Frétt
Sjálfvirk skráning í viðbótarsparnað
31. október 2024Arnaldur Loftsson, framkvæmdastjóri Frjálsa lífeyrissjóðsins, birti grein á viðskiptasíðum Morgunblaðsins þann 30. október síðastliðinn, þar sem hann benti á kosti þess að launagreiðendur skrái starfsfólk sjálfvirkt í viðbótarsparnað. Telur Arnaldur að slík breyting yrði til hagsbóta fyrir bæði einstaklinga og samfélagið í heild. Slíkt fyrirkomulag hefur til að mynda gefið góða raun á Englandi en þar var því komið á fót árið 2012.
Sjálfvirk skráning í viðbótarsparnað
Árið 2023 lögðu um 60% starfandi einstaklinga á Íslandi fyrir í viðbótarsparnað. Það þýðir að um 40% urðu af 2% mótframlagi launagreiðenda sem fylgir sparnaðinum eða um 96 þúsund manns. Á Englandi árið 2012 var komið á því fyrirkomulagi að launagreiðendur skráðu starfsmenn, sem uppfylla ákveðin skilyrði, „sjálfvirkt“ í viðbótarsparnað nema starfsmennirnir tilkynntu sérstaklega að þeir vildu ekki vera með (e. auto enrollment). Tilgangurinn var að auka lífeyrissparnað einstaklinga og komið hefur í ljós að einungis um 12% þeirra velja að vera ekki með. Írar stefna einnig á að innleiða sambærilegt fyrirkomulag innan skamms. Hér á landi er aftur á móti ekki sjálfvirk skráning í viðbótarsparnað.
Hvers vegna velur fólk að vera ekki með?
Í september 2023 gaf Seðlabankinn út rannsóknarritgerð um þátttöku í viðbótarsparnaði og var í henni m.a. fjallað um mögulegar ástæður þess að allir starfandi einstaklingar tækju ekki þátt í viðbótarsparnaði og misstu þar með af 2% launahækkun. Eru nefndar tvær hagfræðilegar ástæður. Önnur ástæðan er óþolinmæði, þ.e. að fólk telur viðbótarneyslu í framtíðinni lítils virði miðað við sömu neyslu í dag, sérstaklega hvað varðar langtímasparnað eins og viðbótarsparnað. Hin ástæðan er lausafjárskortur, þ.e. fólk telur sig ekki hafa efni á að nýta sér sparnaðinn. Í greininni kemur m.a. fram að hlutfallið er lægra hjá körlum en konum, meðal fólks af erlendum uppruna, hjá fólki í hlutastarfi og hjá tekjulægri hópum. Nefnt er dæmi um bandarískt fyrirtæki, sem greiddi mótframlag í lífeyrissparnað fyrir starfsmenn sína og vildi auka þátttöku starfsmanna. Fyrirtækið hóf að skrá starfsmenn sjálfvirkt í viðbótarsparnað en þeim bent á að þeir gætu valið að vera ekki með. Þátttökuhlutfall starfsmannanna hækkaði úr 57% í 86% við þessa breytingu.
Þetta dæmi og fyrirkomulagið í Englandi gefur til kynna að ef fyrirkomulagi hér á landi væri breytt til samræmis þá myndi þátttökuhlutfall einstaklinga í viðbótarsparnaði hækka. Fleiri myndu hafa meira á milli handanna eftir starfslok og tekjutap sem einstaklingar verða oft fyrir við að fara af vinnumarkaði yfir á eftirlaun myndi minnka. Enginn yrði þvingaður í sparnaðinn því fólk hefði val um að vera ekki með.
Hagstæðasta sparnaðarformið
Viðbótarsparnaður er eitt hagstæðasta sparnaðarform sem völ er á því launagreiðandi greiðir mótframlag og skattaleg meðferð er hagstæð. Mikilvægt er að einstaklingar hefji sparnaðinn sem fyrst og skrái launagreiðendur starfsmenn sjálfvirkt myndi það ýta undir þá þróun. Ef tekið er dæmi þar sem lagt er fyrir 6% viðbótariðgjald (4% frá launþega og 2% frá launagreiðanda) af 800 þús. kr. mánaðarlaunum í mislangan tíma má sjá hvað tímalengdin skiptir miklu máli fyrir endanlega niðurstöðu. Ef sparað er í 20 ár er uppsafnaður sparnaður um tæpar 17 milljónir miðað við 3,5% árlega ávöxtun, en tæplega 50 milljónir ef sparað er í 40 ár, þar af 7,7 milljónir kr. vegna mótframlags launagreiðanda og 26,6 milljónir kr. vegna ávöxtunar. Munurinn er 33 milljónir kr.
Breyting á útfærslu
Már Wolfgang Mixa dósent og stjórnarmaður í Almenna lífeyrissjóðnum hefur nýlega talað fyrir að launagreiðendur skrái starfsmenn sjálfvirkt í viðbótarsparnað. Undir þetta sjónarmið vil ég taka því auðvelt er að rökstyðja að slík breyting væri til hagsbóta fyrir einstaklinga og samfélagið í heild. Í þeirri vinnu sem á sér stað við endurskoðun lífeyriskerfisins vil ég hvetja stjórnvöld og aðila á vinnumarkaði til að huga að þessum breytingum. Við nánari útlistun væri hægt að læra af þeim breytingum sem hafa átt sér stað á Englandi og eru fyrirhugaðar á Írlandi.
Arnaldur Loftsson, framkvæmdastjóri Frjálsa lífeyrissjóðsins