Frétt
Kynning á frambjóðendum til stjórnar
25. maí 2016Á ársfundi Frjálsa lífeyrissjóðsins verður kosið um tvo aðalmenn til tveggja ára. Sjálfkjörið er í varastjórn sjóðsins.
Upplýsingar um frambjóðendur í aðalstjórn sem þeir hafa sent sjóðnum:
Anna Sigríður Halldórsdóttir, fædd 1978. Sérfræðingur á Hagstofu Íslands.
Ég er kjörin stjórnarmaður í Frjálsa lífeyrissjóðnum og hef setið í stjórn síðan 2013. Þar áður var ég varamaður frá 2011. Ég er í endurskoðunarnefnd sjóðsins og hef verið frá 2014.
Ég hef starfað sem sérfræðingur í launa- og tekjutölfræði á Hagstofu Íslands frá árinu 2007. Í starfi mínu á Hagstofu Íslands ber ég meðal annars ábyrgð á rannsókn á launakostnaði fyrirtækja. Í tengslum við störf mín hef ég öðlast yfirgripsmikla þekkingu á kjarasamningum og þar með talið þeim lífeyrisréttindum sem starfsmenn njóta.
Ég lauk B.Sc. námi í hagfræði frá Háskóla Íslands árið 2008 og Meistaranámi í verkefnastjórnun, MPM, frá Háskólanum í Reykjavík árið 2014.
Ásgeir Thoroddsen, fæddur 1942. Sjálfstætt starfandi lögmaður.
Ég hef verið starfandi lögmaður frá 1977 og stjórnarformaður Frjálsa lífeyrissjóðsins frá 2004.
Stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík 1962 og lögfræðingur frá Háskóla Íslands 1967.
Héraðsdómslögmaður 1970 og hæstaréttarlögmaður 1990.
Vann hjá Bæjarfógetanum í Keflavík og Dómsmálaráðuneytinu 1967 til 1970.
Starfaði á aðalskrifstofu Sameinuðu þjóðanna í New York og Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna í Genf, 1970 til 1972. Stundaði framhaldsnám í opinberri stjórnsýslu við New York háskóla.
Starfaði hjá Reykjavíkurborg sem hagsýslustjóri 1972 til 1977.
Sat í stjórn Lögmannafélags Íslands 1998 og var síðan formaður árin 2000 til 2002.
Sit í Gjafsóknarnefnd tilnefndur af Lögmannafélagi Íslands.
Hef áður setið í stjórnum ýmissa félaga svo sem Vátryggingafélagi Íslands, Bakkavör, Íshestum, Intrum og Ingersoll- Rand Islandi slf.
Ingvi Þór Georgsson fæddur 1990. Starfsmaður í upplýsinga- og kynningarmálum hjá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi.
Ég útskrifaðist sem viðskiptafræðingur frá Birmingham-Southern College árið 2012 og kláraði meistaranám í alþjóðaviðskiptum frá Háskólanum í Reykjavík árið 2014. Ég var skiptinemi í BI Norwegian Business School haustið 2013.
Ég hef unnið í tvö ár hjá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi. Hjá samtökunum hef ég komið að upplýsinga- og kynningarmálum samtakanna, haft málefni fiskvinnslu á mínu borði og sinnt ýmsum sérverkefnum tengdum starfsvettvangi sjávarútvegs.
Ég sit í stjórn starfsmenntasjóðs SA og VSSÍ fyrir hönd Samtaka atvinnulífsins ásamt því að vera fulltrúi í úttektarnefnd um opinbert eftirlit með framleiðslu matvæla. Með meistaranáminu sá ég um stöðupróf í fjármálum fyrir Bloomberg á Íslandi og í Osló á meðan ég bjó þar.