Svör við gagnrýni
Ávöxtun sé lægri en hjá hliðstæðum sjóðum líkt og Almenna lífeyrissjóðnum síðastliðin þrjú ár
Við samanburð á ávöxtun lífeyrissjóða er mikilvægt að horfa á langtímaávöxtun sjóðanna.
Ávöxtun samtryggingadeildar (skyldusparnaður) Frjálsa lífeyrissjóðsins stenst allan samanburð við aðra sjóði:
- Samanburður á ávöxtun lífeyrissjóða er birtur opinberlega á vef Landsamtaka lífeyrissjóða (LL).
Samkvæmt samanburðinum er tíu ára raunávöxtun samtryggingardeildar Frjálsa næst hæst á meðal níu sjóða sem birta upplýsingar um ávöxtun á markaðsvirði og er hún hærri en hjá Almenna. Raunávöxtun samtryggingardeilda Frjálsa og Almenna til fimm ára er sú sama og eru deildirnar jafnar í 4. sæti. - Gylfi Magnússon hagfræðingur hefur gert samanburð á ávöxtun lífeyrissjóða og birt í Tímariti um viðskipti og efnahagsmál.
Samkvæmt samanburði Gylfa er árleg raunávöxtun samtryggingadeildar Frjálsa 3,7% frá 1997-2017 (21 ár) og sú 11. hæsta af 23 lífeyrissjóðum. Ávöxtun Frjálsa er hærri en Almenna og hærri en meðaltal allra lífeyrissjóða. - Analytica ehf. gerði samanburð á ávöxtun lífeyrissjóða fyrir Frjálsa sem birt er á heimasíðu sjóðsins.
Samkvæmt samanburði Analytica frá 1999-2017 er ávöxtun samtryggingardeildar Frjálsa hærri en Almenna hvort sem horft er til 3, 8, 10, 15, 18 eða 19 ára en lægri horft til 1 og 5 ára. - Tryggingafræðileg staða Frjálsa, sem er mikilvægasti mælikvarði á stöðu samtryggingarsjóða, var um sl. áramót jákvæð um 1,6% sem er 5. hæsta staða allra lífeyrissjóða, og hærri en hjá Almenna.
Ávöxtun séreignardeilda Frjálsa (viðbótarsparnaður og sá hluti skyldusparnaðar sem rennur í séreign):
- Gögn eru birt opinberlega á vef Landssamtaka lífeyrissjóða (LL).
Samkvæmt vef LL skiluðu allar séreignarleiðir Frjálsa hærri 5 og 10 ára raunávöxtun en sambærilegar leiðir Almenna. - Samkvæmt samanburði Gylfa er árleg raunávöxtun Frjálsa í heild (samtryggingar og séreignar) 3,5% frá 1997-2017 (21 ár) m.v. bókfært virði eigna. Raunávöxtun Almenna og annarra sjóða sem ráðstafa hluta af skylduiðgjaldi í séreign er lægri.
- Geta má þess að ávöxtun séreignardeilda er birt mánaðarlega á Keldunni.
Nafnávöxtun Frjálsa gagnvart samanburðaraðilum
Séreignarleiðir
Rekstrarfyrirkomulagið bjóði hættunni heim
Í starfsemi fjármálafyrirtækja er möguleiki á hagsmunaárekstrum. Samkvæmt lögum ber fjármálafyrirtækjum sem sinna eignastýringu fyrir 3. aðila að vera með ráðstafanir til að tryggja að hagsmunaárekstrar skaði ekki viðskiptavini. Í starfsemi Arion banka er allt lagt upp með öllum tiltækum aðgerðum að hagsmunaárekstrarnir valdi ekki viðskiptavinum tjóni, þetta er skýr ófrávíkjanleg krafa af hendi Frjálsa lífeyrissjóðsins til rekstraraðila.
Allir stjórnarmenn eru kosnir af sjóðfélögum. Rekstrarkostnaður sem hlutfall af eignum og þar með sá hluti sem rennur til Arion banka hefur farið lækkandi síðustu ár og stefnan er að sú þróun haldi áfram. Framkvæmdastjóri er starfsmaður sjóðsins, innri endurskoðun er í höndum Deloitte og ytri endurskoðun er á vegum KPMG.
Fjárfestingar sjóðsins séu ógagnsæjar
Mikið er lagt upp úr góðri og skýrri upplýsingagjöf til sjóðfélaga, t.d. má vísa í grein um árangur sérhæfðra fjárfestinga sem birt var á heimasíðu og fésbókarsíðu sjóðsins ásamt öðrum greinarskrifum í opinberum miðlum. Enn fremur eru haldnir reglulegir fræðslufundir fyrir sjóðfélaga Frjálsa.
