Frétt
Frjálsi lífeyrissjóðurinn valinn besti lífeyrissjóður Evrópu í sínum stærðarflokki
25. nóvember 2014Frjálsi lífeyrissjóðurinn hlaut tvenn verðlaun í verðlaunasamkeppni lífeyrissjóða sem haldin var af fagtímaritinu Investment Pension Europe (IPE) nýverið. Sjóðurinn var valinn besti lífeyrissjóður i Evrópu í sínum stærðarflokki en miðað er við sjóði sem eru minni en einn milljarður evra að stærð (153 milljarðar króna). Jafnframt var sjóðurinn valinn besti lífeyrissjóður Evrópulanda med færri en eina milljón íbúa annað árið í röð og tilnefndur til verðlauna í tveimur öðrum flokkum. Er þetta besti árangur sem sjóðurinn hefur náð í IPE verðlaunasamkeppninni.
Í umsögn dómnefndar kemur m.a. fram að:
- Sjóðfélagar njóti einstakrar uppbyggingar sjóðsins sem bjóði þeim að skipta skylduiðgjöldum í séreign og samtryggingu.
- Sjóðurinn hafi öfluga eignastýringu.
- Sjóðurinn hafi stækkað hlutfallslega þrisvar sinnum meira en íslenska lífeyriskerfið á undanförnum árum.
- Mikil ánægja sé meðal sjóðfélaga með sjóðinn skv. könnunum.
Frjálsi lífeyrissjóðurinn, sem er í rekstri hjá Arion banka, er um 140 milljarðar að stærð og sjóðfélagar eru um 50 þúsund talsins. Sjóðurinn hentar þeim sem hafa frjálst val um í hvaða lífeyrissjóð þeir greiða 12% skylduiðgjald og hentar jafnframt þeim sem leggja fyrir í viðbótarlífeyrissparnað.
IPE er eitt virtasta fagtímarit Evrópu um lífeyrismál. Árlega veitir tímaritið þeim lífeyrissjóðum verðlaun sem að mati dómnefndar IPE hafa skarað fram úr í sínu heimalandi og í Evrópu. Danski lífeyrissjóðurinn Pension Danmark var valinn besti lífeyrissjóður í Evrópu að þessu sinni.
Arnaldur Loftsson framkvæmdastjóri Frjálsa lífeyrissjóðsins:
„Ég er mjög ánægður með að Frjálsi lífeyrissjóðurinn hafi fengið tvenn verðlaun og tvær aðrar tilnefningar í IPE verðlaunasamkeppninni sem er besti árangur sjóðsins frá upphafi. Verðlaunin eru ánægjulegur vitnisburður um kosti þess að sjóðfélagar hafi fjölbreytt og áhættumiðað val um uppbyggingu á séreignarsparnaði og samtryggingarsparnaði sem hentar hverjum og einum. Þau gefa jafnframt til kynna að sjóðurinn sýni fagleg vinnubrögð við mótun fjárfestingarstefnu og við ákvarðanartöku í eignastýringu sjóðsins. Verðlaunin eru starfsfólki og stjórn sjóðsins hvatning til áframhaldandi góðra verka með það að markmiði að ná góðri ávöxtun og veita sjóðfélögum framúrskarandi þjónustu.“
Arnaldur Loftsson, framkvæmdastjóri Frjálsa lífeyrissjóðsins, tekur við verðlaununum sem besti lífeyrissjóðurinn í sínum stærðarflokki.