greiddur mánaðarlega úr Frjálsa á grundvelli orku- og tekjutaps.

  • Örorkulífeyrir er greiddur hafi sjóðfélagi greitt í lífeyrissjóð í a.m.k. 2 ár, ekki endilega 2 ár samfleytt og ekki endilega í sama sjóðinn allan tímann. Örorkulífeyrir er greiddur hafi verið um tekjuskerðingu að ræða af völdum orkutaps og ef orkutap er metið 50% eða meira og varir í minnst 6 mánuði. Fyrstu árin er miðað við vanhæfni til þess starfs sem sinnt var við orkutap en eftir það vanhæfni til almennra starfa. Heimilt er að gera endurhæfingu að skilyrði fyrir greiðslu örorkulífeyris.
  • Skilyrði til framreiknings örorkulífeyris eru að greitt hafi verið í lífeyrissjóð í minnst 3 af síðustu 4 almanaksárum fyrir orkutap. Þar af í minnst 6 mánuði af síðustu 12 mánuðum fyrir orkutap og að greitt hafi verið árlegt lágmarksiðgjald. Ekki má rekja orkutap til ofnotkunar áfengis, lyfja eða fíkniefna.
  • Fjárhæð örorkulífeyris miðast því ýmist við áunnin eða framreiknuð ellilífeyrisréttindi. Fjárhæð áunnins örorkulífeyris getur mest orðið 100% af áunnum ellilífeyrisréttindum en er oft lægri því örorkuprósenta og tekjutap hafa áhrif á fjárhæð. Ekki er hægt að segja til um fjárhæð örorkulífeyris við móttöku umsóknar, tekjuupplýsingar og örorkumat þurfa að liggja fyrir til að hægt sé að úrskurða um fjárhæð. Fjárhæð hækkar ef framreikningsskilyrði eru uppfyllt. Þá eru til viðbótar framreiknuð þau réttindi sem áunnist hefðu með því að greiða jafnmikið í lífeyrissjóð til 65 ára og gert var síðustu árin fyrir orkutap. Almennt er tekið mið af meðaltekjum 3ja síðustu ára en í undantekningartilfellum síðustu átta ára.
  • Barnalífeyrir er greiddur með hverju barni/kjörbarni/ættleiddu barni sjóðfélaga til 18 ára. Einnig fóstur- og stjúpbörnum sem sjóðfélagi hefur framfært að mestu eða öllu leyti. Greitt er með börnum sem fædd eru eða ættleidd fyrir orkutap örorkulífeyrisþega. Greitt er til sjóðfélaga, jafnvel þó að barn búi hjá fyrrverandi maka sjóðfélaga. Heimilt er að greiða inn á reikning barns frá 16 ára aldri, liggi framsalsheimild sjóðfélaga fyrir. Barnalífeyrir er föst fjárhæð sem breytist árlega. Fullur barnalífeyrir með hverju barni er 19.283 kr. (2024). Fjárhæðin lækkar ef árleg lágmarksiðgjöld ná ekki viðmiðum síðustu tveggja almanaksára fyrir orkutap eða vegna lægri örorkuprósentu. Barnalífeyrir er ekki framreiknaður.
  • Örorku- og barnalífeyrir er greiddur mánaðarlega og eru lífeyrisréttindi verðtryggð. Fyrsta greiðsla er almennt hærri vegna þeirra mánaða sem liðið hafa frá orkutapi til fyrstu útgreiðslu. Greitt er allt að tvö ár aftur í tímann, þó ekki vegna fyrstu 3ja mánaða eftir orkutap. Örorku- og barnalífeyrir er aldrei greiddur í eingreiðslu fram í tímann. Örorkulífeyrir er greiddur þar til sjóðfélagi öðlast starfsorku á ný eða þar til mat á örorku fer undir 50% eða þar til ellilífeyrir tekur við. Greiðslum barnalífeyris lýkur við 18 ára aldur hvers barns eða þegar réttur til örorkulífeyris sjóðfélaga fellur niður. Þó ekki vegna breytinga af örorkulífeyri á ellilífeyri. Útgreiðslur örorkulífeyris skerða ekki ellilífeyri en ellilífeyrir getur orðið hærri eða lægri en örorkulífeyrir. Samanlögð fjárhæð örorku- og barnalífeyris skal aldrei vera hærri en tekjutap vegna örorku.
  • Örorkumat er læknisfræðilegt og þarf sjóðfélagi að skila til sjóðsins læknisvottorði vegna örorku ásamt umsókn. Trúnaðarlæknar sjóðsins sjá um að úrskurða um örorku sjóðfélaga og sinna endurmati þeirra.
  • Sjá einnig útgreiðslureglur séreignar vegna örorku, hér.
  • Sækja um útgreiðslu hér.

