Frétt

Ávöxtun Frjálsa lífeyrissjóðsins og þróun markaða 2018

Ávöxtun Frjálsa lífeyrissjóðsins og þróun markaða 2018

Að baki er viðburðarríkt ár á fjármálamörkuðum og er óhætt að segja að ávöxtun ársins 2018 hafi einkennst af töluverðum sveiflum. Sá eignaflokkur sem hækkaði mest á árinu voru löng verðtryggð skuldabréf, en það er annað árið í röð sem verðtryggð gefa betur en óverðtryggð skuldabréf. Samhliða því lækkuðu raunvextir á markaði og kaflaskil urðu í verðbólguþróuninni í desember þegar tólf mánaða verðbólga mældist 3,7%.

Á innlendum hlutabréfamarkaði var frekar dimmt þriðja árið í röð. Á fyrri hluta ársins var ágætis gangur en það tók að breytast með haustinu þegar fréttaflutningur einkenndist af áhyggjum af ferðaþjónustu, væntanlegum kjarasamningum og vandræðum íslensku flugfélaganna. Fjárhagsvandræði Wow Air, gjaldþrot Primera Air og tvær neikvæðar afkomuviðvaranir Icelandair má þar kannski helst nefna. Úrvalsvísitala hlutabréfa lækkaði um 1,3% en vísitalan er samsett af þeim átta félögum sem hafa mestan seljanleika í viðskiptum í Kauphöll.

Síðustu ár hafa verið gæfurík á alþjóðamörkuðum og voru flestir hlutabréfamarkaðir ágætir framan af ári með bandaríska markaðinn í fararbroddi sem í lok september hafði hækkað um 9%. En þegar líða tók á síðasta ársfjórðung tóku markaði skarpa dýfu og enduðu árið lægri en þeir hófu það í fyrsta sinn í áratug. Allar hlutabréfavísitölur voru með neikvæða ávöxtun fyrir árið í heild, heimsvísitala hlutabréfa lækkaði um 10,2% mælt í bandaríkjadollar, en hækkaði um 0,5% mælt í íslenskum krónum, sem má rekja til gengisveikingar íslensku krónunnar sem mældist 7,3% á árinu.

Nafnávöxtun fjárfestingaleiða Frjálsa var á bilinu 4,3% til 7,1%. Við samanburð á ávöxtun ber að hafa í huga að ólíkar fjárfestingastefnur gilda fyrir einstakar fjárfestingaleiðir.

Frjálsi Áhætta, sem er áhættumesta fjárfestingarleið sjóðsins skilaði 4,3% nafnávöxtun á árinu.

Frjálsi 1, sem er stærsta, elsta og fjölmennasta leið sjóðsins skilaði 4,4% nafnávöxtun.

Frjálsi 2 skilaði 6,4% nafnávöxtun.

Frjálsi 3 skilaði 7,1% nafnávöxtun. Fjárfestingaleiðin samanstendur af skuldabréfum og innlánum. Ávöxtunina má rekja til hækkunar á innlendum skuldabréfum, þá einkum verðtryggðum skuldabréfum, en vægi þeirra í lok árs nam 94%.

Ávöxtun tryggingadeildar liggur ekki fyrir fyrr en gerð ársreiknings er lokið.