Frjálsi lífeyrissjóðurinn var fyrsti sjóðurinn til að birta sundurbrot af öllu eignasafni sínu á vef sjóðsins og hefur það verið gert ársfjórðungslega frá efnahagshruni. Sjóðurinn birtir jafnframt sundurliðun á verðmæti allra einstakra eigna sjóðsins, sem ekki eru með ábyrgð ríkisins eða sveitarfélaga, í ársreikningi sjóðsins.
Rekstrarsamningur Frjálsa lífeyrissjóðsins við Arion banka er birtur á heimasíðu sjóðsins og því öllum aðgengilegur.
Velta sé of mikil og rekstraraðili taki til sín of háar þóknanir
a. Velta
Frjálsi er ungur sjóður með hlutfallslega mikið innflæði sem aftur kallar á fjárfestingu. Hlutfallslegt innflæði skýrist einnig af vel heppnuðu sölu- og markaðsstarfi undafarin ár. Þá hafa breytingar á fjárfestingarstefnu einnig í för með sér veltu.
Einungis fjórðungur af veltu Frjálsa er þóknanaberandi, þar sem veltan er mikið til viðskipti með sjóði og aðrar hreyfingar sem ekki fela í sér kostnað. Frjálsi greiddi t.a.m. 31 m.kr. í kaup- og söluþóknanir vegna verðbréfaviðskipta sem nemur 0,01% af hreinni eign sjóðsins.
b. Viðskipti við dótturfélag rekstraraðila
Stefnir er eitt af stærstu sjóðastýringarfyrirtækjunum á innlendum markaði. Um 31,5% eigna Frjálsa er í sjóðum. Þar af er 6,7% í sjóðum Stefnis eða um 20% af sjóðaeign Frjálsa. Um 80% af sjóðaeign Frjálsa er í sjóðum annarra rekstrarfélaga, svo sem hjá Landsbréfum, Júpíter, Akta, Íslenskum verðbréfum, Summu og Íslandssjóðum ásamt erlendum sjóðastýringarfyrirtækjum.
Hlutfall sjóða af heildarverðmæti Frjálsa
Miðað við árslok 2016-2019 og fyrsta ársfjórðung árið 2020
Ekki sé leitað bestu tilboða í fjárfestingum
Ávallt er leitað bestu tilboða í eignastýringu Frjálsa lífeyrissjóðsins.
Stök verðbréf
Unnið er eftir bestu framkvæmd viðskipta (e. Best execution) en með því er átt við að ávallt á að leita bestu kaupa og kjara. Viðskipti eru framkvæmd í gegnum allar verðbréfamiðlanir landsins, svo sem Arion banka, Landsbankann, Íslandsbanka, Fossa markaði, Íslenska fjárfesta, Kviku banka, Íslensk verðbréf og Arctica. Mestu viðskiptin á árinu 2019 voru við miðlun Fossa markaða, eða um 36% af verðbréfaviðskiptum sjóðsins. Næst mestu viðskiptin voru við miðlun Arion banka með 24% og þau þriðju mestu við miðlun Íslenskra fjárfesta með 16%.
Sjóðir
Sjóðurinn nýtur betri afsláttarkjara hjá mörgum sjóðastýringarfyrirtækjum í ljósi stærðargráðu eignastýringar Arion banka. Frjálsi á viðskipti við hér um bil öll sjóðastýringarfyrirtæki landsins, sbr. lið 5b.
Í öðrum sérhæfðari fjárfestingum er gagnsætt vinnuferli við vinnslu fjárfestinga þar sem stjórn hefur fulla yfirsýn og tekur stjórn endanlega ákvörðun. Fjölmörg dæmi eru um það síðustu ár að eignastýring hafi náð fram verulegum hagsbótum fyrir Frjálsa í formi lægri þóknana eða betri kjara/skilyrða á annan hátt.
Áhætta tengd Arion banka hlaupi á tugum milljarða
Skuldabréf í Arion banka vs aðra banka
Skuldabréf útgefin af Arion nema um 3,7% af eignasöfnum, skuldabréf útgefin af Landsbankanum 5,1% og Íslandsbanka 4,7%. Alls á sjóðurinn um 10,5 milljarða í skuldabréfum útgefnum af Arion banka og um 28 milljarða í skuldabréfum útgefnum af Íslandsbanka og Landsbankanum.
Hlutabréf í Arion banka
Eign í hlutabréfum í Arion banka er um 0,8% af eignasöfnum, vægi m.v. markaðsvirði Arion banka í hlutfalli af heildarverðmæti skráðra félaga er í dag umtalsvert minna í eignasöfnum Frjálsa. Alls á sjóðurinn um 2,3 milljarða í hlutabréfum Arion banka.
Samtals er eign Frjálsa í verðbréfum útgefnum af Arion banka um 12,8 milljarðar kr. eða um 4,5% af eignum sjóðsins.
