Frétt

Frjálsi valinn besti lífeyrissjóður smáþjóða Evrópu

Frjálsi valinn besti lífeyrissjóður smáþjóða Evrópu

Frjálsi lífeyrissjóðurinn var nýlega valinn besti lífeyrissjóður Evrópuþjóða með færri en eina milljón íbúa af fagtímaritinu Investment Pension Europe (IPE). Frjálsi fékk einnig tilnefningu í þemaflokknum Tækni og í tegundaflokki lífeyrissjóða (Multi Employer). Þetta er í 15. sinn sem IPE verðlaunar Frjálsa frá árinu 2005, sem er mesti fjöldi IPE verðlauna sem fallið hefur íslenskum lífeyrissjóði í skaut.

Arnaldur Loftsson, framkvæmdastjóri Frjálsa, segir þessar margendurteknu viðurkenningar fela í sér mikla hvatningu fyrir Frjálsa til að halda áfram að bjóða upp á lífeyrissþjónustu í hæsta gæðaflokki. Arnaldur tekur sömuleiðis fram að í vitnisburði verðlaunanefndarinnar hafi tæknilegt forskot Frjálsa verið dregið sérstaklega fram.

„Verðlaunin eru vitnisburður um að við stöndum okkur vel í þróun tæknilausna í Arion appinu sem auðveldar sjóðfélögum yfirsýn yfir lífeyrissparnað sinn og eykur meðvitund þeirra um stöðu sína í Frjálsa,“ segir Arnaldur. „Á sama tíma hvetja verðlaunin okkur til áframhaldandi góðra verka í tæknilausnum og daglegum rekstri til að bæta þjónustu enn frekar við sjóðfélaga og launagreiðendur.“

Verðlaunaafhendingin fór að þessu sinni fram í Prag í ár og sóttu um 550 manns viðburðinn.

Arnaldur Loftsson, framkvæmdastjóri Frjálsa, með verðlaunin (fyrir miðju). Hjá honum standa Hjörleifur Arnar Waagfjörð, forstöðumaður eignastýringar fagfjárfesta hjá Arion, og Chetana Munot, hjá Virtus International, sem afhenti þeim félögum verðlaunin.

 
Upplýsingar um Frjálsa í Arion appinu má nálgast hér.

IPE er eitt virtasta tímarit Evrópu um lífeyrismál og hefur veitt verðlaunin árlega frá árinu 2001. Hér má lesa sér betur til um verðlaunin.