Frétt
Frjálsi lífeyrissjóðurinn kynnir nýja útgreiðslureiknivél og nýja útgáfu af lífeyrisreiknivél
30. ágúst 2013Ný útgreiðslureiknivél hefur litið dagsins ljós hér á heimasíðu Frjálsa lífeyrissjóðsins. Reiknivélin auðveldar sjóðfélögum að átta sig á útgreiðslumöguleikum sjóðsins, en með henni má reikna útgreiðslur séreignar út frá mismunandi forsendum. Einnig er hægt að skoða útgreiðslur ellilífeyris og þau áhrif sem það hefur að flýta eða fresta töku ellilífeyris ásamt áhrifum eingreiðslna aftur í tímann.
Þá hefur Lífeyrisreiknivél Frjálsa lífeyrissjóðsins verið uppfærð en líkt og áður gerir hún sjóðfélögum kleift að setja upp dæmi um lífeyrissparnað með mismunandi forsendum, svo sem launum, lengd innborgunartímabils eða aldri við töku lífeyris. Út frá þeim forsendum sjá sjóðfélagar vænta inneign í séreignarsparnaði og lífeyrisgreiðslur við starfslok. Með uppfærslunni hefur viðmót Lífeyrisreiknivélarinnar verið einfaldað til muna, núverandi réttindi birtast með sama hætti og á lífeyrisyfirlitum auk þess sem myndræn gröf eru orðin skýrari. Niðurstöður birtast fyrir allar samtryggingarleiðir Frjálsa lífeyrissjóðsins, sem varpar ljósi á sérstöðu hverrar leiðar fyrir sig. Loks eru maka-, barna- og örorkulífeyrisgreiðslur aðgreindar frá öðrum niðurstöðum.
Viðskiptavinir eru hvattir til að prófa sig áfram með reiknivélarnar tvær. Hikið ekki við að hafa samband við Lífeyrisþjónustu Arion banka í síma 444 7000 eða á lifeyristhjonusta@arionbanki.is ef spurningar vakna.