Frétt
Árétting frá stjórn Frjálsa lífeyrissjóðsins vegna fjölmiðlaumfjöllunar
17. mars 2018Frjálsi lífeyrissjóðurinn hefur verið starfandi í fjóra áratugi og hefur aðildarskylda verið frjáls frá stofnun sjóðsins. Í öll þessi ár hefur sjóðurinn aldrei haft eigin starfsmenn og jafnan útvistað rekstri sínum til fjármálafyrirtækja, án athugasemda frá Fjármáleftirlitinu (FME) og forverum þess. Það hefur verið mat stjórnar að þetta fyrirkomulag eigi drjúgan þátt í velgengni sjóðsins. Lífeyrissjóðurinn starfar samkvæmt gildandi lögum eins og þau eru á hverjum tíma. Þar á meðal í fullu samræmi við þau ákvæði laga og reglna um lífeyrissjóði sem taka til útvistunar.
Blekkingarvefur ástæða tapsins á United Silicon
Fjármálaeftirlitið er nú með fjárfestingu í United Silicon til sérstakrar athugunar. Í því sambandi er óhjákvæmilegt að árétta að um einstakt tilvik er að ræða, þar sem sterkur grunur er um að eftirlitsaðilar, stjórnvöld, lífeyrissjóðir og banki hafi verið blekktir af þeim aðila sem leiddi verkefnið. Sá blekkingarvefur, sem þar virðist hafa verið spunninn, er meginástæða þess að fjárfestingin tapaðist og hefur viðkomandi verið kærður. Eins og sjóðurinn hefur upplýst um í frétt á vefsíðu sinni mun hann gæta réttar síns og sjóðfélaga eins og kostur er. Í ljósi þeirrar rannsóknar, sem efnt var til eftir að greiðslustöðvun United Silicon var tilkynnt, óskaði Frjálsi lífeyrissjóðurinn, ásamt öðrum lífeyrissjóðum, eftir óháðu lögfræðiáliti um stöðu sjóðanna gagnvart fjárfestingum tengdum United Silicon. Þar verður skorið úr um til hvaða aðgerða sjóðirnir geti gripið til að verja hagsmuni sjóðfélaga. Að öðru leyti vísast til greinargerðar á vefsíðunni um fjárfestingu Frjálsa lífeyrissjóðsins í United Silicon.
Fjárfestingartekjur Frjálsa 12,5 milljarðar
Tap Frjálsa lífeyrissjóðsins vegna United Silicon var rúmlega 1,1 milljarður króna. Rétt er þó að setja það í samhengi við umfang sjóðsins og afkomu. Fjárfestingartekjur sjóðsins árið 2017 voru 12,5 milljarðar króna að teknu tilliti til tapsins á United Silicon. Fjárfestingin nam rúmlega 0,5% af eignum sjóðsins en þær voru um 210 milljarðar króna um síðustu áramót. Lögð hefur verið áhersla á að fjárfesta lágu hlutfalli í hverju verkefni til að dreifa áhættu sem fylgir fjárfestingum sjóðsins.
Ávöxtun séreignarleiða sjóðsins, sem fjárfestu í United Silicon, var 6,5% og 6,9% árið 2017. Fimmtán ára ávöxtun er um 9% á ársgrundvelli í leiðum Frjálsa lífeyrissjóðsins þrátt fyrir fjármálahrunið 2008.
Mikil fjölgun sjóðfélaga
Frjálsi lífeyrissjóðurinn hefur vaxið hlutfallslega meira en lífeyriskerfið í áraraðir. Um 22 þúsund einstaklingar völdu að greiða iðgjöld til sjóðsins árið 2017 og er það fjölgun um 8 þúsund frá árinu 2010. Um tvöfalt fleiri greiddu skylduiðgjald til sjóðsins en í þann frjálsa sjóð samkeppnisaðila sem næstur kom. Um 57 þúsund manns eiga séreign eða réttindi í Frjálsa lífeyrissjóðnum.