Frétt
Sérstaða Frjálsa lífeyrissjóðsins – Frelsið til að velja
23. október 2024Margir lífeyrissjóðir eru starfandi á Íslandi og því reynist þeim, sem valið geta á milli sjóða, oft ansi örðugt að átta sig á því hvar hagsmunum þeirra er best borgið. Er líka raunverulega einhver munur á öllum þessum lífeyrissjóðum? Svarið er já – uppbygging þeirra er í reynd nokkuð mismunandi og réttindi sjóðfélaga ólík eftir því í hvaða sjóð er greitt.
Þurfa allir að greiða í lífeyrissjóð?
Samkvæmt landslögum ber öllu starfandi fólki á aldrinum 16-70 ára að greiða í lífeyrissjóð. Markmiðið að baki slíkri lagasetningu er að stuðla að farsælum árum eftir að starfsævinni lýkur.
Hef ég val um hvert ég greiði?
Sumum starfsstéttum ber að greiða í tiltekinn lífeyrissjóð. Er þá oftast kveðið á um slíkt í lögum- eða kjarasamningum. Þetta gildir til dæmis um starfsfólk ríkis- og sveitarfélaga.
Taki kjarasamningur aftur á móti ekki fram hvert þér ber að greiða iðgjaldið hefurðu frelsi til að velja hvaða sjóður hentar best þörfum þínum og markmiðum.
Hvernig eru lífeyrissjóðirnir uppbyggðir?
Iðgjald, sem greitt er í lífeyrissjóð, nemur a.m.k. 15,5% af launum og skiptist þá í 4% framlag launþega og 11,5% framlag launagreiðanda.
Sumir lífeyrissjóðir ráðstafa öllu iðgjaldinu í svokallaða samtryggingu sem veitir okkur réttindi til ævilangra eftirlauna ásamt örorku-, maka- og barnalífeyri ef til áfalla kemur.
Aðrir sjóðir leggja áherslu á myndun svokallaðrar séreignar. Er þá hluta iðgjalda ráðstafað í séreign og hinum hlutanum í samtryggingu.
Ef hluta iðgjalda er ráðstafað í séreign verða réttindi til eftirlauna, maka-, barna- og örorkulífeyris lægri en ella. Að sama skapi fer þá stór hluti iðgjalda í séreign sem er laus til útgreiðslu á eftirlaunaárum eða vegna örorku. Helstu kostirnir við það fyrirkomulag er að séreignin erfist auk þess sem henni fylgir sveigjanleiki í útgreiðslum. Sjóðfélaginn hefur þannig meira frelsi til að haga útgreiðslum sínum eins og honum hentar best, að teknu tilliti til útgreiðslureglna viðkomandi sjóðs; til dæmis getur hann valið að fá hærri lífeyri á fyrri hluta eftirlaunaáranna á meðan heilsan er góð en lægri á seinni hlutanum.
Frjálsi er fyrir þá sem vilja valfrelsi og sveigjanleika
Frjálsi er margverðlaunaður lífeyrissjóður með rúmlega 70 þúsund sjóðfélaga og er stjórn sjóðsins alfarið kosin af þeim. Við lítum svo á að einstaklingurinn eigi að hafa frelsi til að móta sjálfur hvernig lífeyrissparnaði hans er háttað.
Frjálsi býður upp á tvær leiðir fyrir skyldusparnað; annars vegar „Frjálsu leiðina“ og hins vegar „Erfanlegu leiðina“. Í báðum tilvikum er stórum hluta iðgjalda ráðstafað í séreign. Ef þér líkar vel að hafa meiri stjórn á söfnun lífeyrissparnaðar þíns og útgreiðslu hans er Frjálsi því góður valkostur fyrir þig.
Hvernig get ég mótað sparnaðinn?
Þegar þú skráir þig í Frjálsa velurðu fjárfestingarleið fyrir þann hluta sem rennur í séreign. Sjóðfélagar geta þannig lagað lífeyrissparnað sinn að eigin áhættuvilja og valið milli misáhættusamra fjárfestingarleiða. Algengast er að velja svokallaða „ævilínu“ en þá færist inneignin sjálfkrafa milli leiða eftir aldri; séreignarsparnaðurinn fer yfir í áhættuminni fjárfestingarleið eftir því sem þú eldist og nær dregur útgreiðslu. Afar einfalt er að sækja um að vera með skyldusparnað hjá Frjálsa í gegnum Arion appið eða mínar síður.
Hvað ef mér ber að greiða í tiltekinn sjóð en vil vera með séreign hjá Frjálsa?
Það er ekkert mál. Ef þér ber skylda til að greiða í tiltekinn lífeyrissjóð, sem heimilar þér að ráðstafa hluta iðgjalds í tilgreinda séreign, hefurðu þann kost að gera samning við Frjálsa um tilgreinda séreign á mínum síðum sjóðsins. Í kjölfarið upplýsirðu svo lífeyrissjóðinn þinn einfaldlega um þá ákvörðun.
Nýttu þér Arion appið til að fylgjast með söfnun réttinda þinna
Í Arion appinu hefurðu aðgengilegt yfirlit um söfnun lífeyrissréttinda þinna og séreignar. Þar geturðu sömuleiðis framkvæmt allar helstu aðgerðir sem tengjast lífeyrismálum.
Við vonum að þessi stutta yfirferð hafi varpað svolitlu ljósi á helstu áherslu Frjálsa og þá kosti sem þér bjóðast. Ef frekari spurningar vakna má alltaf heyra í lífeyrisráðgjöfunum okkar.