Makalífeyrir er greiddur úr Frjálsa í a.m.k. tvö ár eftir andlát sjóðfélaga og barnalífeyrir til 18 ára.

 

  • Makalífeyrir er greiddur hafi sjóðfélagi látið eftir sig maka, greitt í lífeyrissjóð í a.m.k. 2 ár, ekki endilega 2 ár samfleytt og ekki endilega í sama sjóðinn allan tímann. Eða sjóðfélagi hafi notið ellilífeyris/örorkulífeyris/öðlast rétt til framreiknings úr sjóðnum.
  • Skilyrði til framreiknings makalífeyris eru að greitt hafi verið í lífeyrissjóð í minnst 3 af síðustu 4 almanaksárum fyrir andlát. Þar af í minnst 6 mánuði af síðustu 12 mánuðum fyrir andlát og að greitt hafi verið árlegt lágmarksiðgjald.
  • Fjárhæð makalífeyris miðast því ýmist við áunnin eða framreiknuð ellilífeyrisréttindi. Fjárhæð áunnins makalífeyris er 50% af áunnum ellilífeyrisréttindum sjóðfélaga við andlát, en fjárhæð hækkar ef framreikningsskilyrði eru uppfyllt. Þá eru til viðbótar framreiknuð 50% þeirra réttinda sem áunnist hefðu með því að greiða jafnmikið í lífeyrissjóð til 65 ára og gert var síðustu árin fyrir andlát. Almennt er tekið mið af meðaltekjum 3ja síðustu ára en í undantekningartilfellum síðustu átta ára.
  • Greitt er til eftirlifandi maka. Maki telst sá sem var í hjúskap eða óvígðri sambúð með sjóðfélaga við andlát, enda hafi fjárfélagi ekki verið slitið. Með óvígðri sambúð er átt við sambúð tveggja einstaklinga sem eiga sameiginlegt lögheimili, eru samvistum, eiga barn saman, eiga von á barni saman eða sambúðin hefur varað samfleytt í a.m.k. tvö ár.
  • Barnalífeyrir er greiddur með hverju barni/kjörbarni/ættleiddu barni sjóðfélaga til 18 ára. Einnig fóstur- og stjúpbörnum sem sjóðfélagi hefur framfært að mestu eða öllu leyti. Greitt er með ófæddum börnum látins sjóðfélaga. Greitt er til framfæranda. Heimilt er að greiða inn á reikning barns frá 16 ára aldri, liggi framsalsheimild framfæranda fyrir. Barnalífeyrir er föst fjárhæð sem breytist árlega. Fullur barnalífeyrir með hverju barni er 26.295 kr. (2024). Fjárhæðin lækkar ef árleg lágmarksiðgjöld ná ekki viðmiðum síðustu tveggja almanaksára fyrir andlát. Barnalífeyrir er ekki framreiknaður.
  • Maka- og barnalífeyrir er greiddur mánaðarlega og eru lífeyrisréttindi verðtryggð. Fyrsta greiðsla er almennt hærri vegna þeirra mánaða sem liðið hafa frá andláti til fyrstu útgreiðslu. Greitt er allt að tvö ár aftur í tímann. Makalífeyrir er greiddur minnst tvö ár frá andláti. Makalífeyrir er greiddur í eingreiðslu ef makalífeyrisréttindi eru lægri en viðmiðunarfjárhæð 3.278 kr. (ágúst 2021) en barnalífeyrir er aldrei greiddur í eingreiðslu fram í tímann. Hafi maki barn yngra en 18 ára á framfæri sem sjóðfélagi framfærði áður, eða ef maki er a.m.k. 50% öryrki og yngri en 67 ára, er makalífeyrir greiddur meðan það ástand varir. Eða þar til maki gengur í hjónaband á ný/stofnar til sambúðar sem jafna má til hjúskapar. Greiðslum barnalífeyris lýkur við 18 ára aldur hvers barns. Barnalífeyrisgreiðslur falla ekki niður þó að maki gangi í hjónaband á ný/stofni til sambúðar sem jafna má til hjúskapar.
  • Sjá einnig útgreiðslureglur séreignar vegna andláts, hér.
  • Sækja um útgreiðslu hér.

