Frétt
Ný lög um neytendalán
31. október 2013Ný lög um neytendalán hafa verið samþykkt á Alþingi og munu þau taka gildi 1. nóvember nk. Markmið laganna er að auka neytendavernd og tryggja samræmt lagaumhverfi við veitingu neytendalána, auk þess að stuðla að aukinni neytendavitund um lánskjör og gera neytendum hægara um vik að bera saman ólíka lánssamninga. Kröfur um upplýsingaskyldu lánveitanda eru meiri í nýju lögunum. Gerð er krafa um ítarlegar upplýsingar í auglýsingum þar sem fjallað er um vexti eða önnur kjör vegna lánssamnings og gerðar eru kröfur um vissar upplýsingar sem ber að veita fyrir samningsgerð.
Breytingin fyrir lántakendur Frjálsa lífeyrissjóðsins felst í því að vaxtakjör sem áður voru endurskoðuð ársfjórðungslega verða nú endurskoðuð einu sinni á ári, 15. febrúar. Áður en lán er veitt skal ávallt framkvæma lánshæfismat sem m.a. er byggt á viðskiptasögu lántakanda. Greiðslumat þarf að fara fram ef lánssamningur er 2.000.000 kr. eða meira hjá einstaklingi, eða 4.000.000 kr. hjá hjónum eða sambúðarfólki.