Frétt

Frjálsi lífeyrissjóðurinn lækkar vexti á lífeyrissjóðslánum og fjölgar valkostum

Frjálsi lífeyrissjóðurinn lækkar vexti á lífeyrissjóðslánum og fjölgar valkostum

Stjórn Frjálsa lífeyrissjóðsins hefur ákveðið að lækka vexti á lífeyrissjóðslánum, bjóða upp á fleiri lánsform og gera aðrar breytingar á lánareglum til hagsbóta fyrir sjóðfélaga. Breytingarnar miða að því að auðvelda sjóðfélögum fjármögnun og auka sveigjanleika þeirra við lántöku.

Vextir á verðtryggðum lánum með breytilegum vöxtum lækka
Vextir á verðtyggðum lánum Frjálsa lífeyrissjóðsins með breytilegum vöxtum lækka í dag úr 3,8% í 3,17%. Lækkunin gildir um þau lán sem hafa verið tekin til þessa sem og ný lán.

Verðtryggð lán með föstum vöxtum
Sjóðfélögum stendur nú til boða að taka verðtryggt lán með föstum vöxtum út lánstímann. Vextir lánanna eru í dag 3,75%.

Óverðtryggð lán með föstum vöxtum til þriggja ára í senn
Jafnframt hefur verið ákveðið að bjóða upp á óverðtryggð lán með föstum vöxtum til þriggja ára í senn. Að þremur árum liðnum eru vextirnir endurskoðaðir og getur lántaki valið um að festa vexti aftur í þrjú ár eða breyta yfir í önnur lánsform sem bjóðast hjá sjóðnum á þeim tíma án lántökukostnaðar. Óverðtryggðir nafnvextir eru í dag 6,58%.

Veðhlutföll rýmkuð
Hámarksveðsetningarhlutfall hefur verið 65%. Nú bjóðast sjóðfélögum að taka viðbótarlán fyrir þann hluta láns sem nemur 65-75% af virði eignar en með hærri vöxtum.

Mikill sveigjanleiki
Sjóðfélagar geta því valið um þrjú lánsform eða blandað þeim saman eftir hentugleika með það að markmiði að njóta hámarks sveigjanleika við lántöku.

Ekkert uppgreiðslugjald og önnur ákvæði
Ekki er tekið neitt uppgreiðslugjald. Sjóðfélagar sem hafa greitt skyldu- eða viðbótarlífeyrissparnað í sjóðinn í þrjú ár eða síðustu sex mánuði eiga lánsrétt í Frjálsa lífeyrissjóðnum. Hámarkslánsfjárhæð er 40 milljónir og er hægt að velja um jafnar afborganir eða jafngreiðslur. Lántökugjald er 0,75%. Afgreiðsla lífeyrissjóðslána fer fram í útibúi Arion banka á Höfða en nánari upplýsingar um lánin má finna á vefsíðu sjóðsins, frjalsi.is.

Nánari upplýsingar um lán

Lánareglur