Frétt

Ávöxtun Frjálsa kemur vel út miðað við samanburðarsjóði skv. skýrslu Analytica

Ávöxtun Frjálsa kemur vel út miðað við samanburðarsjóði skv. skýrslu Analytica

Frjálsi lífeyrissjóðurinn óskaði eftir því að ráðgjafarfyrirtækið Analytica gerði skýrslu um samanburð á ávöxtun og kostnaði sjóðsins í samanburði við nokkra aðra lífeyrissjóði. Tilefnið er samanburður Stefáns Sveinbjörnssonar, sjóðfélaga og framkvæmdastjóra Verslunarmannafélags Reykjavíkur og nefndarmanns í endurskoðunarnefnd annars lífeyrissjóðs, sem hann rakti í erindi sínu á ársfundi Frjálsa lífeyrissjóðsins í maí sl. Efni úr kynningu Stefáns birtist á vef Eyjunnar/DV eftir að Ragnar Þór Ingólfsson, formaður stjórnar Verslunarmannafélags Reykjavíkur, fjallaði um hana. Hér er að finna viðbrögð sjóðsins við þeirri umfjöllun.  

Helstu niðurstöður Analytica eru þær að samanburðurinn gefi beinlínis ranga og misvísandi mynd af ávöxtun samtryggingardeilda sjóðanna þar sem ekki er tekið tillit til mismunandi uppgjörsaðferða sjóðanna. Þannig er ekki tekið tillit til þess að flestir lífeyrissjóðir gera hluta skuldabréfaeignar sinnar upp á kaupkröfu á meðan aðrir meta skuldabréfasafnið á markaðsvirði. Eftir að leiðrétt hefur verið fyrir markaðsávöxtun skuldabréfa sem gerð eru upp á kaupkröfu innan samtryggingardeilda er 3ja ára meðalávöxtun samtryggingardeildar Frjálsa eftir allan kostnað best á meðal samanburðarsjóðanna, andstætt því sem kom fram í kynningu Stefáns. Á sama tímabili er rekstrar- og fjárfestingarkostnaður Frjálsa hæstur. Stefna Frjálsa er að fjárfesta í sjóðum í virkri stýringu sem oft eru kostnaðarsamari og auka óbeinan fjárfestingarkostnað sjóðsins en hafa aftur á móti heilt yfir skilað sjóðnum góðri ávöxtun. Langtímaávöxtun tryggingadeildar Frjálsa og sjóðsins í heild er jafnframt best á meðal sjóða þar sem upplýsingar liggja fyrir um markaðsvirði skuldabréfa þeirra.  

Þá gerir Analytica athugasemd við að borinn er saman kostnaður við rekstur hvers sjóðs í heild í samhengi við ávöxtun samtryggingardeilda sjóðanna. Réttast sé að nota ávöxtun lífeyrissjóðanna í heild þegar gerður er samanburður á rekstrar- og fjárfestingarkostnaði sjóðanna í heild.  Af heildareignum Frjálsa nemur samtryggingardeildin aðeins um 30% og gefur því augaleið að samanburðurinn er villandi. 

Frjálsi lífeyrissjóðurinn fagnar allri umræðu og samanburði á ávöxtun og kostnaði lífeyrissjóða. Slík umræða veitir stjórn og starfsfólki sjóðsins, sem og öðrum lífeyrissjóðum, aðhald og getur verið upplýsandi og gagnleg fyrir sjóðfélaga. Það er hins vegar mikilvægt að samanburðurinn sé réttur, sanngjarn og byggður á samanburðarhæfum upplýsingum. Slíku var ekki að dreifa í umræddri kynningu og telur sjóðurinn sér rétt og skylt að koma réttum upplýsingum á framfæri til sjóðfélaga. 

Skýrsla Analytica er aðgengileg hér fyrir neðan.

Skýrsla Analytica um rekstrar- og fjárfestingarkostnað og hreina ávöxtun lífeyrissjóða