Frétt
Rekstrarsamningur Frjálsa lífeyrissjóðsins við Arion banka hf.
13. nóvember 2018Líkt og fram kom í frétt þann 6. september sl. hefur stjórn Frjálsa haft til skoðunar með hvaða hætti megi auka upplýsingagjöf til sjóðfélaga. Hefur stjórn ákveðið að birta í heild sinni á vef sjóðsins samning Frjálsa við Arion banka hf., um rekstur og eignastýringu. Hægt er lesa samninginn hér.
Bætist þetta við aðra upplýsingagjöf vegna rekstrarfyrirkomulagsins en í ársreikningi sjóðsins eru ítarlegar upplýsingar um rekstrarkostnað, þ.m.t. þau ákvæði rekstrarsamningsins sem lúta að umsýsluþóknun sjóðsins til Arion banka. Upplýsingar um umsýsluþóknunina er einnig að finna á vef sjóðsins.
Er þetta hluti af þeirri vegferð sjóðsins að auka enn frekar gagnsæi gagnvart sjóðfélögum. Frjálsi lífeyrissjóðurinn var t.d. fyrsti lífeyrissjóðurinn sem birti sundurliðun á öllum eignum sjóðsins árið 2009 og eru þær upplýsingar uppfærðar ársfjórðungslega á vefsíðu sjóðsins.
Einnig skal bent á að fimmtudaginn 22. nóvember kl. 17:30 verður haldinn opinn fræðslufundur um Frjálsa lífeyrissjóðinn. Þar mun Arnaldur Loftsson, framkvæmdastjóri sjóðsins, segja frá uppbyggingu, ávöxtun og þjónustu við sjóðfélaga. Fjallað verður m.a. um þá þætti sem veita sjóðnum sérstöðu, s.s. séreignarmyndun og erfanleika.
Skráning á fundinn fer fram hér og eru allir velkomnir.