Frétt

Frjálsi lífeyrissjóðurinn tekur við séreignarsparnaði sjóðfélaga í Lífeyrissjóði starfsmanna sveitarfélaga

Frjálsi lífeyrissjóðurinn tekur við séreignarsparnaði sjóðfélaga í Lífeyrissjóði starfsmanna sveitarfélaga

Í framhaldi af ákvörðun stjórnar Lífeyrissjóðs starfsmanna sveitarfélaga (LSS) um lokun séreignardeildar þá hefur séreignarsparnaður sjóðfélaga verið fluttur í Frjálsa lífeyrissjóðinn. Stjórnir sjóðanna gerðu samkomulag um flutninginn og var hann framkvæmdur m.v. 31. desember 2015. Áður en til þess kom var sjóðfélögum boðið að flytja séreignarsparnað sinn til vörsluaðila séreignarsparnaðar að eigin vali en þeir sem aðhöfðust ekkert voru fluttir um áramótin í Frjálsa lífeyrissjóðinn. Sjóðfélagar í séreignardeild LSS voru um eitt þúsund talsins og nam heildarflutningur séreignarsparnaðar þeirra í Frjálsa lífeyrissjóðinn um 1,5 milljörðum króna.

Í kjölfar stefnumótunarvinnu hjá stjórn LSS ákvað hún að leggja höfuðáherslu á meginhlutverk lífeyrissjóðsins sem er rekstur samtryggingadeilda. Rekstur séreignardeildar hefur breyst umtalsvert á síðustu árum með lagabreytingum sem m.a. hafa haft áhrif á framkvæmd útgreiðslu séreignar. Þótti stjórn LSS hagsmunum sjóðfélaga í séreignardeild því best borgið hjá þeim vörsluaðilum sem sérhæfa sig í umsjón og stýringu séreignarsjóða. Þessi ákvörðun hefur engin áhrif á lífeyrisréttindi sjóðfélaga LSS í samtryggingadeildum.

Frjálsi lífeyrissjóðurinn lýsir yfir ánægju með það traust sem honum er sýnt með samkomulaginu við LSS og býður jafnframt nýja sjóðfélaga velkomna í sjóðinn. Fjöldi sjóðfélaga í Frjálsa lífeyrissjóðnum er nú um 52 þúsund.