Skattfrjáls ráðstöfun viðbótarsparnaðar vegna íbúðakaupa og íbúðalána.

  • Úrræðin eru tvö þ.e. úrræði fyrstu íbúðar og almenna úrræðið.
  • Leiðir hvors úrræðis fyrir sig eru tvær þ.e. húsnæðissparnaður og reglulegar greiðslur inn á lán, nánari upplýsingar hér
  • Sótt er um úrræði fyrstu íbúðar á skattur.is almenna úrræðið á leidretting.is.

Séreign greidd til sjóðfélaga vegna aldurs. 

  • Frjáls séreign viðbótarsparnaðar: frá 60 ára er frjáls séreign laus til útgreiðslu, að vali sjóðfélaga, þó ekki fyrr en tveimur árum eftir greiðslu fyrsta iðgjalds. Hægt er að óska eftir mánaðarlegum eða árlegum greiðslum auk eingreiðslu. Viðbótarsparnaður 4%+2% skerðir ekki greiðslur Tryggingastofnunar. 

Eftirtaldar séreignartegundir skerða greiðslur Tryggingastofnunar, samkvæmt lögum sem tóku gildi 1, janúar 2023, nánar hér.

  • Frjáls séreign skyldusparnaðar: frá 60 ára er frjáls séreign laus til útgreiðslu, að vali sjóðfélaga, þó ekki fyrr en tveimur árum eftir greiðslu fyrsta iðgjalds. Hægt er að óska eftir mánaðarlegum eða árlegum greiðslum auk eingreiðslu.
  • Bundin séreign: frá 60 ára geta útgreiðslur bundinnar séreignar fyrst hafist en bundin séreign tryggir eftirlaun á fyrri hluta eftirlaunaáranna. Nánar í útgreiðslureglum ellilífeyris hér að ofan.
  • Tilgreind séreign: frá 62 ára geta mánaðarlegar útgreiðslur tilgreindrar séreignar fyrst hafist og skulu mánaðarlegar greiðslur dreifast til 67 ára aldurs. Eingreiðsla er þó heimil þegar tilgreind séreign fer undir viðmiðunarfjárhæð, 1.753.026 kr. (2024) og frá 67 ára er heimilt að greiða tilgreinda séreign í eingreiðslu, óháð fjárhæð, nema sjóðfélagi óski eftir öðru.  
  • Reikna dæmið hér.
  • Sækja um útgreiðslu hér.

Séreign greidd til sjóðfélaga vegna örorku.

Sjóðfélagar eru hvattir til að kynna sér þær lagabreytingar sem taka gildi 1. janúar 2023 og varða útgreiðslu séreignar og tekjutengingar TR, nánar hér.

  • Tilgreind séreign og frjáls séreign skyldu- og viðbótarsparnaðar: verði sjóðfélagi 10% öryrki eða meira getur hann óskað eftir útgreiðslu frjálsrar og tilgreindrar séreignar, þó ekki fyrr en tveimur árum eftir greiðslu fyrsta iðgjalds. Skulu greiðslur að lágmarki dreifast jafnt á sjö ár ef um 100% örorku er að ræða. Hægt er að óska eftir mánaðarlegum eða árlegum greiðslum. Eingreiðsla er þó heimil þegar tilgreind séreign/frjáls séreign fer undir viðmiðunarfjárhæð, 1.753.026 kr. (2024).
  • Bundin séreign: greiðist ekki út á grundvelli örorku. Örorkulífeyrisþegar sem náð hafa 60 ára aldri geta hins vegar hafið útgreiðslur bundinnar séreignar samhliða örorkulífeyri úr samtryggingu, á grundvelli aldurs, kjósi þeir það.
  • Sjá einnig útgreiðslureglur örorku- og barnalífeyris, hér.
  • Sækja um hér.

