Spurt og svarað um lagabreytingar sem taka gildi 1. janúar 2023
Hvaða lagabreytingar taka gildi þann 1. janúar 2023 sem varða séreign og tekjutengingar TR?
Samkvæmt breytingum á lögum um almannatryggingar sem taka gildi 1. janúar 2023 mun útgreiðsla séreignar úr lífeyrissjóði teljast til tekna og lækka greiðslur almannatrygginga frá Tryggingastofnun um 45% eftir að frítekjumarki er náð.
- Þetta gildir um útgreiðslu bundinnar, tilgreindrar og frjálsrar séreignar úr lífeyrissjóðum (skerðanleg séreign). Gildir ekki um útgreiðslu viðbótarlífeyrissparnaðar sem takmarkast við allt að 4% framlag sjóðfélaga og 2% framlag launagreiðanda (óskerðanleg séreign).
- Lækkunin á við um ellilífeyri ellilífeyrisþega og tekjutryggingu örorkulífeyrisþega TR, auk áhrifa á útreikninga á ráðstöfunarfé/dvalarkostnaði lífeyrisþega TR sem dvelja á stofnun. Þá ná áhrif lagabreytingarinnar einnig til lækkunar á heimilisuppbót og eingreiðslna orlofs- og desemberuppbótar til lífeyrisþega TR.
- Undanþága laganna: Útgreiðsla séreignar lækkar þó ekki greiðslur þeirra sem hafa þegar hafið töku lífeyris hjá TR eða sækja um lífeyri hjá TR fyrir 1. janúar 2023, að því gefnu að sótt sé um lífeyri með upphafs tíma réttinda vegna ársins 2022 eða fyrr. Ítarlegri upplýsingar er að finna á vefsíðu Tryggingastofnunar.
Get ég horft á upptöku af fræðslufundinum sem haldinn var þann 26. október síðastliðinn?
Já, þú getur horft á upptöku af fræðslufundinum hér.
Er markmið lagabreytingarinnar að jafna áhrif skylduiðgjalds lífeyrissjóða?
Hingað til hafa sjóðfélagar Frjálsa og annarra blandaðra lífeyrissjóða notið þeirrar sérstöðu að útgreiðsla séreignarhluta skylduiðgjalds hefur ekki talist til tekna hjá TR og því ekki lækkað lífeyri TR.
Markmið lagabreytingarinnar er að jafna áhrif skylduiðgjalds lífeyrissjóða með þeim hætti að frá 1. janúar 2023 hafi séreign og samtrygging skylduiðgjalds jöfn áhrif á lífeyrisgreiðslur almannatrygginga. Ítarlegri upplýsingar er að finna á vefsíðu Tryggingastofnunar.
Í hvaða tilfellum hefur lagabreytingin ekki áhrif?
- Ef þú hefur nú þegar hafið töku lífeyris TR
- Ef þú átt ekki von á að lífeyrir TR verði hluti af þínum eftirlaunum vegna annarra tekna
- Ef þú átt ekki skerðanlega séreign
- Að öllu óbreyttu mun séreign þín ekki lækka lífeyri TR; ef eina skerðanlega séreignin sem þú átt er frjáls séreign vegna skyldusparnaðar Frjálsa og þú hefur þegar hafið útgreiðslur hennar.
Í hvaða tilfellum hafa breytingarnar áhrif OG ég get brugðist við fyrir 1. janúar 2023?
Lagabreytingin hefur áhrif á þig ef þú átt skerðanlega séreign og þú átt á von á að lífeyrir TR verði hluti af þínum eftirlaunum, en hefur enn ekki hafið töku lífeyris TR.
Ef þú ert 65 ára og eldri þá getur þú komið í veg fyrir lækkanir á lífeyri TR:
- Með því að nýta undanþágu laganna og „hefja töku“ lífeyris TR fyrir 1. janúar 2023, með upphafi lífeyristöku v. ársins 2022 eða fyrr. Útgreiðsla lífeyris TR þarf ekki að eiga sér stað fyrir 1. janúar 2023 og réttur til greiðslna lífeyris TR þarf ekki að vera til staðar þegar sótt er um, nánar hér.
- Samhliða umsókn til TR þarftu að sækja um ellilífeyri úr lífeyrissjóðum. Bæði bundna séreign og samtryggingu ef þú ert í Erfanlegu leiðinni í Frjálsa. Úr bundinni séreign greiðast eftirlaun á fyrri hluta eftirlaunaáranna en úr samtryggingu á seinni hluta þeirra.
