Frétt
Niðurstöður ársfundar Frjálsa
02. júní 2023Ársfundur Frjálsa lífeyrissjóðsins var haldinn í höfuðstöðvum Arion banka 31. maí sl. en sjóðfélagar gátu einnig fylgst með fundinum í gegnum beint streymi og tekið þátt rafrænum atkvæðagreiðslum um tillögur fundarins líkt og sjóðfélagar á fundarstað.
Á fundinum var kynnt skýrsla stjórnar, ársreikningur sjóðsins, niðurstöður tryggingafræðilegrar athugunar og fjárfestingarstefna. Jafnframt voru tillögur um breytingar á samþykktum sjóðsins lagðar fram og samþykktar, auk þess sem tillögur um stjórnarlaun og endurskoðanda voru samþykktar.
Kosning í aðalstjórn, sem stóð yfir í viku, fór eingöngu fram með rafrænum hætti og lauk kl. 17:00 á ársfundardegi.
Kosning stjórnarmanna
Þrjú framboð bárust í tvö laus sæti í aðalstjórn Frjálsa lífeyrissjóðsins. Í ljósi samsetningar þeirra stjórnarmanna sem ljóst var fyrir ársfundinn að myndu sitja áfram í stjórn var skylt að kjósa einn frambjóðanda af hvoru kyni eða tvær konur. Þar sem aðeins eitt framboð barst frá konu, Önnu Sigríði Halldórsdóttur, þá var hún sjálfkjörin.
Frambjóðendur sem hlutu kosningu í aðalstjórn til næstu þriggja ára
- Anna Sigríður Halldórsdóttir
- Björn Ingi Victorsson
Eitt framboð barst í varastjórn, frá Lilju Bjarnadóttur og var hún því sjálfkjörin til næstu þriggja ára.