Frétt

Innheimtuferli lífeyrisiðgjalda vegna gjaldþrots WOW AIR er hafið

Innheimtuferli lífeyrisiðgjalda vegna gjaldþrots WOW AIR er hafið

Lífeyrissjóðir gera kröfu í Ábyrgðasjóð launa um vangoldin lífeyrisiðgjöld, líkt og fjallað er um í lögum um ábyrgðasjóðinn nr. 88/2003. Lífeyrisiðgjöld eru meðal forgangskrafna í gjaldþrota bú og ábyrgist Ábyrgðarsjóður launa lífeyrisiðgjöld sem fallið hafa í gjalddaga eða áunnist á síðustu 18 mánuðum fyrir úrskurðardag um gjaldþrotaskipti.

Ábyrgðin takmarkast við allt að 15,5% skylduiðgjald og 4% viðbótariðgjald. Frjálsa lífeyrissjóðnum hafa nú þegar borist skilagreinar vegna desember, janúar og febrúar sl. og fullnægjandi gögn til innheimtu vegna marsmánaðar og launa í uppsagnarfresti. Sjóðurinn mun sjá um innheimtuferlið. Sjóðfélagar þurfa því ekki að aðhafast vegna þessa en eru hvattir til að bera saman launaseðla og yfirlit um vangreidd iðgjöld og síðar innborgarnir á lífeyrisyfirlitum á Mínum síðum. Erfitt er að áætla hve langan tíma innheimtuferlið mun taka.

Taka ber fram að lífeyrissjóðir hafa ekki milligöngu um innheimtu annarra krafna en lífeyrisiðgjalda. Nánari upplýsingar um kröfugerð vegna vangoldinna launa eða launa í uppsagnarfresti má finna í umfjöllun um Ábyrgðasjóð launa á vefsíðu Vinnumálastofnunar. Þá er einnig bent á að hægt er að leita til viðeigandi stéttarfélags. 

Fréttin var uppfærð 10. apríl 2019