Frétt

Framhald á umfjöllun um árangur sérhæfðra fjárfestinga

Framhald á umfjöllun um árangur sérhæfðra fjárfestinga

Frjálsi lífeyrissjóðurinn leggur mikla áherslu á gagnsæi og birtir því reglulega upplýsingar um kostnað, viðskipti við verðbréfamiðlanir, veltu, fjárfestingar tengdar rekstraraðila og ársfjórðungslega sundurliðun fjárfestinga. Á síðustu árum hefur verið fjallað um fjárfestingar Frjálsa í erlendum hlutabréfum og fjárfestingar í innlendum sérhæfðum fjárfestingum og er umfjöllunarefni þessarar greinar áframhald á fyrri umfjöllun um sérhæfðar fjárfestingar hér- og erlendis.

Almennt um sérhæfðar fjárfestingar

Hluti af fjárfestingum Frjálsa eru svonefndar sérhæfðar fjárfestingar. Með þeim er yfirleitt átt við fjárfestingar sem falla ekki undir hina hefðbundnu fjárfestingarflokka svo sem skuldabréf og hlutabréf. Dæmi um sérhæfðar fjárfestingar eru framtaksfjárfestingar, fasteignafjárfestingar, fjárfestingar í innviðum, sérhæfðar skuldabréfafjárfestingar og vísifjárfestingar. Sérhæfðar fjárfestingar eru oftast þess eðlis að þær fela í sér langtímabindingu, þær eru oft óskráðar og eru að jafnaði illseljanlegri en hefðbundnari fjárfestingar. Fjárfestingar sem þessar eru í mörgum tilvikum áhættusamar en fela á móti í sér væntingar um hærri langtímaávöxtun. Árangur safns sérhæfðra fjárfestinga er rétt að meta yfir lengra tímabil en ekki frá ári til árs líkt og með hefðbundnari fjárfestingar. Gera má ráð fyrir, líkt og með aðra fjárfestingakosti, að ekki gangi allar slíkar fjárfestingar vel en þegar uppi er staðið er heildarávöxtun flokksins hinn endanlegi mælikvarði á það hvernig til tekst.

Erlendar sérhæfðar fjárfestingar

Í kjölfar losunar gjaldeyrishafta 2017 opnaðist á ný sá möguleiki að fjárfesta í auknum mæli erlendis og það hefur Frjálsi lífeyrissjóðurinn nýtt sér með breytingu á fjárfestingarstefnu. Hluti af erlendum fjárfestingum sjóðsins eru erlendar sérhæfðar fjárfestingar en sjóðurinn hefur markað sér sérstakt markmið um að auka vægi eignaflokksins á komandi árum.

Fjárfest var í þremur erlendum sérhæfðum fjárfestingum á síðasta ári:

DNB Private Equity VII

DNB Private Equity VII er framtakssjóður í formi sjóðasjóðs. Sjóðurinn fjárfestir í öðrum framtakssjóðum sem aftur fjárfesta í óskráðum hlutabréfum og gefur því góða áhættudreifingu. Áherslur sjóðsins eru á framhaldssjóði sem áður hafa sýnt góða frammistöðu og stöðugleika. Fjárfest er á grónum markaðssvæðum í Vestur-Evrópu og Bandaríkjunum og mikil áhersla er lögð á umhverfismál, félagslega þætti og góða stjórnarhætti.

Obligo Global Infrastruktur II

Obligo Global Infrastruktur II er innviðasjóður sem fjárfestir í öðrum sjóðum sem aftur fjárfesta beint í innviðafjárfestingum. Áhættudreifing er mikil og í fjárfestingarstefnunni er lögð áhersla á samval sjóða með ólíka áhættuþætti, raunverulega innviði og fjárfestingar í sjálfbærum verkefnum. Að minnsta kosti 85% af fjárfestingunum eru innan OECD ríkjanna og áhersla er lögð á sjálfbærni og ábyrgar fjárfestingar.

Wellington Global Property

Wellington Global Property er fasteignasjóður og eru fjárfestingar hans dreifðar í undirgeirum fasteignamarkaðarins á heimsvísu. Sjóðurinn fjárfestir aðallega í hlutabréfum fyrirtækja sem þróa, reka eða leigja út fasteignir á þróuðum mörkuðum heimsins.

