Frétt

Hæsta ávöxtun Frjálsa áhættu frá upphafi

Hæsta ávöxtun Frjálsa áhættu frá upphafi

Þriðja árið í röð hafði jákvæð gengisþróun hlutabréfa þau áhrif að ávöxtun fjárfestingarleiða Frjálsa, þar sem hlutabréf vega þyngst, var mjög há. Nafnávöxtun Frjálsa 1 var 17,4% og Frjálsa áhættu 20,7% sem er hæsta ávöxtun frá stofnun leiðarinnar árið 2008.

Á liðnu ári hefur ríkt mikil óvissa um efnahagsástand víðs vegar í heiminum vegna Covid faraldursins. Hagvöxtur batnaði verulega frá árinu 2020 og atvinnuleysi minnkaði hraðar en von var á. Aftur á móti hefur verðbólga verið há og reynst heldur þrálát miðað við væntingar. Ef horft er til baka yfir árið í heild má segja að árið 2021 á verðbréfamörkuðum og jákvæð þróun hagkerfisins hafi fyrst og fremst skilað sjóðfélögum góðri ávöxtun. Nafnávöxtun fjárfestingarleiða Frjálsa á árinu 2021 var á bilinu 7,4 - 20,7% sem jafngildir 2,5 - 15,1% raunávöxtun. Ávöxtun tryggingadeildar mun liggja fyrir við útgáfu ársreiknings sjóðsins.

Á árinu sem er að líða var innlendi hlutabréfamarkaðurinn mjög kraftmikill og sá eignaflokkur skilaði jafnframt mestri ávöxtun en úrvalsvísitala hlutabréfa hækkaði um 33,0% á árinu. Einnig voru erlendu hlutabréfin sterk, líkt og síðustu ár, en heimsvísitala hlutabréfa (e. MSCI World Index) hækkaði um 20,1% í Bandaríkjadal eða um 22,1% í íslenskum krónum á árinu.

Stýrivextir Seðlabankans náðu lágmarki í lok ársins 2020 og vaxtahækkunarferli er nú hafið. Ljóst er að markaðsaðilar vænta þess vextir haldi áfram að hækka næstu misseri. Nafnávöxtun verðtryggðra ríkisskuldabréfa var á bilinu 6,0 - 7,7% á tímabilinu en óverðtryggðra mun lakari eða -2,8 - 0,2%.

Frjálsi hefur verið síðustu ár á þeirri vegferð að auka vægi hlutabréfa og fyrirtækjaskuldabréfa á kostnað ríkisskuldabréfa svo og að auka vægi og breidd erlendra eigna með það að markmiði að stuðla að hærri langtímaávöxtun.

Langtímaávöxtun

Val sjóðfélaga á fjárfestingarleið sýnilegt í Arion appinu og Mínum síðum

Eins og sjá má er ávöxtun og áhætta fjárfestingarleiða mismunandi en val sjóðfélaga á fjárfestingarleið ræður mestu um ávöxtun. Mikilvægt er að sjóðfélagar séu því meðvitaðir um í hvaða fjárfestingarleið séreignarsparnaður þeirra er ávaxtaður en upplýsingar um það geta sjóðfélagar Frjálsa fundið í Arion appinu eða á Mínum síðum á www.frjalsi.is.

Áhættudreifing leiðarljós í fjárfestingum

Fjárfestingarleiðirnar hafa mismunandi fjárfestingarstefnu og fela í sér mismunandi áhættu. Við val á leið er rétt að hafa í huga væntanlegan útgreiðslualdur og viðhorf til áhættu. Fjárfest er í mismunandi eignaflokkum, eignum, landssvæðum og gjaldmiðlum til að ná fram áhættudreifingu. Markmiðið er að dreifa áhættunni á þann veg að þótt lækkun verði á ákveðnum eignaflokki, á ákveðinni tegund eigna eða innan ákveðins landsvæðis eru líkur á að hún vinnist að hluta upp í hækkun af öðrum og dragi þannig úr sveiflum á ávöxtun á viðkomandi fjárfestingarleið í heild. Upplýsingar um ávöxtun, fjárfestingarstefnu og eignasamsetningu leiðanna er að finna á vef sjóðsins.