Frétt

Frjálsi lífeyrissjóðurinn í öðru sæti á lista yfir bestu lífeyrissjóði smáþjóða

Frjálsi lífeyrissjóðurinn í öðru sæti á lista yfir bestu lífeyrissjóði smáþjóða

Frjálsi lífeyrissjóðurinn hefur verið valinn næstbesti lífeyrissjóður smáþjóða í Evrópu af fagtímaritinu Investment Pension Europe (IPE). Besti lífeyrissjóðurinn í flokknum var valinn Hotel Employees Provident Fund á Kýpur.

Undanfarin þrjú ár hefur Frjálsi lífeyrissjóðurinn verið valinn besti lífeyrissjóðurinn á Íslandi af IPE fagtímaritinu. Í ár voru ekki veittar viðurkenningar fyrir Ísland sérstaklega heldur keppa sjóðir frá Íslandi nú í flokki smáþjóða, eins og sjóðir annarra Evrópulanda með færri en eina milljón íbúa.

Frjálsi lífeyrissjóðurinn, sem er í rekstri hjá Arion banka, er um 112 milljarðar að stærð og sjóðfélagar eru um 45 þúsund talsins. Sjóðurinn hentar þeim sem hafa frjálst val um í hvaða lífeyrissjóð þeir greiða 12% lágmarksiðgjald og hentar jafnframt þeim sem leggja fyrir í viðbótarlífeyrissparnað.

IPE er eitt virtasta fagtímarit Evrópu um lífeyrismál. Árlega veitir tímaritið þeim lífeyrissjóðum verðlaun sem að mati sérfræðinga IPE hafa skarað fram úr í sínu heimalandi og í Evrópu. Danski lífeyrissjóðurinn Pension Danmark var valinn besti lífeyrissjóður í Evrópu að þessu sinni.

Arnaldur Loftsson framkvæmdastjóri Frjálsa lífeyrissjóðsins:

„Viðurkenning af þessu tagi er ánægjulegur vitnisburður um það starf sem innt hefur verið af hendi í rekstri og eignastýringu sjóðsins. Viðurkenningin mun verða starfsfólki hvatning til áframhaldandi góðra verka sem vonandi skilar sér í farsælum eignastýringarákvörðunum og góðri þjónustu fyrir sjóðfélaga.“