Frétt
Starfsemi Frjálsa árið 2021
20. apríl 2022– Mikill vöxtur og fjárfestingartekjur aldrei hærri
Rekstur Frjálsa gekk vel á árinu 2021, ávöxtun fjárfestingarleiða var mjög góð og sjóðurinn stækkaði um 20,3%. Ársreikningur sjóðsins fyrir árið 2021 liggur nú fyrir og eru helstu niðurstöður hans eftirfarandi:
- Hrein eign Frjálsa í lok árs 2020 var 402,4 milljarðar kr. á bókfærðu virði og stækkaði sjóðurinn á árinu um 67,8 milljarða kr. eða 20,3% sem er mesta hlutfallslega stækkun sjóðsins í 15 ár. Hrein eign séreignardeildar var 275,2 milljarðar kr. og hrein eign tryggingadeildar 127,1 milljarðar kr. Hrein eign Frjálsa var 407,7 milljarðar kr. á markaðsvirði.
- Heildariðgjöld hafa aldrei verið hærri, þau námu 23,6 milljörðum kr. á árinu og hækkuðu um 11,3% á milli ára.
- Metfjöldi sjóðfélaga greiddi iðgjöld á árinu eða 23.058 og fjöldi sjóðfélaga sem átti séreign/réttindi í lok árs var 64.354.
- Lífeyrisgreiðslur að fjárhæð 5,3 milljarðar kr. voru greiddar til 5.011 lífeyrisþega og hækkuðu þær um 17% á milli ára. Auk þess voru greiddir um 1,1 milljarðar kr. fyrirfram úr viðbótarsparnaði til 765 sjóðfélaga vegna Covid-19.
- Árið 2021 einkenndist af mikilli hækkun á verðbréfamörkuðum sem skilaði sjóðfélögum fjárfestingartekjum sem námu 52,3 milljörðum og hafa þær aldrei verið hærri. Nafnávöxtun fjárfestingarleiða sjóðsins var á bilinu 7,4% til 20,7% og 5 ára meðaltal nafnávöxtunar þeirra var 7,0% til 12,3%.
- Kostnaðarhlutfall sjóðsins, þ.e. hlutfall rekstrarkostnaðar og beinna fjárfestingargjalda af meðalstöðu hreinnar eignar á markaðsvirði, lækkaði úr 0,26% í 0,24% á milli ára.
- Í desember 2021 staðfesti fjármála- og efnahagsráðuneytið tillögur Félags íslenskra tryggingastærðfræðinga (FÍT) um breytingar á forsendum reiknigrunns um lífslíkur byggðar á áætlun um lífslíkur fólks í framtíðinni. Sú nýlunda er í spánni að gert er ráð fyrir að lífslíkur hvers fæðingarárgangs séu mismunandi og að lífslíkur fari vaxandi með hækkandi fæðingarári. Hinn nýi reiknigrunnur hækkar verulega skuldbindingar lífeyrissjóða. Hin góða ávöxtun hafði jákvæð áhrif á tryggingafræðilega stöðu sjóðsins en innleiðing á hinum nýja reiknigrunni hafði aftur á móti neikvæð áhrif.
Núvirtar eignir tryggingadeildar umfram áunnar skuldbindingar (áunnin staða) voru 0,1% í lok árs en núvirt framtíðariðgjöld umfram núvirtar framtíðarskuldbindingar -17,0%. Núvirtar eignir og framtíðariðgjöld umfram heildarskuldbindingar (heildarstaða) voru -9,2%.
Samkvæmt eldri reiknigrunni var áunnin staða aftur á móti 14,0%, framtíðarstaða -3,0% og heildarstaða 4,8%. Bregðast þarf við breyttri tryggingafræðilegri stöðu skv. hinum nýja reiknigrunni og verða tillögur þess efnis lagðar fram á ársfundi sjóðsins.
Nánari upplýsingar um ársuppgjörið er að finna í ársreikningi Frjálsa.
Nánari upplýsingar um ávöxtun sjóðsins og þróun markaða árið 2021 er að finna hér.