Frétt
Árleg endurskoðun á vöxtum sjóðfélagalána
29. janúar 2015Vextir á verðtryggðum sjóðfélagalánum Frjálsa lífeyrissjóðsins eru breytilegir og endurskoðaðir einu sinni á ári, 15. febrúar. Samkvæmt lánareglum sjóðsins verða vextir sjóðfélagalána sjóðsins frá og með 15. febrúar nk. til næstu 12 mánaða 3,80%.
Í lögum um lífeyrissjóði er lögð sú skylda á hendur stjórna lífeyrissjóða að ávaxta fé sjóðanna með hliðsjón af þeim kjörum sem best eru boðin á hverjum tíma með tilliti til ávöxtunar og áhættu. Sjóðfélagalán eru eins og hver annar fjárfestingarkostur fyrir lífeyrissjóði en kjósi þeir að veita slík lán ber þeim að ákvarða vexti þeirra með hliðsjón af þeim kjörum sem best eru boðin á hverjum tíma fyrir sjóðina.
Frjálsa lífeyrissjóðnum býðst að kaupa ríkisskuldabréf á markaði en við ákvörðun á vöxtum sjóðfélagalána er horft til þeirra vaxta sem slík skuldabréf bera skv. lánareglum sjóðsins. Á árinu 2013 var meðalávöxtunarkrafa skuldabréfsins HFF150434 (íbúðabréf með lokagjalddaga árið 2034) 2,50% en á árinu 2014 var hún 3,20%. Þetta þýðir í raun hækkun á þeim vöxtum sem sjóðnum stóð til boða á árinu 2014. Í lánareglum sjóðsins er umrætt skuldabréf skilgreint sem vaxtaviðmið fyrir vexti sjóðfélagalána Frjálsa lífeyrissjóðsins en við árlega endurskoðun vaxta er vöxtum breytt út frá meðalávöxtunarkröfu þessa skuldabréfs á árinu á undan að viðbættu 0,6% vaxtaálagi. Frá og með 15. febrúar 2015 til næstu 12 mánaða verða vextir á sjóðfélagalánum Frjálsa lífeyrissjóðsins því 3,80%.
Hér fyrir neðan er mynd sem sýnir þróun á ávöxtunarkröfu HFF15034 árin 2013 og 2014.