Innlendar sérhæfðar fjárfestingar

Eftir efnahagshrunið 2008 breyttist fjárfestingarumhverfi lífeyrissjóða umtalsvert og höfðu hérlend gjaldeyrishöft umtalsverð áhrif á mögulegar fjárfestingar. Á þessum tíma ákvað Frjálsi lífeyrissjóðurinn að leggja aukna áherslu á sérhæfðar innlendar fjárfestingar og hefur árangur frá þeim tíma til dagsins í dag í heildina litið verið góður þó dæmi séu um það að einhverjar fjárfestingar hafi farið verr en upphaflegar forsendur gerðu ráð fyrir. Undanfarin misseri hefur verið fjallað um fjárfestingu lífeyrissjóða í kísilverinu PCC á Bakka við Húsavík en Frjálsi lífeyrissjóðurinn hefur gert varúðarniðurfærslu í nokkrum skrefum alls um 79% frá upphaflegri fjárfestingu. Erfiðar aðstæður á hrávörumörkuðum og mikil óvissa til skemmri tíma hefur litað starfsemina en einnig hefur ekki gengið sem skyldi að ná framleiðsluferlinu í nægilega gott horf.

Í fjárfestingastefnu 2021 var meðal annars horft til þeirrar stöðu sem efnahagslegur samdráttur í kjölfar kórónuveirufaraldursins hefur í för með sér. Líklegt þótti að fjárfestingartækifæri myndu líta dagsins ljós við endurreisn íslensks efnahagslífs og í því samhengi var ákveðið að leggja áherslu á fjárfestingu í framtakssjóðum eða sjóðum sem fjárfesta á innlenda óskráða markaðnum. Að auki var lagt upp með að fjárfesta í nýsköpun. Síðustu áratugi hefur byggst upp mikil reynsla og þekking innan geirans og ljóst er að mikill meðbyr er hjá hinu opinbera og fjárfestum með slíkri starfsemi. Hjá Frjálsa hefur verið horft til slíkra fjárfestinga í gegnum vísisjóði. Þegar þessi grein er rituð er fyrirhuguð skuldbinding til þátttöku í nokkrum slíkum sjóðum og í ferli eru frekari skref á þeirri vegferð.

Hér má sjá árangur einstakra innlendra sérhæfðra fjárfestinga Frjálsa sem er lokið eða langt á veg komnar og fjárfest hefur verið í frá efnahagshruninu 2008.

* Byggt á nýjustu upplýsingum frá forsvarsmönnum viðkomandi fjárfestinga og með fyrirvara um skekkjur í útreikningum.

