Frétt
Eitt besta ár Frjálsa lífeyrissjóðsins
13. apríl 2016Árið 2015 var eitt af bestu árum Frjálsa lífeyrissjóðsins frá stofnun hans þegar horft er til nokkurra þátta í rekstri sjóðsins:
- Raunávöxtun stærstu fjárfestingarleiðarinnar Frjálsa 1 var 11,0% og hefur raunávöxtun leiðarinnar ekki verið hærri frá árinu 2003.
- Frjálsi Áhætta skilaði metraunávöxtun, eða 18,0% sem er hæsta raunávöxtun frá stofnun sjóðsins.
- Á árinu greiddu 19.475 sjóðfélagar 11,7 milljarðar í iðgjöld til sjóðsins og hefur fjöldi greiðandi sjóðfélaga og fjárhæð iðgjalda í sjóðinn aldrei verið hærri.
- Tryggingafræðileg staða tryggingadeildar sjóðsins batnaði sjötta árið í röð og voru eignir umfram heildarskuldbindingar í lok árs 5,0% sem endurspeglar sterka tryggingafræðilega stöðu sjóðsins.
- Loks var Frjálsi lífeyrissjóðurinn valinn besti lífeyrissjóður Evrópu í sínum stærðarflokki annað árið í röð af fagtímaritinu Investment Pension Europe (IPE).
Aðrar helstu niðurstöður ársuppgjörs sjóðsins voru eftirfarandi:
- Nafnávöxtun fjárfestingarleiða séreignardeildar sjóðsins var á bilinu 6,8%-20,4% árið 2015 og 5 ára meðalnafnávöxtun 6,5%-11,9%. Nánari upplýsingar um ávöxtun sjóðsins er að finna hér.
- Nafnávöxtun tryggingadeildar var 10,5% árið 2015 og raunávöxtun 8,4%, Fimm ára meðalnafnávöxtun var 9% og meðalraunávöxtun 5,5%. Rétt er að hafa í huga að skuldabréf tryggingadeildar eru gerð upp á kaupkröfu en skuldabréf séreignardeildar eru gerð upp á markaðsvirði.
- Hrein eign til greiðslu lífeyris nam um 174 milljörðum í árslok samanborið við 146 milljarða árið 2014 og stækkaði sjóðurinn um tæp 19% á milli ára. Stærð séreignadeildar var um 125 milljarðar og stærð tryggingadeildar um 49 milljarðar.
- Tryggingafræðilega staða samtryggingarsjóðs batnaði um 3,3 prósentustig á árinu. Í lok árs 2015 var hlutfall eigna 10,3% umfram áfallnar skuldbindingar og 5% umfram heildarskuldbindingar.
- Iðgjöld sjóðfélaga og launagreiðenda námu 11,7 milljörðum samanborið við 9,9 milljarða árið áður og jukust um 18%. Lágmarksiðgjöld voru 9,4 milljarðar og viðbótariðgjöld 2,3 milljarðar.
- Lífeyrisgreiðslur úr séreignadeild og tryggingadeild voru um 2,2 milljarðar en 2,1 milljarðar árið áður og hækkuðu um 7%. Þar af nam lífeyrir séreignadeildar 1,8 milljörðum og tryggingadeildar 494 milljónum.
- Fyrirframútgreiðslur á séreignarsparnaði námu 176 milljónum en 1 milljarði árið áður og lækkuðu um 82%. Iðgjöldum ráðstafað inn á höfuðstól lána eða til öflunar íbúðarhúsnæðis námu um 722 milljónum en 142 milljónum árið 2014.
- Heildarfjöldi sjóðfélaga í árslok var um 52.654 og fjölgaði þeim um 3.118 á árinu eða 6%. Fjöldi sjóðfélaga sem valdi að greiða í sjóðinn á árinu var 19.475 og fjölgaði þeim um 484 á árinu eða um 3%.