Frétt
Frjálsi lífeyrissjóðurinn valinn besti lífeyrissjóður smáþjóða
25. nóvember 2013Frjálsi lífeyrissjóðurinn hefur verið valinn besti lífeyrissjóður smáþjóða af fagtímaritinu Investment Pension Europe (IPE).
Í umsögn dómnefndar kom meðal annars fram að góð ávöxtun sjóðsins hefði verið byggð á framsýnum fjárfestingarákvörðunum og öflugri áhættustýringu.
Árin 2009-2011 var Frjálsi lífeyrissjóðurinn valinn besti lífeyrissjóður á Íslandi af IPE fagtímaritinu. Í ár og árið 2012 voru ekki veittar viðurkenningar fyrir Ísland sérstaklega heldur keppa sjóðir frá Íslandi nú í flokki smáþjóða, eins og sjóðir átta annarra Evrópulanda með færri en eina milljón íbúa.
Frjálsi lífeyrissjóðurinn, sem er í rekstri hjá Arion banka, er um 130 milljarðar að stærð og sjóðfélagar eru um 47 þúsund talsins. Sjóðurinn hentar þeim sem hafa frjálst val um í hvaða lífeyrissjóð þeir greiða 12% skylduiðgjald og hentar jafnframt þeim sem leggja fyrir í viðbótarlífeyrissparnað.
IPE er eitt virtasta fagtímarit Evrópu um lífeyrismál. Árlega veitir tímaritið þeim lífeyrissjóðum verðlaun sem að mati sérfræðinga IPE hafa skarað fram úr í sínu heimalandi og í Evrópu. Breski lífeyrissjóðurinn Pension Protection Fund var valinn besti lífeyrissjóður í Evrópu að þessu sinni.
Arnaldur Loftsson framkvæmdastjóri Frjálsa lífeyrissjóðsins:
„Verðlaunin eru ánægjulegur vitnisburður um fagleg vinnubrögð við mótun fjárfestingarstefnu og við ákvarðanatöku í eignastýringu sjóðsins. Þau eru starfsfólki og stjórn sjóðsins hvatning til áframhaldandi góðra verka með það að markmiði að ná góðri ávöxtun og veita sjóðfélögum framúrskarandi þjónustu.“
Arnaldur Loftsson framkvæmdastjóri Frjálsa lífeyrissjóðsins tekur við verðlaununum.