- Hafa skal í huga að snemmtaka lífeyris TR og úr lífeyrissjóðum leiðir af sér fleiri en lægri mánaðargreiðslur lífeyris.
Ef þú ert 60 ára og eldri þá getur þú lágmarkað lækkanir á lífeyri TR:
- Með því að sækja um, minnst eina greiðslu, í síðasta lagi 31. desember næstkomandi þá munu útgreiðslur þeirrar frjálsu séreignar skyldulífeyrissparnaðar hjá Frjálsa sem myndast hefur fyrir 1. janúar 2023, að öllu óbreyttu, ekki lækka lífeyri TR.
Sjá Umsókn um útgreiðslu séreignar til sjóðfélaga hér: Umsóknir - Frjálsi (frjalsi.is)
Í hvaða tilfellum hafa breytingarnar áhrif EN ég þarf ekki að bregðast við fyrir 1. janúar?
Lagabreytingin hefur áhrif á þig ef þú átt skerðanlega séreign og þú átt á von á að lífeyrir TR verði hluti af þínum eftirlaunum, en hefur enn ekki hafið töku lífeyris TR.
Ef þú ert 60 ára og eldri þá getur þú hvenær sem er, óháð 1. janúar 2023, lágmarkað eða komið í veg fyrir lækkanir á lífeyri TR:
- Með því að taka út óskerðanlega séreign samhliða lífeyri TR.
- Viðbótarlífeyrissparnaðar: laus frá 60 ára aldri, nánar hér.
- Með því að taka út skerðanlega séreign - áður en sótt er um lífeyri TR, eftir því sem útgreiðslureglur leyfa:
- Frjáls séreign skyldulífeyrissparnaðar: laus frá 60 ára aldri, nánar hér.
- Bundin séreign skyldusparnaðar: útgreiðslur geta fyrst hafist 60 ára og dreifast mánaðarlegar ellilífeyrisgreiðslur bundinnar séreignar að lágmarki til 82 ára þegar ellilífeyrisgreiðslur samtryggingar taka við, nánar hér.
- Tilgreind séreign: útgreiðslur geta fyrst hafist 62 ára og dreifast mánaðargreiðslur að lágmarki til 67 ára, nánar hér.
Áður en tekin er ákvörðun um að sækja um er mikilvægt að leggja mat á aðstæður, sjá umfjöllun um það í næstu spurningu.
Ættir þú að meta út frá aðstæðum hvenær henti að sækja um útgreiðslur lífeyris og séreignar?
Hvenær þarf að sækja um hjá TR til að útgreiðsla séreignar hafi ekki áhrif á lífeyri TR?
Sækja þarf um lífeyri frá TR fyrir 1. janúar 2023 til að útgreiðsla séreignar hafi ekki áhrif á lífeyrinn. Ítarlegri upplýsingar er að finna á vefsíðu Tryggingastofnunar.
- Nóg er að sækja um í síðasta lagi 31. desember 2022 en mikilvægt er að upphaf lífeyristöku sé á árinu 2022 eða fyrr. Ekki er gerð krafa um að fyrsta greiðsla eigi sér stað fyrir tímamarkið.
- Fullnægjandi er að hafa hafið töku örorkulífeyris eða hálfs ellilífeyris frá TR fyrir 1. janúar 2023 þ.e. ef hann er greiddur samfellt fram að töku ellilífeyris.
- Ef sótt er um lífeyri afturvirkt eftir 31. desember 2022 getur útgreiðsla séreignar haft áhrif á lífeyri almannatrygginga.
- Vakin er athygli á því að til að útgreiðslur lífeyris geti hafist frá TR þarf einnig að hefja útgreiðslur lífeyris úr lífeyrissjóðum. Í Frjálsu leiðinni í Frjálsa greiðist ellilífeyrir úr samtryggingu. Í Erfanlegu leiðinni í Frjálsa greiðist ellilífeyrir úr bundinni séreign á fyrri hluta eftirlaunaáranna en samtryggingu á seinni hluta eftirlaunaáranna.
Hvaða áhrif kemur það til með að hafa á lífeyri TR sem ég fæ greiddan eftir 1. janúar 2023 samhliða útgreiðslu frjálsrar séreignar skyldusparnaðar hjá Frjálsa ef ég hef útgreiðslu séreignarinnar á árinu 2022 eða fyrr?
