Frétt
Áherslur fjárfestingarstefnu 2021
10. desember 2020Stjórn Frjálsa lífeyrissjóðsins hefur mótað fjárfestingarstefnu fyrir árið 2021. Í stefnunni er haldið áfram á sömu vegferð og vörðuð hefur verið undanfarin ár. Stefnt er að því að hlutfall og fjölbreytni erlendra eigna aukist, hlutfall innlendra eigna minnki og áhætta skuldabréfasafns sjóðsins aukist.
Tryggingadeild
Markmið fjárfestingarstefnu tryggingadeildar er að lágmarka líkur á því að skerða þurfi réttindi sjóðfélaga. Vaxtastig hefur lækkað verulega frá árum áður og eru t.d. vextir ríkisskuldabréfa nú nærri sögulegu lágmarki. Áhættuminni fjárfestingarkostir munu ólíklega einir og sér veita nægilega langtímaávöxtun til að standa undir markmiðum um lífeyri í framtíðinni. Hlutfall áhættumeiri eigna er því aukið í fjárfestingarstefnunni til að bregðast við lækkandi vöxtum og til að freista þess að ná hærri langtímaávöxtun en á móti má gera ráð fyrir að skammtímasveiflur í ávöxtun aukist. Markmið um hlutfall eignaflokka breytast eins og hér segir:
- innlend skuldabréf lækki úr 64% í 59%
- erlend hlutabréf hækki úr 18% í 20%
- erlendar sérhæfðar fjárfestingar hækki úr 2% í 5%
- innlend hlutabréf haldist óbreytt en óskráð verðbréf aukist að einhverju leyti á kostnað skráðra
Frjálsi áhætta
Sjóðfélagar geta valið á milli fjögurra misáhættumikilla fjárfestingarleiða fyrir séreignarsparnað og þrjár þeirra eru hluti ævilínu þar sem iðgjöld og uppsöfnuð séreign færast sjálfkrafa á milli leiða eftir aldri og ákvörðun um útgreiðslu. Áhættumesta leiðin, Frjálsi áhætta, er ekki hluti ævilínu en er hentug þeim sem vilja meðvitað taka meiri áhættu með von um hærri langtímaávöxtun. Áhætta fjárfestingarstefnu Frjálsa áhættu hefur verið aukin enn frekar miðað við Frjálsa 1 til að gefa sjóðfélögum kost á að auka enn frekar áhættustig síns sparnaðar. Þar af leiðandi breytast markmið um hlutfall eignaflokka eins og hér segir:
- innlend skuldabréf lækki úr 36% í 32%
- erlend skuldabréf lækki úr 5% í 4%
- innlend hlutabréf hækki úr 19% í 21% og hækkunin verði að mestu leyti í óskráðum verðbréfum
- erlend hlutabréf hækki úr 36% í 38%
- erlendar sérhæfðar fjárfestingar hækki úr 4% í 5%
Frjálsi áhætta er tilvalin fyrir þá sjóðfélaga sem þola skammtímasveiflur í ávöxtun. Hún getur hentað þeim sem hafa tímann fyrir sér í sparnaði og þekkja vel til eðli verðbréfamarkaða.
Fjárfestingarleiðir ævilínu
Frá því að fjármagnshöft voru afnumin 2017 hefur verið lögð áhersla á að auka hlutfall erlendra eigna sjóðsins og þar með breidd eignasafnsins, bæði milli erlendra og innlendra eigna svo og innan hvors flokks. Við mótun fjárfestingarstefnu 2021 var haldið áfram á þeirri braut. Helstu breytingar á markmiði um hlutfall eignaflokka eru eins og hér segir:
- erlendar eignir Frjálsa 1 hækki úr 37% í 40% og Frjálsa 2 úr 18% í 20%
- innlend hlutabréf haldist óbreytt hjá Frjálsa 1 og Frjálsa 2 en óskráð verðbréf aukist að einhverju leyti á kostnað skráðra
Frjálsi 3 samanstendur alfarið af innlendum skuldabréfum og innlánum. Lagt er upp með að dregið verði úr vægi ríkisvíxla, ríkisskuldabréfa og sértryggðra skuldabréfa og vægi fasteignaveðtryggðra skuldabréfa verði aftur á móti aukið úr 10% í 18% og fyrirtækjaskuldabréfa úr 13% í 22%.
Fjárfestingarstefna sjóðsins er birt á vefsíðu sjóðsins en hana má nálgast hér.