Frétt

Nýr rekstrarsamningur á milli Frjálsa lífeyrissjóðsins og Arion banka

Nýr rekstrarsamningur á milli Frjálsa lífeyrissjóðsins og Arion banka

Stjórn Frjálsa lífeyrissjóðsins og Arion banki hafa skrifað undir nýjan rekstrarsamning sem kveður á um áframhaldandi rekstur og eignastýringu sjóðsins hjá Arion banka. Stjórnin hefur látið gera ítarlega úttekt á mögulegu rekstrarformi sjóðsins til framtíðar. Mat stjórnar var að hagsmuna sjóðsins væri best gætt með því að halda áfram samstarfi við Arion banka um rekstur sjóðsins.

Arion banki tók við rekstri sjóðsins eftir fall Kaupþings 2008. Eins og margoft hefur komið fram þá kom sjóðurinn betur út úr bankahruninu en flestir aðrir lífeyrissjóðir sem einnig má sjá í skýrslu úttektarnefndar lífeyrissjóða. Þeir lykilstarfsmenn sem komu að rekstri og eignastýringu sjóðsins fyrir bankahrun starfa nú við það sama hjá Arion banka.

Ljóst er að næstu misseri þarf að efla eignastýringu lífeyrissjóða og auknar kröfur verða gerðar til áhættustýringar og innra eftirlits. Fyrir Frjálsa lífeyrissjóðinn er það gríðarlegur styrkur að hafa öflugan banka á bak við sig í þeim breytingum sem eru framundan.

Lægri umsýsluþóknun

Frjálsi lífeyrissjóðurinn er nú um 100 milljarðar að stærð og áttundi stærsti lífeyrissjóður landsins. Í nýja rekstrarsamningnum var samið um lægri umsýsluþóknun sjóðsins til bankans fyrir rekstur og eignastýringu. Þóknunin í eldri samningi var árangurstengd og var á bilinu 0,29%-0,59% af hreinni eign sjóðsins háð ávöxtun m.v. viðmiðunarvísitölur sjóðsins. Nú hefur verið fallið frá árangurstengingu og er þóknunin tvískipt. Sjóðurinn greiðir árlega fasta þóknun sem nemur 170 milljónum á ári sem uppfærist m.v. launavísitölu og árlega umsýsluþóknun sem nemur 0,16% af hreinni eign sjóðsins. Með þessu fyrirkomulagi er stefnt á að hlutfallslegur kostnaður sjóðsins lækki eftir því sem sjóðurinn stækkar. Ákvæði um umsýsluþóknun er afturvirkt og skilar sjóðnum tugum milljóna í ábata vegna lægri umsýsluþóknunar.

Stjórn Frjálsa lífeyrissjóðsins og starfsmenn Eignastýringar Arion banka við undirritun nýja rekstrarsamningsins.