Frétt
Frjálsi lífeyrissjóðurinn fær alþjóðleg verðlaun fyrir fasteignafjárfestingar
04. júní 2014Frjálsi lífeyrissjóðurinn hefur verið valinn besti fagfjárfestir í fasteignafjárfestingum á meðal 40 þjóða Evrópu af fagtímaritinu IPE Real Estate.
Í umsögn dómnefndar segir meðal annars að sjóðurinn hafi brugðist tímanlega við breytingum í fjárfestingaumhverfinu með því að nýta tækifæri á fasteignamarkaði og þannig náð að hámarka virði eignasafnsins í erfiðum markaðsaðstæðum.
IPE Real Estate, sem sérhæfir sig í umfjöllun um fasteignafjárfestingar, veitir árlega fagfjárfestum viðurkenningar fyrir framúrskarandi árangur í fasteignafjárfestingum. Veitt eru m.a. svokölluð landaverðlaun fyrir fjárfesta í Bretlandi, Skandinavíu, Benelux löndunum, Austurríki, Þýskalandi og Sviss og löndum utan Evrópu. Frjálsi lífeyrissjóðurinn keppti í flokknum „Önnur lönd Evrópu“ en þau eru um 40 talsins og voru t.d. lífeyrissjóðir frá Ítalíu og Spáni tilnefndir til verðlauna í flokknum.
Hér eru upplýsingar um verðlaunahafana http://realestate.ipe.com/awards/winners-2014/.
Á undanförnum árum hefur Frjálsi lífeyrissjóðurinn aukið vægi fasteignatengdra fjárfestinga til að bregðast við skorti á fjárfestingakostum og auka áhættudreifingu sjóðsins. Markmið sjóðsins er að fjárfesta í vel staðsettu atvinnuhúsnæði með traustum leigutökum og langtíma leigusamningum. Fasteignafjárfestingar sjóðsins hafa reynst mikilvægur þáttur í árangri sjóðsins.
Arnaldur Loftsson framkvæmdastjóri Frjálsa lífeyrissjóðsins tekur við verðlaununum.