Frétt

Um fjárfestingu Frjálsa lífeyrissjóðsins í United Silicon

Um fjárfestingu Frjálsa lífeyrissjóðsins í United Silicon

Mögulegt hámarkstap um hálft prósent af heildareignum

Frjálsa lífeyrissjóðnum þykir miður að áætlanir varðandi fjárfestingu sjóðsins sem tengist félaginu United Silicon skuli ekki hafa gengið eftir og harmar þau óþægindi sem verksmiðjan hefur valdið íbúum á Reykjanesi. Félagið er nú í greiðslustöðvun og leitar nauðasamninga. Frjálsi lífeyrissjóðurinn vonast til þess að í nauðasamningsferlinu takist að ljúka nauðsynlegri endurskipulagningu og úrbótum á starfsemi félagsins.

Frjálsi lífeyrissjóðurinn hefur einungis komið að fjármögnun tengdri United Silicon en ekki sinnt daglegum rekstri né stjórnun félagsins að neinu leyti. Ef allt fer á versta veg þá verður hámarkstap sjóðsins í heild vegna fjárfestingarinnar rúmlega hálft prósent af heildareignum sjóðsins, mismunandi eftir fjárfestingarleiðum. Ávöxtun leiðanna sem tóku þátt í fjárfestingunni myndi lækka um 0,5%-0,7% ef fjárfestingin tapaðist alveg. Rétt er að taka fram að Frjálsi 3, sem er áhættuminnsta séreignarleiðin, tók ekki þátt í fjárfestingum tengdum United Silicon. Jafnframt að ekki þarf að grípa til neinna skerðinga vegna fjárfestingarinnar á áunnum réttindum eða lífeyri sjóðfélaga í tryggingadeild sjóðsins.

Ávöxtun leiða sjóðsins sem tóku þátt í fjárfestingunni er sl. 12 mánuði 5,6%-7,1% þrátt fyrir 100% varúðarniðurfærslu sem gerð hefur verið á fjárfestingum sjóðsins í verkefninu. Enn er óvíst hve mikið af fjárfestingunni tapast en mögulegar endurheimtur sjóðsins myndu leiða til þess að ávöxtun sjóðsins hækki.

Grundvöllur ákvörðunar um fjárfestingu í United Silicon

Áður en stjórnin, sem að meirihluta er kjörin á ársfundi, tók ákvörðun um fjárfestinguna, ásamt fleiri lífeyrissjóðum, hafði átt sér stað mikil undirbúningsvinna bæði innan sjóðsins og utan. Fyrir lá að í hluthafahópnum yrði erlenda félagið Fondel sem er einn stærsti innflytjandi kísils í Evrópu með yfir 40 viðskiptavini í ál- og efnaiðnaði. Félagið ábyrgðist árlega sölu á umtalsverðum hluta af kísilframleiðslu verksmiðjunnar og sölu- og markaðsmál fyrir United Silicon. Gert var ráð fyrir að önnur framleiðsla yrði seld á stundarmarkaði (e.spot) þar sem verðið myndi ráðast af heimsmarkaðsverði eða selt skv. síðari sölusamningum. Jafnframt var í hluthafahópnum félag sem var í eigu verkfræðinga og fjárfesta frá Danmörku og Íslandi sem lögðu eigið fé í fjárfestinguna.

United Silicon hafði undirritað samninga við Suður Afríska fyrirtækið Tenova – Pyromet um kaup á búnaði og hönnun verksmiðjunnar en Tenova hefur áratuga reynslu af framleiðslu búnaðar fyrir kísilmálmverksmiðjur.

Einnig lá fyrir undirritaður samningur við ÍAV um byggingu verksmiðjunnar. Á þeim tíma var búið að ganga frá orkukaupasamningi við Landsvirkjun til 20 ára og samningi við Landsnet um flutning raforkunnar. Leyfi og samningar við opinbera aðila lágu fyrir, s.s. mat á umhverfisáhrifum fyrir allt að 100 þús. tonna verksmiðju, starfsleyfi og lóðarsamningur og hafnarsamningur við Reykjaneshöfn.

Jafnframt var fyrir hendi fjárfestingarsamningur við íslenska ríkið og lánasamningur við Arion banka. Í tengslum við lánasamninginn voru unnar þrjár kostgæfnisathuganir á verkefninu sem allar skiluðu jákvæðri niðurstöðu. Kostgæfnisathuganirnar voru: Lögfræðileg kostgæfnisathugun, viðskiptaleg kostgæfnisathugun og kostgæfnisathugun á byggingarkostnaði. Ráðinn var utanaðkomandi lögmaður til að gæta hagsmuna lífeyrissjóðanna við fjárfestinguna, og einni af stærri verkfræðistofum landsins var falið að fara yfir kostnaðaráætlun verkefnisins. Verkfræðistofan skoðaði hvort byggingarkostnaðarleg kostgæfnisathugun, sem gerð var fyrir Arion banka, hefði náð til alls þess búnaðar, bygginga, prófana og uppsetningar sem þurfti til að verksmiðjan gæti hafið framleiðslu og náð tilsettum framleiðslumarkmiðum.

Þátttaka í fjármögnun United Silicon

Í ljósi þess að allt ofangreint lá fyrir og miðað við mat á kostnaði við verkefnið og rekstrarlíkan, sem byggðist m.a. á spá alþjóðlega greiningarfyrirtækisins CRU á verðþróun kísilmálms, var arðsemi verkefnisins metin góð að teknu tilliti til áhættu. Jafnframt þótti jákvætt að fjárfest var í gjaldeyrisskapandi starfsemi þegar ríkjandi voru fjármagnshöft í landinu, mikil eftirspurn var eftir kísilmálmi, öll leyfi voru til staðar og tæknin þekkt.

