Frétt

Tillaga stjórnar Frjálsa lífeyrissjóðsins til ályktunar á ársfundi

Tillaga stjórnar Frjálsa lífeyrissjóðsins til ályktunar á ársfundi

Á ársfundi Frjálsa lífeyrissjóðsins á morgun, 30. maí, mun stjórn sjóðsins leggja fram tillögu til ályktunar um að ársfundur feli stjórn sjóðsins að koma með tillögu til breytinga á samþykktum á næsta ársfundi eða aukaársfundi varðandi tilhögun rekstrarfyrirkomulags sjóðsins. Stjórn telur óþarfi að tilgreina í samþykktum sjóðsins hver rekstraraðili sjóðsins er með þeim hætti sem verið hefur. Aftur á móti er það skoðun stjórnar að hún eigi ekki að geta gert einhliða breytingar á rekstrarfyrirkomulagi eða vali á rekstraraðila án þess að leggja breytinguna fyrir sjóðfélaga til samþykktar. Stjórnin telur því rétt að gera neðangreindar breytingar á samþykktum til að þar endurspeglist þetta viðhorf. 

 

Stjórn Frjálsa lífeyrissjóðsins leggur því til að ársfundur sjóðsins 30. maí nk. samþykki að fela stjórn að koma með tillögu til breytinga á samþykktum sjóðsins á næsta ársfundi eða aukaársfundi sem feli í sér að:

  • tilvísun til Arion banka sem rekstraraðila sjóðsins verði tekin út úr samþykktum,
  • sett verði inn heimild fyrir stjórn sjóðsins til að semja við ótilgreindan utankomandi aðila um daglegan rekstur sjóðsins, og
  • sett verði í samþykktir ákvæði um að breytingar sem stjórn hyggist gera á rekstrarfyrirkomulagi sjóðsins eða vali á rekstraraðila skuli bornar undir sjóðfélagafund til samþykktar og öðlist aðeins gildi hafi tillagan hlotið samþykki a.m.k. 2/3 hluta greiddra atkvæða líkt og gildir um samþykktarbreytingar. 

Verði tillaga þessi samþykkt munu tillögur til breytinga á samþykktum verða auglýstar í samræmi við samþykktir sjóðsins til kynningar fyrir sjóðfélaga fyrir ársfund eða aukaársfund sjóðsins.  

Tillaga þessi er gerð m.a. í ljósi þess að framlögð breytingartillaga sjóðfélaga á samþykktum sjóðsins felur það í sér, verði hún samþykkt, að stjórn sjóðsins mun geta einhliða gert breytingar á rekstrarfyrirkomulagi eða vali á rekstraraðila án þess að leggja breytinguna fyrir sjóðfélaga til samþykktar á ársfundi. Núverandi ákvæði greinar 4.9 um rekstraraðila felur í sér að stjórn getur ekki gert slíkar breytingar einhliða þar sem að aðkomu sjóðfélaga þarf á ársfundi til breytinga.