Frétt

Vextir sjóðfélagalána lækka og lánareglum breytt

Vextir sjóðfélagalána lækka og lánareglum breytt

Stjórn Frjálsa lífeyrissjóðsins hefur lækkað vexti á nýjum verðtryggðum lánum með föstum vöxtum og vexti á óverðtryggðum lánum sem eru fastir til þriggja ára í senn. Vextir verðtryggðu lánanna lækka úr 3,75% í 3,55% og vextir óverðtryggðu lánanna lækka úr 5,69% í 5,44%.

Breytingar á lánareglum sem taka gildi 5. október nk.

Jafnframt hafa verið gerðar breytingar á lánareglum sem taka gildi 5. október nk. Lánað er á 1. veðrétti til að fjármagna kaup á íbúðarhúsnæði fyrir allt að 70% af kaupvirði og til að endurfjármagna eldri lán hjá Frjálsa lífeyrissjóðnum. Ekki verður lánað til að endurfjármagna lán hjá öðrum lánveitendum.

Grundvöllur breytinga

Stjórn Frjálsa lífeyrissjóðsins telur lífeyrissjóðslán mikilvæga þjónustu sem hún vill bjóða sjóðfélögum til framtíðar til að auðvelda þeim að fjármagna húsnæðiskaup sín. Lánin eru jafnframt traustur fjárfestingarkostur fyrir sjóðinn. Frjálsi lífeyrissjóðurinn hefur boðið upp á vaxtakjör sem eru með því lægsta sem í boði er á íbúðalánamarkaði og hefur mjög mikil eftirspurn verið eftir lánum sjóðsins frá janúar 2016 þegar að sjóðurinn lækkaði vexti og fjölgaði valkostum. Ástæður mikillar eftirspurnar eru fyrst og fremst hagstæð vaxtakjör og framúrskarandi þjónusta hvað varðar hraða og einfaldleika við afgreiðslu lánsumsókna.

Heildarfjárhæð sjóðfélagalána í dag er um 21 milljarður kr. eða um 10% af heildareignum sjóðsins. Vegna mikillar eftirspurnar þá er ljóst að óbreyttu að hlutfall sjóðfélagalána mun fara yfir það hlutfall heildareigna sem stjórnin telur skynsamlegt að sé bundið í sjóðfélagalánum.

Til að sporna gegn því að lán sjóðsins verði of hátt hlutfall af heildareignum þá hefur sjóðurinn ákveðið að hætta að lána til að endurfjármagna lán hjá öðrum lánveitendum. Lánveitingar munu því takmarkast annars vegar við lán til að kaupa íbúðarhúsnæði og hins vegar við lán til að endurfjármagna lán sem var tekið hjá sjóðnum enda leiða slík lán ekki til þess að heildarlán sjóðsins aukist.