  • Jarðvarmi: Árið 2011 fjárfesti Frjálsi í HS Orku, sem er innviðafjárfesting í tengslum við sölu endurnýjanlegra orkugjafa. Árleg ávöxtun er um 6%.
  • SF V: Árið 2014 fjárfesti Frjálsi í félagi sem var stofnað utan um fjárfestingu í Festi, sem á sínum tíma voru meðal annars verslanirnar Krónan og Elko. Árleg ávöxtun var um 27%.
  • HSV Eignarhaldsfélag: Árið 2015 fjárfesti Frjálsi í HS Veitum, sem er innviðafjárfesting í tengslum við vatnsdreifikerfi. Árleg ávöxtun er um 26%.
  • SF 1: Árið 2011 fjárfesti Frjálsi í SF 1 sem fór með eignarhlut í Sjóvá - Almennum tryggingum hf. Árleg ávöxtun var um 26%.
  • Fasteignasjóðir SRE I og SRE II: Árið 2011 tók Frjálsi þátt í fasteignasjóðunum SRE I og SRE II á vegum sjóðastýringarfyrirtækis Stefnis þar sem meðal annars var fjárfest í Icelandair hótelinu á Akureyri, húsnæði Nýherja, Hótel Borg og Advania. Árleg ávöxtun var um 10% og 25%.
  • Framtaksfjárfestingarsjóðurinn HORN II: Árið 2013 ákvað Frjálsi að fjárfesta í framtaksfjárfestingasjóðnum Horn II á vegum sjóðastýringarfyrirtækis Landsbréfa sem meðal annars fjárfesti í félögunum Hvatningu, stærsta eiganda Bláa Lónsins, Fáfni Offshore og Kea hótelum. Árleg ávöxtun er um 25%.
  • Íslenski Athafnasjóðurinn II: Árið 2013 fjárfesti Frjálsi í framhaldssjóð Íslenska athafnasjóðsins á vegum Stefnis, Íslenska athafnasjóðsins II. Hann fjárfesti meðal annars í Festi og Skeljungi. Árleg ávöxtun er um 13%.
  • Veðskuldabréfasjóðir: Á árunum 2014-2017 hefur Frjálsi fjárfest í veðskuldabréfasjóðunum Alda Credit Fund (I, II), Veðskuld (II, III) og Landsbréf Veðskuldabréfasjóð en um er að ræða fjárfestingu í innlendum veðskuldabréfum þar sem undirliggjandi eru meðal annars skuldabréf með veð í fasteignum. Árleg ávöxtun veðskuldabréfasjóðanna er um 6%.
  • ST1 fagfjárfestasjóður: Árið 2016 fjárfesti Frjálsi í veðlánasjóðinum ST1 á vegum Stefnis. Árleg ávöxtun um 7%.
  • TFII: Árið 2017 fjárfesti Frjálsi í TFII, á vegum Íslenskra verðbréfa, sem hefur fjárfest í Hreinsitækni, Coripharma og Genis. Árleg ávöxtun um 15%.
  • Íslenski Athafnasjóðurinn: Árið 2011 ákvað Frjálsi að taka þátt í Íslenska athafnasjóðnum á vegum Stefnis sem meðal annars fjárfesti í Högum og Sjóvá. Árleg ávöxtun um 18%.
  • Edda slhf: Árið 2013 fjárfesti Frjálsi í innlenda framtakssjóðnum Eddu hjá sjóðastýringarfyrirtækinu Virðingu. Sjóðurinn fjárfesti meðal annars í Dominos, Securitas, Marorku og Íslandshótelum. Árleg ávöxtun er um 8%.
  • Ármúli lánasafn: Árið 2015 fjárfesti Frjálsi í fagfjárfestasjóði í rekstri Stefnis. Um var að ræða eignatryggt skuldabréf til fjármögnunar á skilgreindu lánasafni MP banka. Árleg ávöxtun um 7%.
  • Íslenski Athafnasjóðurinn III: Árið 2016 fjárfesti Frjálsi í framhaldssjóði Íslenska athafnasjóðsins á vegum Stefnis sem meðal annars fjárfesti í Reykjavík EDITION, Terra, Hamri, Lyfju og Men&Mice. Árleg ávöxtun er um 5%.
  • AL 2 fagfjárfestasjóður: Árið 2018 fjárfesti Frjálsi í AL 2 á vegum Stefnis sem var fjárfesting í óskráðum skuldaviðurkenningum fyrirtækja í gegnum Kviku banka hf. Árleg ávöxtun var um 5%.
  • Blávarmi: Árið 2019 fjárfesti Frjálsi í Blávarma sem fjárfestir í Bláa lóninu. Árleg ávöxtun um 2%.
  • Kjölfesta: Árið 2012 fjárfesti Frjálsi í framtakssjóðnum Kjölfestu sem var samstarf Virðingar og ALM ráðgjafar. Sjóðurinn fjárfesti meðal annars í Meniga, Oddi, Senu, Íslands hótel. Árleg ávöxtun er um 1%.
  • Innviðir fjárfestingar: Árið 2015 fjárfesti Frjálsi í innviðasjóði sem fer með eignarhlut í HS Veitum. Árleg ávöxtun er um -3%.
  • Hvatning: Árið 2019 fjárfesti Frjálsi í sjóði á vegum Landsbréfa sem fer með eignarhlut í Bláa lóninu. Árleg ávöxtun var um -6%.
  • SF VI slhf: Árið 2014 fjárfesti Frjálsi í SF VI á vegum Stefnis sem var fjárfesting í Gagnaverinu Verne Global á Reykjanesi. Árleg ávöxtun er um -6%.
  • Framtaksfjárfestingarsjóðurinn HORN III: Árið 2016 fjárfesti Frjálsi í framtaksfjárfestingarsjóðnum Horn III á vegum sjóðastýringarfyrirtækisins Landsbréfa sem meðal annars fjárfestir í Ölgerðinni, Hópbílum og Bílaleigu Flugleiða. Árleg ávöxtun er um -11%.
  • PCC Bakki: Árið 2015 fjárfesti Frjálsi í kísilverksmiðju við Húsavík. Þrátt fyrir að líftíma verkefnisins sé ekki lokið og ekki komið að endapunkti þá hafa erfiðleikar í rekstri og aukin fjárþörf orðið til þess að sjóðurinn hefur gert varúðarniðurfærslu um 79% frá upphaflegri fjárfestingu.
  • United Silicon: Árið 2015 fjárfesti Frjálsi í kísilverinu United Silicon í Helguvík á Reykjanesi. Sívaxandi rekstrarerfiðleikar og rökstuddur grunur um sviksemi varð þess valdandi að fjárfestingin tapaðist að endingu að fullu en hún nam rúmlega hálfu prósenti af eignum sjóðsins.