Frétt
Ávöxtun Frjálsa árið 2024
23. janúar 2025Þær fjárfestingarleiðir sem vega þyngst í hlutabréfum skiluðu hæstu ávöxtun á árinu en nafnávöxtun fjárfestingarleiða var á bilinu 8,9% til 15,3% sem skilar raunávöxtun á bilinu 4,1% til 10,5%. Ávöxtun tryggingadeildar mun liggja fyrir við útgáfu ársreiknings sjóðsins, en óendurskoðuð ávöxtun er birt hér í grafinu.
Markaðsaðstæður síðustu ára undirstrika mikilvægi þess að vera með dreift eignasafn til þess að standast sveiflur á mörkuðum. Frjálsi lífeyrissjóðurinn leggur upp úr því að fjárfesta í ólíkum eignaflokkum, atvinnugreinum og landsvæðum til þess að dreifa áhættu sem mest.
Þróun markaða
Árið 2024 var allt í senn viðburðaríkt og krefjandi. Það einkenndist af háu vaxtastigi og lækkandi verðbólgu. Þrátt fyrir mikla óvissu vegna ríkisfjármála, eldsumbrota, kjarasamninga og kosninga endaði árið nokkuð vel á verðbréfamörkuðum. Vaxtalækkunarferli Seðlabankans hófst í október og lækkun verðbólgu gefur vonir um eðlilegra vaxtastig á næstu misserum. Slík þróun hefur ótvírætt jákvæð áhrif á verðbréfamarkaðinn. Á skuldabréfamarkaði urðu því betri skilyrði fyrir fjárfesta og varð töluverð aukning í fjárfestingum erlendra aðila í lengri óverðtryggðum skuldabréfum. Eftir erfiðan fyrri hluta ársins á innlenda hlutabréfamarkaðnum varð viðsnúningur drifinn áfram af væntingum um frekari vaxtalækkanir.
Stýrivextir standa nú í 8,5% eftir að hafa lækkað um 0,75 prósentustig og verðbólgan lækkaði frá 6,7% í 4,8% á árinu 2024. Nafnávöxtun verðtryggðra ríkisskuldabréfa var á bilinu 7,4% til 8,5% á árinu en óverðtryggðra 5,5% til 8,9%. Verðþróun og ávöxtun skuldabréfa var þó nokkuð stöðug á árinu, þrátt fyrir lækkun stýrivaxta.
Úrvalsvísitala Kauphallar Íslands (OMXI15CAP) hækkaði um 15,9% á árinu 2024. Framan af ári var innlendi hlutabréfamarkaðurinn heldur krefjandi en það dró til tíðinda þegar vaxtalækkunarferli SÍ hófst og félög fóru að skila inn sterkum uppgjörum á þriðja ársfjórðungi. Gengi flestra félaga tók þá að hækka drifið áfram af væntingum um frekari vaxtalækkanir og sameining JBT og Marels jók flæði sem hafði jákvæð áhrif á markaðinn. Erlendir hlutabréfamarkaðir hafa sýnt afar jákvæða þróun og ávöxtun hefur reynst mjög góð þrátt fyrir áskoranir á borð við efnahagslega óvissu, stríðsátök og forsetakosningar. Heimsvísitala hlutabréfa (MWXO) hækkaði um 17% í bandaríkjadal á árinu 2024 en jókst enn frekar, eða um 19,7%, í íslenskum krónum. Ávöxtun hefur, líkt og áður, verið drifin áfram af fáum tæknifyrirtækjum en væntingar um vöxt, þróun og nýtingu gervigreindar hafa verið lykilþættir í þessari þróun. Jafnframt hefur eftirspurn eftir ákveðnum vörum og þjónustu haldist sterk, sem hefur stutt við hlutabréfaverð alþjóðlegra fyrirtækja.
Langtímaávöxtun
Hér að neðan má sjá ávöxtun á ársgrundvelli til 5 ára og 10 ára m.v. 31.12.2024. Þegar horft er á lengri tíma sparnað eins og lífeyrissparnað er mikilvægt að minna sig á að ávöxtun til lengri tíma er það sem mestu máli skiptir og ekki er óeðlilegt að það verði nokkrar sveiflur á milli ára. Þá eru sveiflur í áhættumeiri fjárfestingarleiðunum alla jafnan meiri á milli ára en á móti koma væntingar um hærri langtímaávöxtun.
Áhættudreifing leiðarljós í fjárfestingum
Fjárfestingarleiðirnar hafa mismunandi fjárfestingarstefnu og fela í sér mismunandi áhættu. Við val á leið er rétt að hafa í huga væntanlegan útgreiðslualdur og viðhorf til áhættu. Fjárfest er í mismunandi eignaflokkum, eignum, landssvæðum og gjaldmiðlum til að ná fram áhættudreifingu. Markmiðið er að dreifa áhættunni á þann veg að þótt lækkun verði á ákveðnum eignaflokki, á ákveðinni tegund eigna eða innan ákveðins landsvæðis eru líkur á að hún vinnist að hluta upp í hækkun af öðrum og dragi þannig úr sveiflum á ávöxtun á viðkomandi fjárfestingarleið í heild. Upplýsingar um ávöxtun, fjárfestingarstefnu og eignasamsetningu leiðanna er að finna á vef sjóðsins.