Frétt
Þróun fjármálamarkaða frá áramótum
14. júlí 2020Óhætt er að segja að fyrstu sex mánuðir ársins 2020 hafa verið án hliðstæðu vegna heimsfaraldursins COVID-19. Heimsfaraldurinn hefur haft veruleg samfélags- og efnahagsleg áhrif í för með sér og flestir greiningaraðilar eru sammála um að einn mesti samdráttur á lýðveldistímanum sé yfirvofandi í kjölfar faraldursins.
Stiklað á stóru
Á óvissutímum líkt og þessum er vert að líta yfir farinn veg á fjármálamörkuðum. Innlendur hlutabréfamarkaður hefur, að miklu leyti, náð sér aftur á strik eftir sveiflukennda og mikla lækkun í mars. Úrvalsvísitala innlendra hlutabréfa hefur lækkað um tæp 1,5% frá áramótum miðað við 30. júní 2020. Innlendur skuldabréfamarkaður hefur haldið velli frá áramótum, þar sem ávöxtunarkrafa verðtryggðra og óverðtryggðra ríkisskuldabréfa hefur lækkað töluvert á tímabilinu. Ávöxtun óverðtryggðra ríkisskuldabréfa hefur verið á bilinu 5,5% til 9,3% en verðtryggðra á bilinu 3,6% til 13,0%.
Gengi íslensku krónunnar hefur gefið töluvert eftir frá áramótum en hún hefur veikst um rúm 14% á móti bæði evru og Bandaríkjadal. Erlendir verðbréfamarkaðir hafa einnig sótt í sig veðrið. Heimsvísitala hlutabréfa hefur lækkað um tæp 7% frá áramótum í grunnmynnt sinni Bandaríkjadal en athuga skal að í íslenskum krónum hefur hún hækkað um tæp 7%, vegna gengisveikingar íslensku krónunnar.
Ávöxtun Frjálsa lífeyrissjóðsins miðað við 30. júní 2020
Ávöxtun fjárfestingarleiða Frjálsa lífeyrissjóðsins hefur sveiflast töluvert á fyrstu sex mánuðum ársins en nafnhækkun sjóðsins var á bilinu 5,2% til 6,9% og raunhækkun um 3,6% til 5,3%.