Frétt
Dylgjur í garð Frjálsa lífeyrissjóðsins í umfjöllun í Morgunblaðinu í dag
06. september 2018Í tilefni af umfjöllun Morgunblaðsins í dag um Frjálsa lífeyrissjóðinn er rétt að taka fram eftirfarandi:
Í blaðinu kemur fram að skv. Hróbjarti Jónatanssyni hæstaréttarlögmanni og sjóðfélaga muni stjórn sjóðsins ekki gera rekstrarsamning sjóðsins við Arion banka opinberan. Stjórn Frjálsa lífeyrissjóðsins hefur enn til umfjöllunar hvort rekstrarsamningur sjóðsins við Arion banka verði birtur. Stefnt er að því í haust að skoða í samstarfi við rekstraraðila með hvaða hætti stjórn getur upplýst sjóðfélaga um ákveðin efnisatriði samningsins eins og Hróbjartur var upplýstur um í júní sl. í tengslum við fyrirspurn hans. Stjórnin hefur ekki útilokað að samningurinn í heild verði gerður opinber með hliðsjón af kröfum um gagnsæi jafnvel þótt samkeppnissjónarmið kunni að mæla gegn því. Stjórnin hefur ákveðið að horfa sérstaklega til gagnsæis og jafnræðis sjóðfélaga í tengslum við upplýsingargjöf. Svo er rétt að taka fram að í ársreikningi sjóðsins eru ítarlegar upplýsingar um rekstrarkostnað sjóðsins, þ.m.t. þau ákvæði rekstrarsamnings sem lúta að umsýsluþóknun sjóðsins til Arion banka. Upplýsingar um umsýsluþóknunina er einnig að finna á vef sjóðsins.
Villandi samanburður á rekstrarkostnaði en góð langtímaávöxtun Frjálsa
Samanburður Hróbjarts í viðtali við Morgunblaðið á rekstrarkostnaði Frjálsa lífeyrissjóðsins og Almenna lífeyrissjóðsins er ákaflega villandi vegna þess að hann blandar saman rekstrarkostnaði og áætluðum fjárfestingarkostnaði í sjóðum sem fjárfest er í. Rekstrarkostnaður á því þriggja ára tímabili sem tekið er fyrir er hjá Frjálsa að meðaltali 0,35% af meðaleignum en 0,30% hjá Almenna sem nemur mismun að fjárhæð 230 milljónum kr. en ekki 1,5 milljarði kr. Munurinn á rekstrarkostnaði sjóðanna hefur farið minnkandi og var árið 2017 einungis 0,02% af meðaleignum. Áætlaður fjárfestingarkostnaður er á hinn bóginn mjög erfiður í samanburði milli umræddra sjóða þar sem stefna Frjálsa er að fjárfesta meira í virkum sjóðum sem skýrir að mestu mun á fjárfestingarkostnaði sjóðanna. Forsenda Frjálsa fyrir notkun slíkra sjóða er að þeir skili betri árangri en ódýrari vísitölusjóðir.
Það sem er hins vegar skiptir máli fyrir sjóðfélaga er langtímaávöxtun sjóðsins eftir kostnað. Þegar horft er til þessa skilaði sjóðurinn betri heildarávöxtun á markaðsvirði heldur en Almenni á umræddu 3ja ára tímabili. Sama gildir ef horft er til 10 eða 15 ára en Almenni skilaði aftur á móti hærri heildarávöxtun sl. 5 ár.
Rangar upplýsingar um viðskipti með hlutabréf sjóðsins
Í umfjölluninni gefur Hróbjartur í skyn að hlutabréfaviðskipti sjóðsins séu gerð til að auka þóknanatekjur Arion banka. Því fer fjarri. Velta sjóðsins á sér eðlilegar skýringar og aðeins 16% hennar fela í sér miðlunarkostnað fyrir sjóðinn og af þeim hluta voru 70% við aðrar verðbréfamiðlanir en Arion banka eins og hefur komið fram í frétt á vef sjóðsins þegar leiðrétta þurfti rangfærslur Hróbjarts í fjölmiðlum. Það er því rangt að umrædd viðskipti séu gerð sérstaklega til að afla bankanum tekna.
Hróbjartur heldur því fram að sjóðurinn hafi selt hlutabréf fyrir 37,9 milljarða á árinu 2017 sem er rangt. Hið rétta er að sjóðurinn seldi hlutabréf fyrir 1,7 milljarð kr. á árinu. Fyrrgreind sala að fjárhæð 37,9 milljarðar inniheldur í raun bæði hlutabréf og sjóði, þ.m.t. sjóði sem fjárfesta í innlánum. Inn í þessari tölu er innlausn Frjálsa á hlutabréfasjóði að fjárhæð um 9 milljarða gegn því að fá undirliggjandi hlutabréf á móti. Þeim viðskiptum fylgdi engin miðlunarkostnaður. Þá keypti sjóðurinn fyrir um 13 milljarða í lausafjársjóðum og seldi fyrir um 17 milljarðar á árinu en þau viðskipti eru hluti af lausafjárstýringu sjóðsins sem jafnframt voru án miðlunarkostnaðar. Ofangreind viðskipti ásamt fleiri viðskiptum kostuðu sjóðinn einungis afgreiðslugjald sem eru fyrir innlend viðskipti 450 kr. Þóknanir sem sjóðurinn greiddi fyrir verðbréfaviðskipti nam 11 milljónum króna.
Allir stjórnarmenn kosnir á ársfundi
Varðandi stjórnskipulag sjóðsins er rétt að taka fram að á síðasta ársfundi voru gerðar breytingar á samþykktum sjóðsins sem fela í sér að frá og með næsta ársfundi verða allir stjórnarmenn kosnir á ársfundi sjóðsins.