Frétt
Ávöxtun 2013
27. janúar 2014Nafnávöxtun fjárfestingarleiða Frjálsa lífeyrissjóðsins árið 2013 var á bilinu 4,2% til 12,6% en þróun verðbréfamarkaða hafði mismunandi áhrif á ávöxtun leiðanna. Verðbólga síðasta árs mældist 3,7%.
Frjálsi Áhætta skilaði hæstu ávöxtuninni eða 12,6%. Ástæður hækkunarinnar má að stærstum hluta rekja til mjög góðrar ávöxtunar á innlendum hlutabréfum en innlend hlutabréf vega hlutfallslega mest í þessari leið af fjárfestingarleiðum Frjálsa lífeyrissjóðsins. Úrvalsvísitala hlutabréfa hækkaði um 18,9% á árinu.
Nafnávöxtun fjölmennustu og stærstu leiðar Frjálsa lífeyrissjóðsins, Frjálsa 1, var 7,7%. Frjálsi 1 er með hæsta vægið í erlendum hlutabréfum af leiðum Frjálsa og hækkaði MSCI heimsvísitala hlutabréfa um 11,5% í íslenskum krónum. Nafnávöxtun Frjálsa 2, sem er með um 84% í skuldabréfum og 16% í hlutabréfum, var 5,8% og nafnávöxtun Frjálsa 3 var 4,2%. Eignir Frjálsa 3 eru fyrst og fremst skuldabréf og innlán. Ávöxtunarkrafa verðtryggðra ríkisskuldabréfa (íbúðabréf) hækkaði þegar leið á árið sem þýðir að verð bréfanna lækkaði. Verðtryggðu ríkisskuldabréfin hækkuðu um 0,2%-4,1%, mismunandi eftir flokkum. Endurspeglast sú þróun í skuldabréfasöfnum leiðanna, þó mest í Frjálsa 3 þar sem ríkisskuldabréf vega hlutfallslega mest í þeirri leið af fjárfestingarleiðum Frjálsa lífeyrissjóðsins.
Allar fjárfestingarleiðir sjóðsins skiluðu hærri ávöxtun en viðmið leiðanna, líkt og sjá má á meðfylgjandi mynd. Viðmiðin eru samsett úr eignaflokkum sem endurspegla fjárfestingarstefnu sjóðsins. Árangur gagnvart viðmiði hverju sinni er ein leið til að meta árangur í eignastýringu og sú staðreynd að allar fjárfestingarleiðir sjóðsins voru vel umfram viðmið sýnir að ávöxtun sjóðsins var góð á síðasta ári miðað við markaðsaðstæður.
Ef meðalávöxtun síðustu fimm ára er skoðuð má sjá að ávöxtunin er hæst í áhættumestu leiðinni og svo koll af kolli. Hátt hlutfall hlutabréfa í áhættumeiri leiðum gefur vonir um góða langtímaávöxtun en að sama skapi eru meiri líkur á sveiflum í ávöxtun til skemmri tíma. Í áhættuminni leiðum er hlutfall skuldabréfa hærra og má því búast við jafnari langtímaávöxtun.
Nánari upplýsingar um ávöxtun sjóðsins er að finna hér.