Frétt

Frádráttarbært iðgjald lækkar úr 4% í 2% frá áramótum

Frádráttarbært iðgjald lækkar úr 4% í 2% frá áramótum

Tillaga stjórnvalda um að lækka frádráttarbært iðgjald launþega í viðbótarlífeyrissparnað úr 4% í 2% hefur nú verið samþykkt á Alþingi og tekur gildi um næstu áramót. Lagasetningin kallar ekki á að sjóðfélagar þurfi að breyta núgildandi samningum um viðbótarlífeyrissparnað, heldur ber launagreiðanda að tryggja að frjálst framlag launafólks í viðbótarlífeyrissparnað verði ekki umfram 2% af iðgjaldsstofni. Launagreiðendur verða því að annast það verk að lækka sparnað launþega niður í 2% af launum. Engin breyting verður á mótframlagi launagreiðenda en það er 2% af launum skv. flestum kjarasamningum.

Launagreiðandi skal jafnframt hækka iðgjaldið á ný í 4% að þremur árum liðnum nema sjóðfélagi óski eftir að sparnaðurinn verði ekki hækkaður aftur. Æskilegt væri að launagreiðendur héldu utan um það á markvissan hátt hjá hverjum iðgjaldið hefur verið lækkað tímabundið til að geta tryggt að sparnaðurinn hefjist að nýju til samræmis við fyrirliggjandi samninga vegna launa fyrir janúar 2015.

Sjóðfélagar eru hvattir til að fylgjast vel með launaseðlum sínum til að tryggja að ekki verði misbrestur á framkvæmdinni en mikið óhagræði felst í því að greiða áfram hærra en 2% af launum í viðbótarlífeyrissparnað vegna tvísköttunar. Mikilvægt er fyrir launagreiðendur, sem standa skil á iðgjaldinu að gæta að þessum þætti við greiðslu launa eftir gildistöku laganna.

Mikilvægt að halda áfram að spara

Þrátt fyrir að heimildir til að leggja fyrir í viðbótarlífeyrissparnað hafi verið skertar er mikilvægt að spara áfram til efri áranna til að auka tekjur við starfslok. Eftirlaunasárin eru að meðaltali um fjórðungur af fullorðinsárunum og ræður sparnaður mestu um fjárhagslega afkomu á þessu æviskeiði. Það er því mikilvægt að sjóðfélagar mæti þessari breytingu með öðrum sparnaði. Einfaldast er að halda áfram að leggja fyrir á því tímabili sem lögin gilda og til að aðstoða sjóðfélaga hefur verið útbúin reiknivél þar sem hver og einn sjóðfélagi getur séð áhrif umræddra breytinga fyrir sig. Hér fyrir neðan er tengill sem hægt er að smella á til að fara á reiknivélina og fá hugmyndir að því hvernig hægt er að spara með öðrum hætti vegna lagabreytingarinnar. 

Tímabundin lækkun séreignasparnaðar úr 4%-2%