Frétt

Þróun fjármálamarkaða frá áramótum

Þróun fjármálamarkaða frá áramótum

Undanfarna daga og vikur hefur mikil ólga verið á innlendum og erlendum fjármálamörkuðum í kjölfar útbreiðslu kórónuveirunnar. Miklar sveiflur hafa einkennt þróun eignaverðs þar sem fjárfestar reyna að meta efnahagsleg áhrif veirunnar. Við aðstæður sem þessar er vert að undirstrika mikilvægi áhættudreifingar, sem er grunnþáttur í eignasöfnum þar sem fjárfestingartími er langur. Til að ná fram áhættudreifingu fjárfestir Frjálsi lífeyrissjóðurinn meðal annars í ólíkum eignum og eignaflokkum sem og eftir mismunandi landsvæðum. Áhættu er þar af leiðandi dreift á þann veg að þótt lækkun verði á ákveðnum eignaflokki, á ákveðinni tegund eigna eða innan ákveðins landsvæðis eru líkur á að hún vinnist að hluta upp í hækkun af öðrum og dragi þannig úr sveiflum á viðkomandi eignasafni í heild.

Stiklað á stóru

Innlendur hlutabréfamarkaður hefur lækkað skarpt undanfarnar vikur og daga. Úrvalsvísitala innlendra hlutabréfa hefur lækkað um rúm 23% frá árslokum 2019 til dagsins í dag. Innlendur skuldabréfamarkaður hefur þróast á þann veg að ávöxtunarkrafa verðtryggðra og óverðtryggðra ríkisskuldabréfa hefur lækkað töluvert frá áramótum. Ávöxtun innlendra skuldabréfa hefur því verið góð það sem af er ári, óverðtryggð ríkisskuldabréf hafa skilað ávöxtun á bilinu 3,1% til 5,4% og ávöxtun verðtryggðra ríkisskuldabréfa hefur verið um 1,1% til 8,4%.

Íslenska krónan hefur gefið töluvert eftir frá áramótum en hún hefur veikst um rúm 10% á móti Evru og tæp 12% á móti Bandaríkjadal. Veiking krónunnar á móti öðrum viðskiptamyntum þýðir að öðru óbreyttu að erlendar eignir, mældar í íslenskum krónum, hafa hækkað samsvarandi. Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur, í tveimur skrefum, ákveðið að slaka á taumhaldi peningastefnunnar í ljósi versnandi efnahagshorfa í kjölfar kórónuveirunnar og lækkað meginvexti bankans um 1 prósentustig eða í 1,75%. Enn fremur ákvað fjármálastöðugleikanefnd Seðlabankans að aflétta kröfu um sveiflujöfnunarauka á fjármálafyrirtæki og verður hann því 0%. Aflétting kröfu um sveiflujöfnunarauka skapar svigrúm í bankakerfinu til að styðja við heimili og fyrirtæki með nýjum útlánum.

Erlendir verðbréfamarkaðir hafa einnig lækkað verulega. Frá áramótum hefur heimsvísitala hlutabréfa lækkað um tæp 25% í Bandaríkjadal. Vísitölur evrópskra hlutabréfa hafa almennt lækkað um rúm 30% en hlutabréfavísitölur Bandaríkjanna um 25%. Flestir Seðlabankar heims hafa nú þegar gripið til ýmissa aðgerða til að styðja við efnahagslífið, bæði með vaxtalækkunum og kaupum á skuldabréfum í formi magnbundinnar íhlutunar (e. quantitative easing). Ljóst er að til skamms tíma verða áfram sveiflur á innlendum og erlendum fjármálamörkuðum, líklega þar til mat á beinum og óbeinum áhrifum kórónuveirunnar verður farið að skýrast.

Ávöxtun Frjálsa lífeyrissjóðsins

Rétt er að hafa í huga að lífeyrissparnaður er í eðli sínu langtímasparnaður. Ávöxtun lífeyrissjóða er háð markaðsaðstæðum hverju sinni og getur hún verið sveiflukennd til skemmri tíma litið en þegar horft er til lengri tíma jafnast sveiflurnar út að miklu leyti. Mikilvægt er að hafa í huga að sjóðfélagar Frjálsa geta valið um misáhættumiklar fjárfestingarleiðir sem hafa ólíka eignasamsetningu og henta sjóðfélögum á ólíkum aldri og með mismunandi viðhorf til áhættu. Þær fjárfestingarleiðir sem standa sjóðfélögum Frjálsa til boða eru því ólíkar og því er söguleg ávöxtun þeirra mismunandi.

Hér má sjá nánari upplýsingar um núgildandi fjárfestingarstefnu Frjálsa. Þá eru upplýsingar um eignasamsetningu sjóðsins uppfærðar ársfjórðungslega.

Ávöxtun Frjálsa m.v. 13. mars 2020