Frétt

Fræðsla um lífeyrismál - í fyrsta sinn á pólsku

Fræðsla um lífeyrismál - í fyrsta sinn á pólsku

Frjálsi lífeyrissjóðurinn hefur alltaf lagt mikið upp úr fjölbreyttri fræðslu fyrir sjóðsfélaga sína. Fræðsluefni sjóðsins hefur fram til þessa fyrst og fremst verið á íslensku en einnig á ensku. Nú finnst okkur ærin ástæða til að gera enn betur og bjóða sömuleiðis upp á fræðslu á pólsku.

Erlendum íbúum á Íslandi, og þar með vinnuafli hérlendis, hefur fjölgað ört á síðustu árum. Samkvæmt nýjustu tölum Þjóðskrár Íslands hefur fjöldi erlendra ríkisborgara hér á landi farið upp um 57% síðan í byrjun desember 2019 – eða úr 49.347 í 77.321. Þar af eru Pólverjar langstærsti hópurinn, eða rúm 22.000. Við viljum bregðast við þessari þróun og hjálpa til við að stuðla að því að allt vinnandi fólk hér á landi standi jafnfætis þegar kemur að því að kynna sér réttindi sín og skyldur.

Öllum þeim, sem starfa hér á landi og eru á aldrinum 16-70 ára, ber að greiða í lífeyrissjóð. Því gefur auga leið að erlendir ríkisborgarar, sem ekki hafa náð tökum á íslensku, þurfa að geta kynnt sér málin gaumgæfilega, og helst auðvitað á eigin móðurmáli.

Við riðum á vaðið á dögunum þegar Frjálsi stóð fyrir fræðslu um lífeyrismál á pólsku. Fræðslunni var streymt á Facebook-síðu sjóðsins og er upptaka aðgengileg hér fyrir neðan. Eins má lesa sér til um málið á pólsku hér á vef Frjálsa.

Dominika Ewa, ráðgjafi hjá Arion banka, fór yfir skyldu- og viðbótarlífeyrissparnað og tilgreinda séreign ásamt því að fjalla almennt um Frjálsa, ávöxtun sjóðsins og þjónustu. Auk þess fór Dominika yfir kosti þess að hafa aðgang að lífeyrissparnaði Frjálsa í Arion appinu og geta framkvæmt helstu aðgerðir tengdar sparnaðinum.

Við hvetjum ykkur til þess að benda öllum þeim sem gætu haft gagn af fræðslunni á upptökuna. Eins og er hafa um 1.700 manns horft á myndbandið, sem segir okkur að eftirspurnin er svo sannarlega til staðar.