Frétt
Nýjar réttindatöflur og breytt skipting skylduiðgjalds taka gildi 1. janúar 2023
29. desember 2022Fjármálaráðuneytið hefur staðfest breytingar á samþykktum sjóðsins sem taka gildi 1. janúar 2023 og fela í sér breytingar á réttindatöflum og skiptingu skylduiðgjalds í samtryggingu og séreign. Tildrög breytinganna eru að í desember 2021 staðfesti fjármála- og efnahagsráðuneytið tillögur Félags íslenskra tryggingastærðfræðinga (FÍT) um breytingar á forsendum reiknigrunns um lífslíkur, byggt á áætlun um lífslíkur í framtíðinni. Spáin gerir ráð fyrir að lífslíkur hvers fæðingarárgangs séu mismunandi, þ.e. að lífslíkur fari vaxandi með hækkandi fæðingarári en hingað til hefur mat á lífslíkum byggst á sögulegum gögnum.
Skipting skylduiðgjalds í samtryggingu og séreign
Skipting 15,5% skylduiðgjalds verður eftirfarandi í skyldusparnaðarleiðum sjóðsins:
Frjálsa leiðin
- Samtryggingarsjóður: 8,75% (var 7,95%)
- Frjáls séreign: 6,75% (var 7,55%)
Erfanlega leiðin
- Samtryggingarsjóður: 3,70% (var 3,40%)
- Bundin séreign: 6,55% (var 6,55%)
- Frjáls séreign: 5,25% (5,55%)
Rétt er að hafa í huga að sjóðfélagar í Erfanlegu leiðinni fá ellilífeyri úr bundinni séreign til a.m.k. 82 ára aldurs en þá taka við ellilífeyrisgreiðslur úr samtryggingu til æviloka. Breytingarnar á réttindatöflum hafa engin áhrif á iðgjald eða útgreiðslur úr bundinni séreign heldur eingöngu á réttindaöflun í samtryggingu í framtíðinni.
Lífeyrisreiknivél til að sjá væntan lífeyri og söfnun séreignar
Unnið er að breytingum á lífeyrisreiknivél á vef Frjálsa en í hana geta sjóðfélagar sett sínar forsendur til að sjá upplýsingar um væntan lífeyri og söfnun séreignar fyrir greidd iðgjöld í framtíðinni.
Áhrif á tryggingafræðilega stöðu og réttindaávinnslu
Nýi reiknigrunnurinn felur í sér veigamikla hækkun á mati skuldbindinga samtryggingarsjóða því þeir munu greiða ævilangan ellilífeyri í fleiri ár en áður hefur verið gert ráð fyrir. Á það einnig við um tryggingadeild Frjálsa lífeyrissjóðsins.
Í árslok 2021 var tryggingafræðileg staða Frjálsa eftirfarandi:
- Eignir umfram áunnar skuldbindingar (áunnin staða): 0,1%.
- Núvirt framtíðariðgjöld umfram núvirtar framtíðarskuldbindingar (framtíðarstaða): -17,0%.
- Heildareignir umfram heildarskuldbindingar (heildarstaða): -9,2%.
Markmið breytinganna á réttindatöflum er að leiðrétta halla á framtíðarstöðu sjóðsins í tryggingafræðilegri athugun svo tryggingadeildin geti staðið við skuldbindingar sínar til framtíðar. Miðað við forsendur í tryggingafræðilegri athugun 2021 er framtíðarstaðan með breyttum réttindatöflum jákvæð um 1,1%. Breytingarnar þýða að sjóðfélagar ávinna sér lægri réttindi fyrir hverja krónu iðgjalds sem verður greidd frá 1. janúar 2023 og iðgjald sem er ráðstafað í samtryggingu hækkar en iðgjald í frjálsa séreign lækkar á móti. Mestar breytingar á réttindaávinnslu eru hjá yngri kynslóðum en minnstar hjá þeim eldri og nemur breytingin 10% til 20% m.v. iðgjaldagreiðslur til 70 ára aldurs. Þrátt fyrir að réttindaávinnsla lækki þá er gert ráð fyrir að samanlagðar lífeyrisgreiðslur til sjóðfélaga vegna framtíðarréttinda verði að meðaltali sambærilegar og áður var gert ráð fyrir því þær muni standa yfir í lengri tíma en áður hafði verið spáð.
Þar sem nýjar lífslíkutöflur gera ráð fyrir að meðalævi yngri árganga verið hærri en eldri árganga hefur verið gerð réttindatafla fyrir hvern fæðingarárgang sem miðar að því að greidd iðgjöld standi undir skuldbindingum hvers árgangs og eru töflurnar að finna í viðauka í samþykktum sjóðsins.