Frétt

Ávöxtun fjárfestingarleiða Frjálsa lífeyrissjóðsins m.v. lok mars og þróun markaða á fyrsta ársfjórðungi

Ávöxtun fjárfestingarleiða Frjálsa lífeyrissjóðsins m.v. lok mars og þróun markaða á fyrsta ársfjórðungi

Nafnávöxtun fjárfestingarleiða Frjálsa lífeyrissjóðsins síðastliðið ár, miðað við lok mars, var á bilinu 6,0% til 15,5%. Stærsta leið sjóðsins, Frjálsi 1, skilaði hæstu ávöxtuninni eða 15,5%.

Nánari upplýsingar um ávöxtun sjóðsins er að finna hér.

 

 

Skuldabréfamarkaður og krónan

Á fyrsta ársfjórðungi var gengi krónunnar mjög stöðugt og var hæsta gildi gengisvísitölunnar einungis 2% hærra en það lægsta. Aftur á móti er sagan önnur þegar horft er á einstaka gjaldmiðlakrossa. Gjaldeyrisinngrip Seðlabankans voru talsverð á tímabilinu og þá aðallega til að sporna gegn gengisstyrkingu þar sem Seðlabankinn keypti nettó gjaldeyri að verðmæti 30 ma.kr. evra á fyrsta fjórðungi ársins.

Heilt yfir var verðlag óvenju stöðugt á fyrsta ársfjórðungi ef horft er til sögulegrar verðbólgu á Íslandi og hækkaði almennt verðlag um 0,9%. Til samanburðar var ársverðbólgan í fyrra 1,1% og stendur nú í 1,6%. Helsti drifkraftur lágrar verðbólgu er lækkun heimsmarkaðsverðs á olíu. Hækkun verðlags á fyrsta ársfjórðungi skýrist að miklu leyti af skörpum hækkunum á húsnæðisverði, en sá undirliður vísitölunnar hækkaði um 3% á fyrsta ársfjórðungi.

Peningastefnunefnd Seðlabankans ákvað að halda stýrivöxtum óbreyttum á þeim tveimur vaxtaákvarðanafundum sem haldnir voru á fjórðungnum. Yfirlýsing nefndarinnar var keimlík í bæði skiptin og telur nefndin vert að staldra við uns efnahagshorfur hafa skýrst frekar, einkum varðandi launaþróun.

Mikil umfjöllun hefur verið um kjaraviðræður að undanförnu en breitt bil er á milli samningsaðila og háar launakröfur hafa verið lagðar fram. Á sama tíma hefur verðbólguálag hækkað á skuldabréfamarkaði en verðbólguálag til fimm ára mælist nú um 4,2% en stóð í 2,5% um síðustu áramót. Hækkandi verðbólguálag á skuldabréfamarkaði endurspeglar því vaxandi áhyggjur fjárfesta af launahækkunum umfram það svigrúm sem hagkerfið leyfir og að verðbólga aukist í kjölfarið. Jafnframt er lítið framboð af verðtryggðum skuldabréfum á markaði. Engin útgáfa er af íbúðabréfum og einnig er stór gjalddagi á verðtryggðum ríkisbréfum á seinni hluta ársins.

 

 

Óverðtryggð ríkisbréf hafa því átt erfitt uppdráttar á fyrsta ársfjórðungi en ávöxtun af óverðtryggðum skuldabréfum hefur verið neikvæð um 2,4% það sem af er ári á sama tíma og verðtryggð skuldabréf hafa skilað 6,8% ávöxtun. Þróunin á næstu mánuðum mun að miklu leyti ráðast af gangi kjaraviðræðna og er ekki ólíklegt að þær dragist á langinn, jafnvel yfir sumarmánuðina. Óvissan um niðurstöðu kjarasamninga mun því áfram lita skuldabréfamarkaðinn og gæti verðbólguálagið haldið áfram að hækka ef niðurstöður fela í sér verulegar launahækkanir og vaxandi verðbólguþrýsting.

 

 

Innlend hlutabréf

Í upphafi árs tók í gildi endurskoðun á samsetningu Úrvalsvísitölunnar, þar sem Eimskip kom inn í stað Sjóvá. Úrvalsvísitalan, leiðrétt fyrir arðgreiðslum, hækkaði á fyrstu þremur mánuðum ársins um rúm 5%. Ársuppgjör skráðu félaganna voru birt um miðjan fjórðunginn og voru heilt yfir fleiri yfir væntingum en undir. Ein stærstu tíðindi uppgjörs lotunnar voru ríkulegar tillögur um útgreiðslu arðs til hluthafa, en samtals greiða skráðu félögin í kauphöllinni yfir 20 ma.kr. til hluthafa sinna nú á vormánuðum, það samsvarar um 4% af heildarmarkaðsvirði þeirra. 

 

 

Erlend hlutabréf

Lækkun olíuverðs, styrking Bandaríkjadals gagnvart helstu myntum ásamt birtingu almennra efnahagstalna var meðal þess sem litaði hlutabréfamarkaði beggja vegna Atlantshafsins á fyrsta ársfjórðungi. MSCI Europe hlutabréfavísitalan hækkaði um rúm 16% á fjórðungnum, eða 10,6% í krónum mælt, á meðan MSCI World heimsvísitalan hækkaði aðeins um 1,8% eða um 9,6% í krónum mælt. Í upphafi árs tilkynnti Seðlabanki Evrópu um umfangsmiklar efnahagsaðgerðir sem ætlað er að örva evrópsk hagkerfi og vestanhafs færist bandaríski seðlabankinn nær því að hækka vexti í fyrsta sinn frá 2006.