Frétt

Frelsi til að velja

Frelsi til að velja

Arion banki gaf nýverið út bók um lífeyrismál, Lífeyrisbókina. Í henni er grein eftir Arnald Loftsson, framkvæmdastjóra Frjálsa lífeyrissjóðsins, sem fjallar um skylduaðild að lífeyrissjóðum. Ekki er öllum frjálst að velja sér lífeyrissjóð en þeir sem geta það ættu að vanda valið því uppbygging sjóða er misjöfn. Lífeyrir fólks með sömu laun yfir starfsævina getur því verið mismunandi og auk þess bjóða sumir sjóðir eins og Frjálsi upp á að hluti skyldulífeyrissparnaðar fari í séreign sem erfist.

Greinina í heild sinni má lesa hér en bókin er aðgengileg á vef Arion. Styttri útgáfu af greininni má lesa hér fyrir neðan.

Skylduaðild að lífeyrissjóðum

Val á lífeyrissjóði, sem greitt er í alla starfsævina, er ein af mikilvægustu ákvörðunum sem fólk tekur. Ávöxtun lífeyrissjóða er mismunandi sem og uppbygging þeirra hvað varðar samsetningu séreignar og samtryggingar. Lífeyrir fólks með sömu laun á starfsævinni getur því verið mismunandi og hve mikið af lífeyrissparnaði rennur til erfingja við andlát eftir því hvaða lífeyrissjóð fólk valdi.

Mögulegt brot gegn stjórnarskrá og Mannréttindasáttmálanum?

Því miður getur meginþorri launafólks ekki valið sér lífeyrissjóð. Samkvæmt lögum fer aðild að lífeyrissjóði eftir þeim kjarasamningi sem ákvarðar lágmarkskjör í hlutaðeigandi starfsgrein eða sérlögum ef við á. Taki kjarasamningur ekki til viðkomandi starfssviðs eða séu ráðningarbundin starfskjör ekki byggð á kjarasamningi velur viðkomandi sér lífeyrissjóð eftir því sem reglur einstakra lífeyrissjóða leyfa.

Sátt hefur ríkt um skyldu starfandi einstaklinga til að greiða í lífeyrissjóð en sama gildir ekki um skylduaðild að tilteknum lífeyrissjóðum. Auk þess hefur verið dregið í efa að lagaskyldan standist ákvæði stjórnarskrár og Mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Í grein í vefriti Fjármálaeftirlitsins, sem Gunnar Ásgeirsson, lögfræðingur hjá eftirlitinu, skrifaði árið 2014, kom fram að draga má í efa að slík skylda uppfylli þær kröfur sem Hæstiréttur og Mannréttindadómstóllinn munu gera til félagafrelsis manna skv. 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar og 2. mgr. 11. gr. Mannréttindasáttmálans. Ég tel miður að enn hefur ekki reynt á málið fyrir dómstólum til að fá úr því skorið hvort ákvæði laganna standist ofangreind ákvæði. Að mínu mati er það grundvallarmál að sjóðfélagar fái að ákveða hvar þeirra lífeyrissparnaður er ávaxtaður í stað þess að starfsgrein eða stéttarfélagsaðild ráði því hvaða lífeyrissjóður verður fyrir valinu.

Mismunandi val um ráðstöfun lífeyrissparnaðar

Tinna Finnbogadóttir, sérfræðingur í fjármála- og efnahagsráðuneytinu, vakti athygli á því í ræðu og riti árið 2022 að sjóðfélagar sem er gert skylt að greiða í tiltekna lífeyrissjóði skv. kjarasamningi hafi minna val um ráðstöfun lífeyrissparnaðar síns. Sjóðir með opna sjóðfélagaaðild bjóði upp á meira val en sjóðir með skylduaðild en í hinum fyrrnefndu er m.a. boðið upp á að skipta skylduiðgjaldinu í samtryggingu og séreign þar sem ekki meira en 8% af launum fari í samtrygginguna.

Frelsi til að velja lífeyrissjóð

Færa má rök fyrir því að ósanngjarnt sé að sjóðfélagar sem er gert skylt að greiða í tiltekna lífeyrissjóði hafi minna val um ráðstöfun lífeyrissparnaðar síns en sjóðfélagar sem greiða í opna sjóði. Þó er rétt að hafa í huga að lífeyrissjóðir sem eru tengdir stéttarfélögum hafa getað boðið upp á sambærilega valkosti fyrir sína sjóðfélaga en valið að gera það ekki. Til að sjóðfélagar lífeyrissjóða hefðu sambærilega valkosti væri hentug lausn að afnema skylduaðild að tilteknum lífeyrissjóðum. En hvaða lífeyrissjóði myndu sjóðfélagar greiða í ef þeir veldu ekki neina lífeyrissjóði? Fyrirkomulagið gæti verið með þeim hætti að ef sjóðfélagar veldu ekki sjóð myndu ákvæði núgildandi laga ráða hvaða lífeyrissjóður yrði fyrir valinu, þ.e. aðild að lífeyrissjóði færi eftir kjarasamningi sem ákvarðaði lágmarkskjör í hlutaðeigandi starfsgrein.

Sjóðfélagar gætu valið þann sjóð sem byði upp á þá leið sem hentar þeim og sjálfkrafa myndu sjóðir auka framboð valkosta til að missa ekki sjóðfélaga og til að laða að nýja. Samkeppni á milli lífeyrissjóða myndi aukast sem leiddi til betri þjónustu þeirra og búast mætti við að minni lífeyrissjóðir, sem hefðu ekki jafn mikla burði til að standa sig í samkeppninni, myndu sameinast í stærri sjóði sem telja má gott fyrir lífeyriskerfið í heild. Loks myndi valfrelsið auka vitund sjóðfélaga um lífeyrissparnað sinn sem ætti að leiða til þess að þeir tækju betri ákvarðanir um þá valkosti sem þeim stæðu til boða.