Séreign greidd til erfingja sjóðfélaga vegna andláts.

  • Erfðaséreign: við andlát sjóðfélaga verður öll séreign þ.e. frjáls, bundin og tilgreind séreign að erfðaséreign. Greiddur er tekjuskattur við útgreiðslu en hvorki erfðafjárskattur né fjármagnstekjuskattur.
    • Maki og börn erfa séreign: hafi hinn látni verið í hjónabandi við andlát öðlast maki og/eða börn rétt til helmings séreignar samkvæmt reglum erfðalaga en helmingur er skilgreindur sem hjúskapareign samkvæmt hjúskaparlögum og rennur því eingöngu til maka. Þetta þýðir að maki fær 2/3 af séreign og börn fá 1/3 af séreign þ.e. börn sem eru blóðskyld sjóðfélaga og kjörbörn hans (ættleidd börn), en ekki stjúpbörn eða fósturbörn. Ef barn sjóðfélaga er látið, erfa niðjar hins látna barns hlut þess. Þrátt fyrir framvísun kaupmála, erfðaskrár eða leyfis til setu í óskiptu búi er ekki heimilt að ráðstafa séreign öðruvísi en rakið er hér að ofan en lög nr. 129/1997 fela í sér tilgreinda sérreglu sem kveður á um að séreign erfist framhjá dánarbúi ef sjóðfélagi lætur eftir sig maka og/eða barn, sjá 2. málslið 4. mgr. 11. gr. og 2. málslið 2. mgr. 8. gr. Maki og börn öðlast um leið ráðstöfunarrétt yfir erfðaséreign og geta hvert um sig óskað eftir mánaðarlegum greiðslum, árlegum greiðslum, óreglulegum greiðslum eða eingreiðslu, eftir því hvað hentar hverjum og einum.
    • Maki erfir alla séreign: hafi sjóðfélagi verið í hjónabandi við andlát og lætur ekki eftir sig börn eða niðja. Erfðaréttur fellur niður við skilnað að borði og sæng sbr. 26. gr. erfðalaga. 
    • Börn erfa alla séreign: hafi sjóðfélagi ekki verið í hjónabandi við andlát. Börn erfa þá þann hlut sem maki hefði annars erft.
    • Séreign rennur í dánarbú: láti sjóðfélagi ekki eftir sig skylduerfingja þ.e. hvorki maka eða börn, þá rennur séreign til dánarbús sjóðfélaga. Greitt er í eingreiðslu inn á reikning dánarbús.
  • Höfnun erfðaséreignar: erfingjar, einn eða fleiri, geta hafnað/afsalað sér rétti til erfðaséreignar, áður en útgreiðslur hefjast. Hægt er að hafna til hagsbóta til hvaða skylduerfingja sem er. T.d. geta börn sem vilja að erfðaséreign renni óskipt til eftirlifandi maka hafnað sínum rétti en forsendan fyrir að maki fái allt er að öll börn hafni rétti. Höfnun er val, engum er skylt að hafna. Ófjárráða er óheimilt að hafna.
  • Reikna dæmið hér.
  • Sjá einnig útgreiðslureglur maka- og barnalífeyris, hér.
  • Sækja um hér.

Endurgreiðsla iðgjalda til ríkisborgara utan samningsríkja við brottflutning frá Íslandi.

