Frétt

Leiðrétting á rangfærslum í viðtali

Leiðrétting á rangfærslum í viðtali

Í viðtali við Hróbjart Jónatansson hæstaréttarlögmann, sem birtist í Morgunblaðinu 18. maí 2018, fer hann í annað sinn með sömu rangfærslu sem ástæða er til að leiðrétta að nýju. Í viðtalinu er haft eftir Hróbjarti:

“Frjálsi sker sig úr öðrum sjóðum held ég, hann er með 55.000 sjóðfélaga en lætur svo einhvern úti í bæ [þ.e. Arion banka] ráðstafa sínum hagsmunum."

Rekstrarsamningur milli Frjálsa lífeyrissjóðsins og banka er ekkert einsdæmi eins Hróbjartur heldur fram. Tveir lífeyrissjóðir útvista rekstri og eignastýringu til Landsbankans og fjórir til Arion banka. Fyrri leiðréttingu Frjálsa lífeyrissjóðsins vegna rangfærslna Hróbjarts í grein sem hann skrifaði í Morgunblaðið er að finna hér.

Jafnframt er haft eftir Hróbjarti á forsíðu Morgunblaðsins sama dag að Arion banki skipi þrjá af fjórum fulltrúum í stjórn. Hið rétta er að Arion banki skipar þrjá af sjö stjórnarmönnum, eða minnhluta stjórnarmanna. Rétt er að geta þess að stjórn sjóðsins hefur ákveðið að koma með breytingartillögu á samþykktum á komandi ársfundi þess efnis að allir stjórnarmenn verði kosnir á ársfundi. Nánari upplýsingar um breytingartillögurnar er að finna hér og eldri frétt um málið hér.

Í viðtalinu frá 18. maí sl. fjallar Hróbjartur um starfsemi Frjálsa, þar á meðal tengsl sjóðsins við Arion banka eins og hann hefur áður gert með greinaskrifum í Morgunblaðið. Ásgeir Thoroddsen stjórnarformaður Frjálsa lífeyrissjóðsins ritaði þá grein um málið sem fjallaði um stjórnskipulag Frjálsa, góðan árangur undanfarinna ára og aðkomu Arion banka sem rekstraraðila sjóðsins. Grein Ásgeirs má finna hér.