Stjórn sjóðsins samþykkti upphaflega fjárfestinguna í desember 2014. Í lok mars 2015 var fjárfest fyrir 3,7 m EUR í formi skuldabréfs sem var útgefið af Kísil III slhf. sem er hluthafi í United Silicon en greitt var fyrir bréfið í íslenskum krónum. Skuldabréfið var til 10 ára og bar 10% vexti í evrum. Á þessum tíma voru áhættulausir vextir í evrum til 10 ára í kringum 1% og álagið sem skuldabréfið bar því um 9%. Það er því ljóst af kjörum skuldabréfsins að ekki var um áhættulausa fjárfestingu að ræða. Til tryggingar skuldabréfinu voru forgangshlutabréf í United Silicon en þau njóta forgangs til arðgreiðslna frá félaginu umfram almennt hlutafé. Væri heimild til arðgreiðslu frá United Silicon til Kísils III greiddi félagið vexti af skuldabréfinu ellegar bættust vextir við höfuðstóls bréfsins. Ekki hefði verið hægt að greiða arð til almennra hluthafa fyrr en staðið hefði verið skil á vaxtagreiðslu til skuldabréfaeigenda. Út frá rekstrarlíkani verkefnisins, áætlaðri arðsemi og því að undirritaðir sölusamningar væru um 80% af allri framleiðslu verksmiðjunnar voru arðgreiðslumöguleikar United Silicon metnir góðir sem og veðandlag skuldabréfsins. Stjórn sjóðsins gerði sér fulla grein fyrir að um væri að ræða skuldabréf með ígildi hlutabréfaávöxtunar og hlutabréfaáhættu. Skuldabréfaformið var notað til að sjóðurinn fengi að greiða fyrir fjárfestinguna í íslenskum krónum en vextir og höfuðstóll sem greidd skyldu í evrum væru undanþegnar fjármagnshöftum skv. heimild Seðlabankans. Sjóðurinn hefur nýlega gjaldfellt skuldabréfið og gengið að forgangshlutabréfunum sem voru lögð að veði og á nú um 16% af hlutafé United Silicon.

Frjálsi lífeyrissjóðurinn ákvað að taka þátt í hlutafjáraukningu í United Silicon þrisvar sinnum. Í fyrstu tvö skiptin, þann 29. febrúar 2016 og 19. október 2016, til að mæta auknum byggingarkostnaði með kaupum á almennum hlutabréfum í A flokki fyrir samtals 195 milljónir kr. Þann 13. mars 2017, þegar að United Silicon glímdi við erfiðleika við gangsetningu verksmiðjunnar, ákvað sjóðurinn að kaupa hlutabréf í C flokki fyrir tæpar 397 milljónir kr. til að gera verksmiðjuna rekstrarhæfa til framtíðar. Við kaup á C hlutabréfum settu lífeyrissjóðir ákveðin skilyrði til að tryggja sem best hagsmuni sína. T.d. að lífeyrissjóðir fengju forgang á arð og tvöfaldan atkvæðisrétt. Lagt var upp með að nýtt hlutafé yrði m.a. notað til að auka mengunarvarnir og öryggi starfsfólks. Sjóðurinn brýndi einnig fyrir stjórn United Silicon að eitt af forgangsverkefnum hennar ætti að vera að reka verksmiðjuna í sem bestri sátt við nærumhverfi sitt. Upplýsingar sem lágu fyrir um fjárhagstöðu United Silicon við hlutafjáraukningar voru ársreikningar félagsins, verðmat á félaginu og uppfærðar rekstrar- og kostnaðaráætlanir sem m.a. byggðu á úttekt frá verkfræðistofu. Umrædd gögn gáfu til kynna að það þjónaði hagsmunum sjóðsins að taka þátt í hlutafjáraukningunum.

Mikilvægasta forsendan fyrir þátttöku í hlutafjáraukningunum þremur var að þær myndu duga til fullklára verksmiðjuna og koma henni í það horf að geta framleitt þau 21.300 tonn árlega (um 5,5 milljarða markaðsverðmæti) af kísil sem til stóð. Því miður gekk það ekki eftir.

Áhættudreifing að leiðarljósi í fjárfestingum

Frjálsa lífeyrissjóðnum hefur verið boðið að taka þátt í fjölmörgum fjármögnunarverkefnum frá fjármálafyrirtækjum og öðrum aðilum á undanförnum árum. Öllum fjárfestingum fylgir einhver áhætta eins og berlega kom í ljós í hruninu á sínum tíma.

Hjá Frjálsa lífeyrissjóðnum hafa langflestar fjárfestingar gengið vel en alltaf má búast við að einhverjar fari verr en gert er ráð fyrir. Því hefur verið lagt upp með að fjárfesta lágt hlutfall af heildareignum í hverju og einu verkefni til að dreifa áhættu sem fylgir fjárfestingum sjóðsins.

Þegar niðurstaða liggur fyrir í endurskipulagningu United Silicon munu stjórn og forsvarsmenn sjóðsins fara yfir fjárfestingarferlið og draga lærdóm af því.

Frjálsi lífeyrissjóðurinn hefur náð góðri langtímaávöxtun en í lífeyrissparnaði skiptir langtímaávöxtun mestu máli eðli málsins samkvæmt. Fimm ára ávöxtun fjárfestingarleiða sjóðsins á ársgrundvelli er 4,4%-7,9% og tíu ára ávöxtun er 6,8%-8,5%.
 

Fréttin var fyrst birt 27. september 2017 en uppfærð 6. október 2017 með viðbótarupplýsingum um annars vegar skilmála skuldabréfsins og hins vegar á grundvelli hvaða upplýsinga sjóðurinn ákvað að taka þátt í hlutafjáraukningunum.