Frétt
Áhrif málefna ÍL-sjóðs á eignir Frjálsa lífeyrissjóðsins
07. nóvember 2022Íbúðalánasjóður hóf útgáfu á skuldabréfum með ríkisábyrgð (HFF) árið 2004. Bréfin eru að mestu í eigu lífeyrissjóða og verðbréfasjóða, m.a. Frjálsa lífeyrissjóðsins.
Vegna slæmrar stöðu Íbúðalánasjóðs, sem nú heitir ÍL-sjóður, gaf fjármálaráðherra út yfirlýsingu þann 20. október sl. þess efnis að hann vilji ná samkomulagi við eigendur bréfanna um uppgjör og slit sjóðsins. Gangi ekki að semja verði sjóðnum slitið með lagasetningu og eignum hans ráðstafað til að gera upp skuldir. Sama dag var bókfært virði HFF bréfa í eigu Frjálsa 41,7 milljarðar kr. eða um 10,7% af heildareignum sjóðsins.
Daginn eftir yfirlýsingu fjármálaráðherra voru bréfin sett á athugunarlista í Kauphöll Íslands vegna óvissu sem var uppi um verðmyndun þeirra. Í kjölfarið hefur markaðsvirði þeirra lækkað umtalsvert, en þó mismikið eftir því hvenær lokagjalddagi bréfanna er:
- HFF bréf með lokagjalddaga 2024 hafa lækkað um 1,3%
- HFF bréf með lokagjalddaga 2034 hafa lækkað um 8,6%
- HFF bréf með lokagjalddaga 2044 hafa lækkað um 15,8%
Markaðsvirðið miðast við að ÍL-sjóði verði slitið og að HFF bréfin verði greidd upp m.v. svokallað uppgreiðsluvirði, þ.e. höfuðstól, áfallna vexti og verðbætur.
Hér má sjá þau áhrif sem lækkun HFF bréfa hefur haft á ávöxtun Frjálsa eftir deildum:
Áhrif lækkunar HFF bréfa á ávöxtun | |
---|---|
Frjálsi áhætta | -1,1% |
Frjálsi 1 | -1,2% |
Frjálsi 2 | -1,5% |
Frjálsi 3 | -0,9% |
Frjálsi tryggingadeild | -0,4% |
Lækkunin hafði áhrif á stöðu séreignar sjóðfélaga en áhrif á tryggingafræðilega stöðu tryggingadeildar eru enn sem komið er engin því bréfin eru núvirt m.v. 3,5% ávöxtunarkröfu í tryggingafræðilegri athugun. Það þýðir að koma þarf til uppgreiðslu bréfanna til að framkalla áhrif á tryggingafræðilega stöðu.
Rétt er að taka fram að Frjálsi lífeyrissjóðurinn viðurkennir ekki lögmæti þeirra aðgerða sem fjármálaráðherra hefur boðað um slit og uppgjör á skuldum ÍL-sjóðs. Frjálsi telur lagalega stöðu lífeyrissjóðsins sterka og mun gæta hagsmuna sinna sjóðfélaga af fullum þunga í þessu máli. Heildaráhrif á stöðu Frjálsa munu því ekki koma í ljós fyrr en málið hefur verið leitt til lykta.