Frétt

Mikill vöxtur Frjálsa á síðustu árum jákvæður fyrir sjóðfélaga

Mikill vöxtur Frjálsa á síðustu árum jákvæður fyrir sjóðfélaga

Frjálsi lífeyrissjóðurinn fagnaði nýlega þeim áfanga að rjúfa 500 milljarða múrinn hvað varðar stærð sjóðsins. Frjálsi hefur vaxið hratt frá aldamótum en árið 2000 var stærð hans níu milljarðar. Sjóðurinn hefur því fimmtíu og fimm-faldast á tiltölulega stuttum tíma.

„Við gleðjumst auðvitað yfir því að hafa náð þessum áfanga,“ segir Arnaldur Loftsson, framkvæmdastjóri Frjálsa lífeyrissjóðsins. „Það er einfaldlega svo að með aukinni stærð hefur rekstur sjóðsins orðið hagkvæmari sem hefur haft jákvæð áhrif á ávöxtun sjóðfélaga. Auk þess verður stærri sjóður enn betur í stakk búinn til að veita sjóðfélögum framúrskarandi þjónustu. Þetta eru því ekki síst góð tíðindi fyrir okkar fjölmörgu sjóðfélaga en í Frjálsa eiga nú yfir 70 þúsund manns lífeyrissparnað.“

Arnaldur segir að Frjálsi lífeyrissjóðurinn sé rekinn á þeim forsendum að sjóðfélagar eigi að hafa frelsi til að velja sér lífeyrissjóð og sömuleiðis svigrúm til að ákveða hvernig lífeyrissparnaði þeirra sé best borgið.

„Allir sjóðfélagar okkar velja til dæmis að greiða í sjóðinn ólíkt því sem tíðkast um flesta aðra lífeyrissjóði,“ segir Arnaldur. „Að sama skapi ráðstafar enginn lífeyrissjóður eins háu hlutfalli skylduiðgjalds í séreign en útgreiðslur hennar geta hafist við 60 ára aldur. Helstu kostirnir við það fyrirkomulag er að séreignin erfist auk þess sem henni fylgir mikill sveigjanleiki í útgreiðslum. Sjóðfélaginn hefur þannig meira frelsi til að haga útgreiðslum sínum eins og honum hentar best; til dæmis getur hann valið að fá hærri lífeyri á fyrri hluta eftirlaunaáranna á meðan heilsan er góð en lægri á seinni hlutanum.“

Til viðbótar því að vera fimmti stærsti lífeyrissjóður landsins er Frjálsi langstærsti séreignarsjóður landsins en meirihluti eigna sjóðsins er séreign sjóðfélaga.

„Velgengni Frjálsa lífeyrissjóðsins er okkur mikið gleðiefni og sýnir okkur að uppbygging sjóðsins höfðar til stórs hóps á íslenskum vinnumarkaði,“ segir Arnaldur. „Við sjáum einfaldlega að fólki líkar vel þessi mikli sveigjanleiki sem er sérstaða Frjálsa, enda kemur það fram í stöðugum vexti sjóðsins á síðustu árum, hvort sem horft er til fjölgunar sjóðfélaga eða hækkunar á eignum sjóðsins.“

„Ég tel að með áframhaldandi vexti og áherslu á valfrelsi, sveigjanleika og góða þjónustu sé Frjálsi vel í stakk búinn að stuðla að áhyggjulausu ævikvöldi sjóðfélaga.“

Arnaldur Loftsson, framkvæmdastjóri Frjálsa lífeyrissjóðsins