Frétt
Athugasemd vegna greinar í Morgunblaðinu
13. maí 2019Hróbjartur Jónatansson, sjóðfélagi í Frjálsa, heldur því fram í grein í Morgunblaðinu í dag að ekki hafi orðið af því að efna til útboðs um endurskoðun sjóðsins. Hið rétta er að KPMG verður endurskoðandi Frjálsa eftir ársfund í dag, mánudag, í stað Deloitte, sem verið hefur endurskoðandi sjóðsins frá árinu 2004. Það varð niðurstaðan að undangengnum tilboðum sem Frjálsi óskaði eftir í endurskoðun sjóðsins.
Stjórn Frjálsa gerði tillögu um KPMG eftir yfirferð á þeim tilboðum sem bárust. Samkvæmt samþykktum sjóðsins þurfa tillögur um endurskoðenda að berast stjórn sjóðsins eigi síðar en viku fyrir ársfund. Engar aðrar tillögur bárust og verður því KPMG sjálfkjörið sem endurskoðandi sjóðsins.
Enda þótt tillaga stjórnar hafi verið birt á vef Frjálsa skrifar Hróbjartur í Morgunblaðið:
„Sömuleiðis þarf að að skilja endurskoðun bankans frá endurskoðun sjóðsins en sama endurskoðunarfélag hefur um árabil þjónað báðum. Það er ekki heppilegt fyrirkomulag. Á síðasta ársfundi lýsti formaður endurskoðunarnefndar sjóðsins, sem raunar er aðeins skipuð stjórnarmönnum, því yfir að farið yrði með endurskoðun sjóðsins í útboð. Af því hefur þó ekki orðið.“