Frétt
Niðurstöður ársfundar Frjálsa lífeyrissjóðsins
31. maí 2018
Ársfundur Frjálsa lífeyrissjóðsins var haldinn 30. maí sl. og var vel sóttur. Á fundinum var kynnt skýrsla stjórnar, ársreikningur sjóðsins, niðurstöður tryggingafræðilegrar athugunar og fjárfestingarstefna. Jafnframt voru breytingartillögur á samþykktum sjóðsins lagðar fram.
Kosning stjórnarmanna
Á fundinum var kosið um tvo stjórnarmenn til tveggja ára í aðalstjórn og tvo stjórnarmenn í varastjórn til eins árs. Réttkjörin voru þau Anna Sigríður Halldórsdóttir og Halldór Friðrik Þorsteinsson í aðalstjórn og Hrafn Árnason og Sigurður H. Ingimarsson í varastjórn.
Tillögur
Tillögur stjórnar um breytingar á samþykktum voru samþykktar að undanskyldu ákvæði 4.5 og 4.6. um aðkomu valnefndar að kosningu stjórnarmanna á ársfundi. Tillaga sjóðfélaga um að fella út ákvæði greinar 4.9 í samþykktum sjóðsins þess efnis að Arion banki annist daglegan rekstur sjóðsins hlaut ekki samþykki.
Tillaga stjórnar um óbreytt stjórnarlaun, 163.500 kr. á mánuði og tvöföld til stjórnarformanns, var samþykkt.
Tillaga stjórnar um að ársfundur feli stjórn sjóðsins að koma með tillögu til breytinga á samþykktum á næsta ársfundi eða aukaársfundi varðandi tilhögun að rekstrarfyrirkomulagi sjóðsins var samþykkt.
Deloitte var endurkjörinn endurskoðandi sjóðsins.
Ásgeiri Thoroddsen þakkað
Á ársfundinum voru Ásgeiri Thoroddsen þökkuð giftudrjúg störf í þágu Frjálsa lífeyrissjóðsins. Ásdís Eva Hannesdóttir, varaformaður stjórnar, þakkaði Ásgeiri fyrir forystu hans í málefnum sjóðsins í 16 ár og Arnaldur Loftsson, framkvæmdastjóri sjóðsins, færði honum blómvönd. Sjóðfélagar á fundinum hylltu fráfarandi stjórnarformann með lófaklappi, en hann tilkynnti fyrir tveimur árum að hann hygðist ekki bjóða sig fram til stjórnarsetu að loknu kjörtímabilinu.