Frétt
Ávöxtun fjárfestingarleiða Frjálsa lífeyrissjóðsins og þróun markaða árið 2016
23. janúar 2017
Nafnávöxtun fjárfestingarleiða Frjálsa lífeyrissjóðsins árið 2016 var á bilinu -2,0% til 4,3%. Mismuninn á ávöxtun skýrist af mis áhættusömum fjárfestingarstefnum leiðanna. Á árinu skiluðu áhættuminni leiðir hærri ávöxtun en þær áhættusamari. Þegar horft er til lengri tíma má hins vegar búast við að áhættusamari leiðir skili hærri ávöxtun. Síðastliðin fimm ár hafa fjárfestingarleiðir sjóðsins skilað á bilinu 4,5% til 8,7% árlegri ávöxtun, þar sem áhættumeiri leiðir hafa betur.
Nánari upplýsingar um ávöxtun sjóðsins er að finna hér.
Ávöxtun fjárfestingarleiða
Frjálsi áhætta, sem er áhættumesta fjárfestingarleið sjóðsins, skilaði -2,0% nafnávöxtun eða -4,0% raunávöxtun árið 2016. Skýrist það einkum af lækkun á innlendum hlutabréfamarkaði, en Frjálsi Áhætta er sú leið sjóðsins sem hefur hæsta vægi innlendra hlutabréfa, eða um 32% af eignum leiðarinnar í lok árs. Á móti vegur hækkun á innlendum skuldabréfum en hlutfall þeirra var um 57% í lok tímabils.
Frjálsi 1, sem er stærsta, fjölmennasta og elsta fjárfestingarleið sjóðsins, skilaði -1,3% nafnávöxtun eða
-3,3% raunávöxtun á tímabilinu. Þá lækkun má rekja til lækkunar á bæði innlendum og erlendum hlutabréfamörkuðum, en í loka tímabils var hlutfall innlenda hlutabréfa af eignum leiðarinnar um 19% og hlutfall erlendra hlutabréfa um 22%. Þá hefur styrking íslensku krónunnar gagnvart evru og dollar einnig verið dragbítur á ávöxtun mælt í íslenskum krónum, en eignir í erlendri mynt námu um 30% af eignum leiðarinnar í lok tímabilsins. Á móti vegur hækkun á innlendum skuldabréfum en hlutfall þeirra var um 49% í lok tímabilsins.
Frjálsi 2 skilaði 2,2% nafnávöxtun eða 0,1% raunávöxtun á tímabilinu. Innlend skuldabréf, sem er stærsti eignaflokkur fjárfestingarleiðarinnar með um 73% vægi, skilaði jákvæðri ávöxtun á tímabilinu, en lækkun á innlendum og er erlendum hlutabréfamörkuðum ásamt styrkingu íslensku krónunnar gagnvart evru og dollar vegur upp á móti þeirri hækkun. Í lok tímabilsins nam vægi innlendra hlutabréfa um 12%, erlendra hlutabréfa um 4% og eigna í erlendri mynt um 10%.
Frjálsi 3, sem er áhættuminnsta fjárfestingarleið sjóðsins, skilaði 4,3% nafnávöxtun eða 2,2% raunávöxtun á tímabilinu. Ávöxtunina má rekja til vaxtatekna af innlánum og hækkun innlendra skuldabréfa, þá einkum verðtryggðra skuldabréfa, en í lok tímabils var hlutfall innlendra skuldabréfa um 91% og hlutfall innlána um 8% af eignum leiðarinnar.
Ár gengisstyrkingar, kaupmáttaraukningar og lítillar verðbólgu
Á árinu styrktist gengi krónunnar um 16,6% og var að meðaltali 11% sterkara en áður. Hækkunin stafaði af miklu gjaldeyrisinnstreymi sem á rekja til afgangs af viðskiptum við útlönd en einnig til aukinnar ásóknar erlendra aðila í innlendar eignir. Seðlabankinn stemmdi að einhverju leyti stigu við hækkun krónunnar með umtalsverðum gjaldeyriskaupum en alls keypti bankinn gjaldeyri fyrir 386 milljarða króna.
