Frétt
Frjálsi lífeyrissjóðurinn tilnefndur sem besti lífeyrissjóður Evrópu
05. desember 2016Frjálsi lífeyrissjóðurinn hefur í þriðja sinn verið valinn besti lífeyrissjóður meðal þjóða með færri en eina milljón íbúa af fagtímaritinu Investment Pension Europe (IPE), en þeim verðlaunum deildi hann þetta árið með öðrum íslenskum lífeyrissjóði. Jafnframt var Frjálsi lífeyrissjóðurinn tilnefndur sem besti lífeyrissjóður Evrópu og var það í fyrsta sinn sem sjóðurinn hefur fengið slíka tilnefningu.
Við mat á Frjálsa horfði dómnefndin m.a. til að sjóðurinn veiti sjóðfélögum ævilangan ellilífeyri og býður sjóðfélögum jafnframt þann sveigjanleika að ráðstafa iðgjaldi í séreignarsjóð. Einnig var nefnt að sjóðurinn leggi mikla áherslu á áhættustýringu við fjárfestingar þar sem horft sé til hefðbundinna áhættumælikvarða og til undirliggjandi eigna í sjóðum, sem Frjálsi á hlutdeild í. Auk þess sem komið hefði verið á áhættumenningu meðal starfsfólks sem geri það að verkum að starfsfólk sé ávallt vakandi fyrir nýjum áhættuþáttum.
Frá árinu 2005 hefur Frjálsi lífeyrissjóðurinn fengið 10 verðlaun frá IPE sem er mesti fjöldi verðlauna sem íslenskum lífeyrissjóði hefur hlotnast. Jón Guðni Kristjánsson, stjórnarmaður í Frjálsa lífeyrissjóðnum, veitti verðlaununum viðtöku.
Frjálsi lífeyrissjóðurinn, sem er í rekstri hjá Arion banka, er með tæplega 55 þúsund sjóðfélaga og eru eignir sjóðsins um 180 milljarðar. Sjóðurinn er einn fárra lífeyrissjóða sem býður sjóðfélögum að ráðstafa hluta af 12% skylduiðgjaldi sínu í séreignarsjóð. Hann hentar þeim sem hafa frjálst val um í hvaða lífeyrissjóð þeir greiða skylduiðgjald og jafnframt þeim sem leggja fyrir í viðbótarlífeyrissparnað.
Investment Pension Europe (IPE) er eitt virtasta tímarit í Evrópu um lífeyrismál. Tímaritið veitir þeim lífeyrissjóðum verðlaun sem að mati dómnefndar IPE hafa skarað fram úr í sínu heimalandi og í Evrópu. Breski lífeyrissjóðurinn NEST var valinn besti lífeyrissjóður Evrópu að þessu sinni.
Meðfylgjandi mynd er af Jóni Guðna Kristjánssyni, stjórnarmanni í Frjálsa lífeyrissjóðnum, er hann veitti verðlaununum móttöku.