Frétt

Ávöxtun fjárfestingarleiða Frjálsa lífeyrissjóðsins og þróun markaða 2015

Ávöxtun fjárfestingarleiða Frjálsa lífeyrissjóðsins og þróun markaða 2015

Nafnávöxtun fjárfestingarleiða Frjálsa lífeyrissjóðsins árið 2015 var á bilinu 6,8% til 20,4%. Ef meðalávöxtun síðustu fimm ára er skoðuð má sjá að ávöxtun er á bilinu 6,5% til 11,9%. Ávöxtun ársins 2015 var því yfir fimm ára meðalávöxtun hjá öllum fjárfestingarleiðum sjóðsins.

Nánari upplýsingar um ávöxtun sjóðsins er að finna hér.

 

 

Skuldabréfamarkaður og efnahagsumhverfi

Hörð átök á vinnumarkaði settu svip sinn á árið. Samið var um brattar launahækkanir, vel umfram spár um framleiðniaukningu og verðbólgumarkmið Seðlabankans, og væntu flestir að talsvert verðbólguskot fylgdi í kjölfarið. Enn sem komið er hafa verðlagsáhrifin verið lítil en meðaltalsársverðbólga var 1,6% og stóð ársverðbólgan í 2% við lok árs. Það eru fyrst og fremst styrking krónunnar og lækkun hrávöru- og olíuverðs á heimsmarkaði sem haldið hafa aftur af verðbólguþrýstingi. Greiningaraðilar búast við að sú þróun haldi áfram á þessu ári og því útlit fyrir að verðbólgukúfurinn komi seinna en áætlað var og verði jafnvel minni en búist var við. Á móti kemur að enn er ólga á vinnumarkaði og er ekki útilokað að kjarasamningar verði opnaðir að nýju í byrjun þessa árs í kjölfar úrskurðar gerðardóms um launahækkanir háskólamenntaðra opinberra starfsmanna.

Seðlabankinn hóf vaxtahækkunarfasa um mitt árið í kjölfar undirritunar kjarasamninga. Þrátt fyrir að verðbólga væri enn vel undir markmiði hækkaði bankinn stýrivexti um 0,5 prósentur í júní og aftur í ágúst til að bregðast við versnandi verðbólguhorfum og stígandi verðbólguvæntingum. Þá hækkaði bankinn stýrivexti aftur í nóvember um 0,25 prósentur, markaðsaðilum að óvörum, á sama tíma og verðbólguspáin var færð niður. Um áramót stóðu því stýrivextir í 5,75%.

Gengi krónunnar reyndist áfram stöðugt, annað árið í röð. Vegna talsverðs gjaldeyrisinnflæðis styrktist krónan nokkuð gagnvart helstu gjaldmiðlum, jafnvel þótt Seðlabankinn væri virkur á gjaldeyrismarkaði og safnaði í gjaldeyrisforðann sem aldrei fyrr. Þannig námu hrein gjaldeyriskaup Seðlabankans um 272 milljörðum króna á árinu. Krónan styrktist gagnvart evru (8,4%) og pundi (2,9%) á árinu en veiktist lítillega gagnvart dollar (-1,2%).

Þann 8. júní kynntu stjórnvöld þríþætta aðgerðaráætlun til afnáms fjármagnshafta. Fyrsta stoð aðgerðanna snýr að slitabúum fallinna fjármálastofnanna og skyldar þau til að greiða sérstakt stöðuleikaframlag, ellegar greiða 39% skatt. Í lok árs höfðu íslenskir dómstólar samþykkt nauðasamninga allra slitabúanna og verða því stöðugleikaframlög greidd í stað skatts. Önnur stoðin snýr að eigendum aflandskróna og gefur þeim tvo kosti, annars vegar að taka þátt í einskiptis uppboði og hins vegar að geyma fjármuni á læstum vaxtalausum innlánsreikningum. Enn hefur ekki verið tilkynnt um hvenær uppboðið skuli fara fram, en líkur eru á að það verði á fyrsta fjórðungi þessa árs. Þriðja og síðasta stoðin snýr að innlendum aðilum og áætlar að rýmka heimildir þeirra til erlends sparnaðar og fjárfestingar að loknum aðgerðum gagnvart slitabúum og aflandskrónueigendum.

Töluverðar sviptingar einkenndu skuldabréfamarkaðinn á árinu. Á fyrri hluta ársins lækkaði ávöxtunarkrafa verðtryggðra bréfa (verð þeirra hækkaði) en ávöxtunarkrafa óverðtryggðra bréfa hækkaði (verð þeirra lækkaði). Þessi þróun endurspeglaði vaxandi verðbólguáhyggjur fjárfesta og væntingar um hækkun stýrivaxta. Í kjölfar kynningar stjórnvalda á losun fjármagnshafta varð viðsnúningar vart, innflæði inn á skuldabréfamarkað jókst og ávöxtunarkrafa óverðtryggðra skuldabréfa lækkaði, þvert á stýrivaxtahækkanir Seðlabankans. Peningastefnunefnd taldi fjármagnsinnflæðið áhyggjuefni og áréttaði að Seðlabankinn þyrfi að grípa til annarra stjórntækja ef þróunin héldi áfram. Skuldabréfamarkaðurinn brást nokkuð hart við þessum fregnum og hækkaði ávöxtunarkrafan mikið og hratt í nóvember.

Hvað varðar ávöxtun á árinu í heild þá stóðu verðtryggð skuldabréf betur. Verðtryggð vísitala Stefnis hækkaði um 10% að nafnvirði árið 2015 á meðan óverðtryggð vísitala Stefnis hækkaði um 6% að nafnvirði. Þróun helstu bréfa má sjá á meðfylgjandi myndum.

 

 

 

Innlend hlutabréf

Mikill gangur var á innlendum hlutabréfamarkaði á árinu og hækkaði úrvalsvísitala aðallista Kauphallar Íslands um hátt í 50%. Leita þarf aftur til ársins 2005 til að finna viðlíka hækkun. Heildarviðskipti jukust að sama skapi, úr 276 mö.kr. árið 2014 í 389 ma.kr. árið 2015, eða um 40% á milli ára. Þrjú ný félög voru tekin til viðskipta á árinu, fasteignafélögin Reitir og Eik voru skráð í apríl en fjarskiptafélagið Síminn í október. Félög á aðallista Kauphallar Íslands eru því orðin 16 talsins. Óvissa er um fjölda nýskráninga á þessu ári. Líkur eru á að t.d. Skeljungur, Advania og Ölgerðin verði skráð á aðallistann á árinu en engar tímasetningar eða endanlegar ákvarðanir liggja fyrir. 

 

 

Erlendir markaðir

Hlutabréfavísitölur beggja vegna Atlantshafsins skiluðu ávöxtun undir meðallagi á síðasta ári. Vestanhafs og í Evrópu enduðu helstu hlutabréfavísitölur árið nánast á sama stað og þær hófu það. Í Kína voru töluvert meiri sveiflur, í sumar voru áberandi fréttir af miklu verðfalli í kauphöllinni í Sjanghæ, þegar vísitalan þar lækkaði um hátt í 50% á stuttum tíma. Minna var hinsvegar talað um tímabilið fram í miðjan júní þegar sama vísitala hafði hækkað um rúmlega 70%. 

Hrávöruverð hélt áfram að lækka á árinu og ber þar einna helst að nefna þróun heimsmarkaðsverðs á hráolíu, sem lækkaði um rúm 40%.