Að öllu óbreyttu munu útgreiðslur þeirrar frjálsu séreignar skyldulífeyrissparnaðar hjá Frjálsa sem myndast hefur fyrir 1. janúar 2023 ekki lækka lífeyri almannatrygginga ef sótt er um útgreiðslu á árinu 2022 eða fyrr.
Aftur á móti geta útgreiðslur séreignarinnar lækkað lífeyri almannatrygginga ef þær hefjast á árinu 2023 eða síðar.
Ef þú ert 60 ára og eldri þá getur þú lágmarkað lækkanir á lífeyri TR:
- Með því að sækja um, minnst eina greiðslu, í síðasta lagi 31. desember næstkomandi þá munu útgreiðslur þeirrar frjálsu séreignar skyldulífeyrissparnaðar hjá Frjálsa sem myndast hefur fyrir 1. janúar 2023, að öllu óbreyttu, ekki lækka lífeyri TR.
Sjá Umsókn um útgreiðslu séreignar til sjóðfélaga hér: Umsóknir - Frjálsi (frjalsi.is)
Hvernig sé ég hvaða tegund séreignar ég á í Frjálsa lífeyrissjóðnum?
Aðgreining tegunda séreignar sést efst á lífeyrisyfirlitum, á Mínum síðum á frjalsi.is og í Arion appinu hjá iPhone notendum.
Útgreiðsluráðgjöf
Við erum til þjónustu reiðubúin á frjalsi@frjalsi.is eða í síma 444 6090. Tekið er á móti sjóðfélögum á fyrir fram bókaða fundi í höfuðstöðvum Arion banka, Borgartúni 19, 105 Reykjavík. Einnig er ráðlegt að leita upplýsinga hjá Tryggingastofnun.
Hve hátt er lögbundið skylduiðgjald?
Þann 1. janúar 2023 mun lögbundið skylduiðgjald (lágmarksiðgjald) í lífeyrissjóð hækka úr 12% í 15,5% og gilda frá og með launatímabilinu janúar 2023.
Þurfa sjálfstæðir atvinnurekendur að greiða 15,5% iðgjald í lífeyrissjóð?
Já, öllum launamönnum á aldrinum 16-70 ára og þeim sem stunda atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi ber að greiða lágmarksiðgjald 15,5% í lífeyrissjóð, frá og með 1. janúar 2023.
Hverjir geta nýtt tilgreinda séreign skattfrjálst og hvernig?
Þeir sem falla undir ´”úrræði fyrstu íbúðar” geta nýtt tilgreinda séreign skattfrjálst til íbúðakaupa og vegna íbúðalána að uppfylltum neðan greindum skilyrðum:
- Einstaklingur sem hefur aldrei átt íbúð mun geta nýtt sér skattfrjálsa ráðstöfun tilgreindrar séreignar. Skattfrjáls hámarksfjárhæð viðbótarsparnaðar og/eða tilgreindrar séreignar er 500.000 kr. en sá sem er með viðbótarsparnað þarf að nýta hann á undan tilgreindri séreign.
- Einstaklingur/samskattaðir aðilar sem hafa ekki átt íbúð síðastliðin fimm ár munu geta nýtt sér skattfrjálsa ráðstöfun tilgreindrar séreignar einnig, ef tekjuskattstofn einstaklings, að meðtöldum heildarfjármagnstekjum, er lægri en 11.125.045 kr. fyrir næstliðið tekjuár.
Reglugerð um þetta er í vinnslu en í henni verður kveðið á um nánari skilyrði þessa úrræðis. Að öðru leyti gildir um skattfrjálsa ráðstöfun það sem fram kemur í spurt og svarað hér.
Hverjar eru útgreiðslureglur tilgreindrar séreignar?
Samkvæmt lögunum er heimilt er að hefja útgreiðslu tilgreindrar séreignar þegar sjóðfélagi hefur náð a.m.k. 62 ára aldri. Útgreiðsla skal dreifast á jafnar mánaðarlegar greiðslur frá því að lífeyrisþegi óskar eftir að fá tilgreinda séreign greidda út og þar til hann nær 67 ára aldri. Þegar sjóðfélagi nær 67 ára aldri er heimilt að greiða tilgreinda séreign út í einni greiðslu, nema sjóðfélagi óski annars. Auk þess er heimilt að greiða tilgreinda séreign út í einni greiðslu frá 62 ára aldri ef um lágar fjárhæðir er að ræða og vegna örorku skv. ákveðnum reglum. Tilgreind séreign erfist að fullu.