  • Erlendir ríkisborgarar geta, skv. 4. mgr. 19. gr. laga nr. 129/1997, sótt um endurgreiðslu iðgjalda við brottflutning frá Íslandi að því gefnu að það sé ekki bannað skv. milliríkjasamningum sem Ísland er aðili að. Ísland er nú þegar með milliríkjasamninga við yfir þrjátíu ríki sem hér verða nefnd samningsríki þ.e. Bandaríkin og EES ríkin, auk Sviss þ.e. öll EFTA- og ESB ríkin.
    • EFTA ríkin eru Ísland, Noregur, Liechtenstein og Sviss. Vakin er athygli á að Sviss telst hér til samningsríkja þrátt fyrir að vera ekki aðili að EES samningi ESB ríkjanna og hinna EFTA ríkjanna. Sviss telst hér til samningsríkja vegna aðildar sinnar að Vadus samningi EFTA ríkjanna.
    • ESB ríkin eru Austurríki, Belgía, Búlgaría, Danmörk, Eistland, Finnland, Frakkland, Grikkland, Holland, Írland, Ítalía, Króatía, Kýpur (gríski hlutinn), Lettland, Litháen, Lúxemborg, Malta, Portúgal, Pólland, Rúmenía, Slóvakía, Slóvenía, Spánn, Svíþjóð, Tékkland. Ungverjaland, Þýskaland.
  • Sjóðfélagi sem er með ríkisborgararétt í samningsríki: ekki er heimilt að endurgreiða honum lífeyrissparnað sinn vegna brottflutnings frá Íslandi. Ef um tvöfalt ríkisfang er að ræða er ekki heimild til endurgreiðslu ef annað er innan samningsríkis. Ríkisföngin þyrftu bæði að vera utan samningsríkja til að endurgreiðsla sé heimil.
  • Sjóðfélagi sem er ekki með ríkisborgararétt í samningsríki og er ekki að flytja til samningsríkis: heimilt er að endurgreiða honum lífeyrissparnað sinn vegna brottflutnings frá Íslandi. Þá er framlag sjóðfélaga og launagreiðanda endurgreitt með verðbótum, en án vaxta. Greiddur er tekjuskattur við útgreiðslu.
  •     Breskir ríkisborgarar vegna BREXIT: sérreglur gilda um breska ríkisborgara sem voru með ríkisborgarrétt í samningsríki til 1. janúar 2021 þ.e. meðan Bretland var     enn hluti af ESB. Heimilt er að endurgreiða iðgjöld vegna janúar 2021 og síðar, til breskra ríkisborgara sem flutt hafa til Íslands og hafið störf á Íslandi 1. janúar 2021 eða síðar, sbr. útgöngusamning EFTA ríkjanna við Breta frá 1. janúar 2021.

  • Sækja um hér.

Reimbursement of nationals of non-contracting states when moving away from Iceland.

  • Pursuant to Article 19 (4) of Act No. 129/1997 foreign nationals can apply for reimbursement of premiums when they move away from Iceland provided that this is not prohibited under international agreements to which Iceland is party.  Iceland currently has international agreements with more than 30 countries which here will be called contracting states.  The contracting states are the United States and members of the EEA, plus Switzerland, i.e. all EFTA and EU states.
  • The EFTA member states are Iceland, Norway, Liechtenstein and Switzerland.  Please note that Switzerland is considered a contracting state despite not being party to the EEA agreement with the EU states and the other EFTA states. Switzerland is considered a contracting state here by virtue of its being a party to the Vaduz convention of the EFTA states.
  • The EU member states are Austria, Belgium, Bulgaria, Croatia, Cyprus (Greek Cypriot administered area), the Czech Republic, Denmark, Estonia, Finland, France, Germany, Greece, Hungary, Ireland, Italy, Latvia, Lithuania, Luxembourg, Malta, the Netherlands, Portugal, Poland, Romania, Slovakia, Slovenia, Spain, and Sweden.
  • A fund member who is a national of a contracting state:  it is not permitted to reimburse the fund member their pension savings when moving away from Iceland. In the case of dual nationality, it is not permitted to reimburse the fund member if one nationality is a contracting state and the other is not.  The nationalities both need to be non-contracting states for reimbursement to be permitted.
  • A fund member who is not a national of a contracting state and who is not moving to a contracting state: it is possible to reimburse the fund member their pension savings when moving away from Iceland. In such case, the contribution of fund members and employers will be reimbursed with inflation compensation, but without interest.  Income tax is payable on payouts.   
  •     Information for British nationals post Brexit: special rules apply to British nationals who had citizenship in a contracting nation until 1 January 2021, i.e. while the     United Kingdom was still a member of the EU.  It is permitted to reimburse premiums for January 2021 and later to British citizens who have moved to Iceland and     started working in Iceland on 1 January  2021 or later, cf. exit agreement between EFTA nations and the United Kingdom of 1 January 2021.

Spurt og svarað