Fregnir af batnandi kjörum launafólks voru fyrirferðamiklar á árinu en launa- og kaupmáttarþróun var einkar hagfelld. Mælt út frá vísitölum Hagstofunnar hefur kaupmáttur launa aldrei verið jafn mikill né aukist jafn hratt á einu ári. Enn sem komið er hafa verðlagsáhrifin verið lítil og hinn margspáði verðbólgukúfur ekki litið dagsins ljós. Verðbólgan stóð í lok árs í 1,9%, en sé húsnæðisliðurinn undanskilinn, þ.e. sá liður sem keyrt hefur verðbólguna áfram, var verðhjöðnun upp á -0,8%.
Gengisstyrking krónunnar hefur litað vaxtaákvarðanir Seðlabankans, sem lækkaði vexti um 0,75 prósentustig á árinu. Bankinn lækkaði vexti um 0,5 prósent í ágúst, markaðsaðilum að óvörum, og aftur í desember, þá um 0,25 prósentustig, og stóðu stýrivextir því í 5% um áramót.
Innlend hlutabréf
Styrking krónunnar hafði mikil áhrif á hlutabréfamarkaðinn en úrvalsvísitala aðallista Kauphallar Íslands lækkaði um 9% milli ára. Þetta er í fyrsta sinn frá endurreisn markaðarins í kjölfar efnahagshrunsins sem hann skilar neikvæðri ávöxtun á milli ára. Skráðu félögin á markaði áttu misjöfnu gengi að fagna, þau félög sem njóta góðs af þeim krafti sem er í efnahagslífinu hér heima nutu velgengni á árinu. Styrking krónunnar hafði meiri áhrif á fyrirtæki sem gera upp í erlendri mynt, m.a. stærstu fyrirtækin í Kauphöllinni, Icelandair, Össur, Marel, HB Grandi og Eimskip. Þrátt fyrir lækkun jukust viðskipti með hlutabréf um 40%. Skeljungur var eina félagið sem var tekið til viðskipta á árinu.
Skuldabréf
Nokkuð rólegt var á skuldabréfamarkaðinum framan af árinu og var minna um innflæði erlendra aðila inn á markaðinn samanborið við árið áður. Um miðbik ársins dró svo til tíðinda en 4. júní kynnti Seðlabankinn til sögunnar nýtt stjórntæki til að tempra og hafa áhrif á samsetningu fjármagnsinnstreymis. Um var að ræða bindingu reiðufjár vegna nýs innstreymis inn á skuldabréfamarkaðinn og var áætlunin að draga úr hvata til vaxtamunaviðskipta. Veruleg viðbrögð urðu á skuldabréfamarkaði og hækkaði ávöxtunarkrafa óverðtryggðra ríkisbréfa í sumum tilfellum um meira en 0,5 prósentustig á skömmum tíma.
Seinni hluti ársins litaðist nokkuð af vaxandi ferðamannastreymi, styrkingu krónunnar, innfluttri verðhjöðnun og vaxtalækkunum. Ávöxtunarkrafa óverðtryggðra ríkisskuldabréfa tók að lækka á ný og einnig lækkaði verðbólguálag á markaði bæði til 5 og 10 ára.
Hér má sjá muninn á ´íbúðabréfum, sem eru verðtryggð og ríkisbréfum, sem eru verðtryggð.
Erlendir markaðir
Töluverður óróleiki var í upphafi síðastliðins árs þegar skjálfti á kínverska hlutabréfamarkaðinum smitaði út frá sér til allra helstu markaða heimsins. Þannig lækkuðu hlutabréfavísitölur um allt að 25% strax í janúar en svo höfðu margar hverjar jafnað sig aftur þegar tók að vora. Töluverður kraftur var svo í hlutabréfamörkuðum í lok árs, sem að hluta mátti rekja til úrslita forsetakosninga í Bandaríkjunum. Heilt yfir var ávöxtun á hlutabréfamörkuðum þó undir meðallagi á árinu.
Töluverðar sveiflur voru á hrávöruverði, en almennt hækkaði hrávöruverð milli ára eftir nokkuð miklar lækkanir árið áður. Ber þar einna helst að nefna þróun heimsmarkaðsverðs á hráolíu sem hækkaði um 25% milli ára.