Vægi verðbréfa útgefnum af bönkum
Miðað við 31. mars 2020
Kostnaður Frjálsa sé miklu hærri en sambærilegra sjóða
Heildarkostnaður lífeyrissjóða skiptist í beinan og óbeinan kostnað. Beinn kostnaður sem hlutfall af hreinni eign var lægri hjá Frjálsa en Almenna á árinu 2019, eða um 0,30% samanborið við 0,31% miðað við meðalstöðu hreinnar eignar á markaðsvirði. Hefur þessi kostnaður lækkað hjá Frjálsa undanfarin ár.
Óbeinn kostnaður er áætlaður fjárfestingarkostnaður vegna fjárfestinga í verðbréfa-, fjárfestinga- og fagfjárfestasjóðum og dregst frá ávöxtun þeirra. Hann getur verið erfiður í samanburði þar sem stefna Frjálsa er að fjárfesta meira í virkum sjóðum til að ná hærri ávöxtun en ódýrari vísitölusjóðir. Það skýrir að mestu mun á áætluðum fjárfestingarkostnaði sjóðanna. Þessi kostnaður Frjálsa hefur einnig farið lækkandi undanfarin ár og er í takt við áætlaðan meðalfjárfestingarkostnað lífeyrissjóða.
Það sem skiptir þó mestu máli er langtímaávöxtun Frjálsa eftir allan kostnað.
Rekstrarkostnaður og bein fjárfestingargjöld sem hlutfall af meðalstöðu hreinnar eignar á markaðsvirði. Sjóðir sem eru ekki með skylduaðild og ráðstafa hluta af lágmarksiðgjaldi í séreign
*Endurgreiðsla til sjóðsins á árinu 2018 vegna afsláttar af umsýsluþóknun sjóða hefur verið færð úr beinum fjárfestingargjöldum í áætluð reiknuð fjárfestingargjöld til að samræma við aðferð hjá Frjálsa lífeyrissjóðnum. Endurgreiðsla til sjóðsins vegna afsláttar af umsýsluþóknun sjóða hefur verið færð úr beinum fjárfestingargjöldum í áætluð reiknuð fjárfestingargjöld til að samræma við aðferð hjá Frjálsa lífeyrissjóðnum.
Frjálsi hafi dregist aftur úr öðrum sjóðum í erlendum fjárfestingum
Erlendar fjárfestingar hafa verið auknar verulega síðustu ár og sjóðurinn ekki setið eftir. Frá afnámi gjaldeyrishafta árið 2016 hefur vægi erlendra fjárfestinga aukist töluvert. Staða sjóðsins í erlendum fjárfestingum í dag er í samræmi við meðal lífeyrissjóð.
Þróun á vægi erlendra eigna
M.v. 31.05.2020
Samanburður á vægi erlendra eigna
Hlutfall af heildarverðmæti m.v. 31.03.2020
Tap vegna kísilvera
Á heildina litið hefur gengið afar vel hjá Frjálsa í vali á sérhæfðum fjárfestingum. Á meðfylgjandi mynd má sjá hverju sérhæfðar fjárfestingar hafa skilað síðustu ár hjá Frjálsa en nánari umfjöllun má finna á heimasíðu sjóðsins.
Varðandi fjárfestingu Frjálsa í kísilverinu United Silicon er um að ræða rökstuddan grun um sviksemi sem orsakaði meðal annars að sú fjárfesting tapaðist að fullu. Tap Frjálsa af United Silicon nam rúmlega hálfu prósenti af eignum sjóðsins árið 2017 en á sama tíma var ávöxtun fjárfestingarleiða Frjálsa frá 5,8% til 6,9%.
Varðandi fjárfestingu Frjálsa í kísilverinu PCC á Bakka hefur gangvirði fjárfestingarinnar verið lækkað þar sem gengið hefur verr en upphaflegar forsendur stóðu til. Ekki er þó um endanlega niðurstöðu að ræða og margt getur breyst. Fimmtán íslenskir lífeyrissjóðir tóku þátt í fjárfestingunni í kísilverinu á Bakka auk Íslandsbanka og erlends aðila. Gangvirðisbreytingin nam um 0,25% af eignum árið 2019 en á sama tíma var nafnávöxtun fjárfestingarleiða Frjálsa frá 6,2% til 16,7%.
Því er ljóst að tap og lækkun gangvirðis vegna kísilvera vegur ekki þungt í ávöxtun Frjálsa.
Sérhæfðar fjárfestingar
Hagnaður / Tap í milljónum kr.
Ekki séu haldnar rafrænar kosningar
Stjórnarformaður Frjálsa hefur lýst því yfir opinberlega að rafrænar kosningar séu mál framtíðarinnar og verið sé að skoða lausnir sem verða kynntar á komandi ársfundi.