Frétt
Þróun markaða árið 2012
24. janúar 2013Skuldabréf og efnahagsmál
Gerðar voru fjórar breytingar á stýrivöxtum árið 2012, samanber þrjár breytingar árið á undan. Peningastefnunefnd Seðlabankans hækkaði vexti um 0,25 prósentustig í mars og voru vextirnir því komnir í 5%. Um miðjan maí hækkaði peningastefnunefndin vextina um 0,5 prósentustig, í 5,5%. Vextir voru svo hækkaðir um 0,25 prósentustig í júní og aftur í nóvember. Í árslok stóðu vextirnir því í 6% og höfðu verið hækkaðir alls um 1,25 prósentustig á árinu. Gengi krónunnar veiktist um 6,3% á síðasta ári en gengi krónunnar hóf að styrkjast á vormánuðum eftir að hafa veikst töluvert fyrstu þrjá mánuði ársins. Styrking krónunnar gekk svo snöggt tilbaka en krónan hóf að veikjast á nýjan leik í ágúst mánuði.Verðbólga síðasta árs mældist 4,5% og reyndist það vera meiri verðbólga en markaðsaðilar áttu almennt von á. Verðbólgan náði hámarki í upphafi árs þegar 12 mánaða breytingin mældist yfir 6%. Þrátt fyrir háa verðbólgu í upphafi árs komu verðbólgumælingar í júlí og ágúst markaðsaðilum nokkuð á óvart en vísitalan lækkaði um 0,7% annars vegar og 0,2% hins vegar. Meðalvísitala neysluverðs árið 2012 var 5,2% hærri en meðalvísitalan 2011. Samsvarandi breyting var 4,0% árið 2011 og 5,4% árið 2010.
Ávöxtunarkrafa óverðtryggðra skuldabréfa hækkaði á árinu sem rekja má til veikingar krónunnar og mikillar verðbólgu í upphafi ársins. Um miðjan marsmánuð voru gjaldeyrishöftin hert með lagabreytingu sem fól í sér að ekki væri lengur heimilt að kaupa erlendan gjaldeyri fyrir andvirði verðbóta og/eða afborgana af höfuðstól skuldabréfa. Krafan á verðtryggðu bréfunum hækkaði í kjölfarið. Þróun á verðtryggðum ríkisskuldabréfum má sjá á myndinni hér að neðan ásamt ávöxtun bréfanna.
Innlend hlutabréf
Árið fór vel af stað, en fyrstu vikuna í maí hafði Úrvalsvísitalan hækkaði um 20% frá áramótum. Frá þeim tíma fór vísitalan lækkandi þar til hún tók kipp upp á við á ný, á síðustu vikum ársins. Þegar árið var liðið hafði vísitalan hækkað sem nam 16,5% frá áramótum.Líkt og árið áður voru það bréf Icelandair Group sem hækkuðu mest allra á síðasta ári, eða um 63%. Bréf Haga hækkuðu næstmest á síðasta ári eða um 40%. Síðasta ár var fyrsta heila ár Haga í Kauphöllinni, en viðskipti hófust með bréf félagsins í desember árið áður eftir vel heppnað útboð. Aukið líf færðist í Kauphöllina á síðasta ári en þrjú félög voru skráð á markað. Viðskipti með bréf Regins hófust um mitt ár og eftir fremur rólega byrjun tóku bréfin að hækka og enduðu árið með 34% hækkun. Sjálft óskabarn þjóðarinnar, Eimskip, var aftur skráð í Kauphöll eftir endurskipulagningu og hófust viðskiptin með bréfin um miðjan nóvember. Um mánuði síðar hófust svo viðskipti með bréf Fjarskipta hf., betur þekkt sem Vodafone. Bréf Eimskips hækkuðu um 10,6% og bréf Fjarskipta um 3,3% á síðasta ári.
Búast má við frekari fjölgun skráðra félaga en allmörg félög hafa boðað komu sína í Kauphöll. Það má því leiða að því líkum að hlutfall innlendra hlutabréfa í eignasöfnum fagfjárfesta, þar með talið lífeyrissjóða, muni aukast á næstunni.
Erlend hlutabréf
Árið 2012 var viðburðaríkt á erlendum mörkuðum. Erfitt virðist vera fyrir stærstu hagkerfi heimsins að komast aftur á réttan kjöl eftir áföll og viðvarandi vandamál á fjármálamörkuðum. Hagvöxtur hefur almennt farið minnkandi um allan heim síðustu misserin og eru ýmsir þættir sem hafa áhrif þar á. Miklar opinberar skuldir ásamt óvissu í stefnu peningamála í Evrópu eru þó sennilega augljósustu vandamálin. Mörg ríki í Suður-Evrópu eru gríðarlega skuldsett og hefur það í einhverjum mæli leitt til fjármagnsflótta frá Suður-Evrópu til norðurs og jafnvel annarra heimsálfa. Þá er atvinnuleysi hátt á evrusvæðinu og vandséð hvernig hægt verður að ráð bót á því á næstu misserum.Eitt helsta vandamálið í Bandaríkjunum er atvinnuleysi og lítill hagvöxtur en Seðlabanki Bandaríkjanna hefur ítrekað ráðist í aðgerðir til að örva hagkerfið sem felast í aukningu peningamagns í umferð og lækkun vaxta.
Heimsvísitala hlutabréfa (MSCI World Index) hækkaði um 13,2% á síðasta ári (18,2% í ISK) og hefur ekki hækkað meira síðan 2009. Örvunaraðgerðir helstu seðlabanka heims virðast hafa haft áhrif á fjárfesta og færslu þeirra yfir í áhættusamari fjárfestingar, þ.e. hlutabréf.